Tónleikaúthlutanir: Breyttar reglur, hærri úthlutun

Næsta tónleikaúthlutun (15. maí) verður hin fyrsta eftir að gerð var breyting á reglum fyrir slíkar úthlutanir. Breytingin er að sænskri fyrirmynd og felst í því að innheimt fé af tónleikum sem ekki er hægt að tengja spilunarlistum, sökum þess að þeir hafa ekki borist, verður að hluta til bætt ofan á úthlutun fyrir þá tónleika sem úthlutað er fyrir hverju sinni, þ.e.a.s. þá sem fylgt hafa lagalistar, en það er grundvallarskilyrði fyrir því að hægt sé að úthluta.

Fram til þessa hefur þessu „munaðarlausa“ fé verið bætt ofan á úthlutun fyrir útvarp og sjónvarp í aðalúthlutun hvers árs.

Með þessu er hægt að úthluta hærri upphæð á hvern lagalista. En jafnframt er horft til þess að þetta megi verða tónleikahöldurum hvatning til að skila inn lagalistum.

Stjórn STEFs ákvað að hækkunin yrði 10% umfram það sem ella hefði verið úthlutað fyrir viðkomandi tónleika. Þess má geta að umsýsluþóknun fyrir tónleikaúthlutanir hefur einmitt verið 10%, þannig að líta má svo á að með þessari hækkun núllist umsýsluþóknunin út.

Scroll to Top