Lagasetning um Tónlistarmiðstöð og tónlistarstefnu

Þann 8. maí sl. var á Alþingi samþykkt frumvarp Lilju Daggar Alfreðsdóttur, menningar-, viðskipta- og ferðamálaráherra, um fyrstu heildarlöggjöf um tónlist, sem byggir á formlegri tónlistarstefnu, sem gildir til ársins 2030 og gengur út á að efla umgjörð fyrir sköpun og flutning tónlistar á Íslandi, marka heildarramma fyrir málefni tónlistar og búa henni hagstæð skilyrði.

STEF skilaði umsögn til þingsins um þessi mál (einnig í samráðsgátt stjórnarráðsins, þegar málið var enn á stjórnsýslustigi). Þessi lög leggja grunn að stofnun sérstakrar „Tónlistarmiðstöðvar“ og fela í sér endurskipulag sjóðakerfis hins opinbera á sviði tónlistar. Í lögunum er sömuleiðis að finna ákvæði um sérstakt Tónlistarráð, sem verður stjórnvöldum og Tónlistarmiðstöð til ráðgjafar um málefni tónlistar af öllum toga.

Í umsögn STEFs var að finna smávægilegar athugasemdir við nokkur atriði í þessum tillögum, en fyrst og fremst lýsti STEF ánægju með það skref að stofnuð verði Tónlistarmiðstöð, svo og að sett verði fyrsta formlega tónlistarstefna landsins.

Á meðfylgjandi mynd hampar Lilja nýsamþykktu frumvarpinu á Alþingi, eftir að það var samþykkt.

Scroll to Top