Rekstrartekjur STEFs rúmur milljarður á árinu 2022

Aðalfundur fulltrúaráðs STEFs var haldinn þann 17. maí. Þar var fundarmönnum kynntur endurskoðaður ársreikningur samtakanna. Þau fjárhagslegu vatnaskil urðu á sl. ári, að rekstrartekjur STEFs fóru í fyrsta skipti yfir milljarð króna. Fundurinn var annars tíðindalítill, en þó urðu nokkrar umræður um áhrif gervigreindar á tónlistarbransann og ýmsar áskoranir sem því fylgja, nokkuð sem eflaust mun verða töluvert til umræðu á komandi árum, ekki síst á sviði höfundaréttar. Hér gefur að líta árs- og gagnsæisskýrslu STEFs, en þar er að finna fréttir frá starfsárinu og lykiltölur úr ársreikningi. Forsíðuna í ár prýðir Magnús Kjartansson, sem á dögunum var sæmdur heiðursverðlaunum Íslensku tónlistarverðlaunanna, en eins og höfundum er flestum kunnugt, þá er Magnús fyrrum stjórnarformaður STEFs.

Scroll to Top