Skattamál: Hagkvæmast að vera í STEFi

Nýlega vann skattsérfræðingur hjá endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækinu PwC álit fyrir STEF um skattamál höfunda og heimilisfesti, hvar einkum er horft til skattalegs hagræðis þess að rétthafi sé meðlimur í STEFi fremur en erlendum höfundaréttarsamtökum.

Í stuttu máli er niðurstaðan sú, að verulegt skattalegt hagræði er af því að höfundar búsettir hér á landi séu meðlimir í STEFi.

Stytt samantekt helstu punkta úr álitinu:

  • STEF annast greiðslu á fjármagnstekjuskatti af útgreiddum tekjum til höfunda. Þegar höfundur hefur fengið greitt frá STEFi, þá er þannig búið að draga frá 22% fjármagnstekjuskatt.
  • STEF annast það fyrir hönd höfunda, að afla skattskylduvottorða til að komast hjá tvískattlagningu í upprunalandi höfundaréttartekna í þeim ríkjum sem Ísland hefur tvísköttunarsamninga við. Sé höfundur EKKI meðlimur í STEFi, en engu að síður búsettur á Íslandi, þá þarf höfundurinn sjálfur að sjá um allt það sem viðkemur skattgreiðslunni og því sjálfur að afla skattskylduvottorðs, telja tekjurnar fram á framtali og greiða fjármagnstekjuskatt allt að ári eftir að þeirra hefur verið aflað.
  • Hafi skattur verið dreginn af tekjunum erlendis sem er nánast öruggt að hafi verið gert, þarf viðkomandi að óska sérstaklega eftir frádrætti hér á landi, sem samsvarar þeim skatti sem greiða hefði átt af tekjunum hér á landi (eða sem samsvarar þá 22% fjármagnstekjuskatti). Hafi höfundurinn engu að síður greitt hærri skatt erlendis en hann hefði greitt hér á landi sem meðlimur í STEFi, (sem er einnig mjög líklegt þar sem Ísland er eina landið sem býður upp á það skattahagræði að greiða 22% fjármagnstekjuskatt í stað hefðbundins launaskatts) þá þarf hann sjálfur að hafa samband við hin erlendu skattyfirvöld og óska eftir endurgreiðslu á mismuninum.

Hér er nánari fróðleikur um þessi mál.

Scroll to Top