Úthlutanir

Öllu fé sem STEF innheimtir er úthlutað til rétthafa (að frádregnum rekstrarkostnaði). Árlega eru fastar úthlutanir alls 14. Árið 2024 sem hér segir:

14. mars

NMP: Netstreymi
NMP Distribution

21. mars

Erlendar greiðslur
Foreign Distribution

15. maí

Tónleikaúthlutun
Concert Distribution

13. júní

Miðsumarsúthlutun
Midsummer Distribution

13. júní

NMP: Netstreymi
NMP Distribution

13. júní

NCB: Eintakasala & streymi
NCB Distribution

20. júní

Erlendar greiðslur
Foreign Distribution

12. sept.

Erlendar greiðslur
Foreign Distribution

12. sept.

NMP: Netstreymi
NMP Distribution

13. nóv.

Tónleikaúthlutun
Concert Distribution

14. nóv.

Erlendar greiðslur
Foreign Distribution

5. des.

NMP: Netstreymi
NMP Distribution

5. des.

NCB: Eintakasala & streymi
NCB Distribution

12. des.

Aðalúthlutun
Main Distribution

Nánari upplýsingar um úthlutanir

Tekjum sem STEF innheimtir fyrir flutning tónverka, að frádregnum rekstrarkostnaði, er úthlutað til höfunda og annarra rétthafa nokkrum sinnum á ári, eftir því um hvers konar tekjur er að ræða. Úthlutað er með hliðsjón af úthlutunarreglum STEFs.

Sérstök úthlutunarnefnd fer yfir úthlutun ár hvert, en hún er skipuð framkvæmdastjóra, endurskoðanda og einum utanaðkomandi aðila.

Skilagreinar fyrir úthlutanir eru birtar á Mínum síðum, þar sem rétthafar hafa aðgang að þeim. Kennitala rétthafa er notendanafn hans, en sérstöku lykilorði er úthlutað í fyrsta sinn sem rétthafi skráir sig inn á Mínar síður.

Greiðslur eru lagðar inn á bankareikning þann sem rétthafi hefur látið STEF fá upplýsingar um. Beiðnum um breytingar á bankareikningi er best að koma á framfæri með því að senda tölvupóst á info@stef.is eða með því að hringja í síma 561 6173.

Ein algengasta spurningin sem STEFi berst varðandi úthlutun, er hve mikið sé greitt fyrir hverja „spilun“ í útvarpi. Fyrirfram er ekki hægt að segja hve mikið fæst greitt fyrir flutning á verki. Það ræðst annars vegar af þeim tekjum sem eru til ráðstöfunar skv. ársreikningi STEFs og hins vegar af því hversu mikla spilun er um að ræða hjá viðkomandi útvarpsstöð.

Spilun hvers lags gefur viðkomndi höfundum tiltekið magn af „punktum“, eftir því hve oft lagið er spilað og hversu langt það er (m.ö.o. hversu „langa“ spilun það hefur fengið samtals í mínútum talið). Heildarpunktafjölda er deilt í þá fjárhæð sem útvarpsstöðin hefur greitt til STEFs og þá sést hversu „verðmætur“ hver punktur er á viðkomandi útvarpsstöð, þ.e. hve mikið fæst greitt fyrir hvern punkt. Þannig getur verið mismikið greitt fyrir flutning sama lagsins, eftir því á hvaða útvarpsstöð það er spilað, en stærstu útvarpsstöðvarnar greiða STEFi hlutfall af heildartekjum sínum.

Auk þessa hefur tónlistarnotkun (hlustun) útvarpsstöðva áhrif á „verðmæti“ spilunar, en hlustun er auðvitað mismikil á hverja stöð. Þannig er spilun lags á stöð sem hefur mikla hlustun verðmætari en spilun lags á stöð sem hefur litla hlustun.

Vert er að hafa í huga, að þegar greitt er fyrir innlenda útvarpsspilun (Miðsumarsúthlutun og Aðalúthlutun), þá er jafnan verið að greiða fyrir spilun á árinu á undan, enda berast spilunarskýrslur eftir á til STEFs.

Við Aðalúthlutun í desember er ekki aðeins greitt fyrir útvarpsflutning. Á skilagreinum má sjá ýmsa aðra liði, s.s. flutning í sjónvarpi, kvikmyndasýningar, sívinsæl verk, svo og verk sem flutt eru við kirkjulegar athafnir, svo sem giftingar og jarðarfarir.

STEF innheimtir höfundaréttargjöld frá fjölda viðskiptavina sem ekki er gert að skila inn sérstökum skýrslum um þá tónlist sem þeir flytja. Þetta á t.d. við um veitingastaði, verslanir, heilsuræktarstöðvar, hárgreiðslustöðvar o.s.frv.

Ef slíkir „bakgrunnstónlistarstaðir“ nýta sér hins vegar streymisþjónustuveitur, sem hafa samning við STEF (t.d. Atmo Select eða Megafone), þá fær STEF senda lagalista sem sýna hvaða tónlist hefur verið flutt á hverjum stað fyrir sig og getur þá úthlutað tilheyrandi tekjum í samræmi við þær upplýsingar.

Liggi slíkir listar ekki fyrir, þá er bakgrunnstekjum úthlutað í samræmi við reglu sem stjórn STEFs setur á hverjum tíma, sbr. sérstaka heimild í úthlutunarreglum STEFs. Er reglan nú (des. 2023) þannig að 40% bakgrunnstekna án tónlistarskýrslna er úthlutað í samræmi við úthlutun fyrir streymi (frá tónlistarveitum eins og Spotify o.fl.), 40% er úthlutað í samræmi við tónlistarskýrslur frá streymisþjónustum sem útbúa lagalista fyrir verslanir o.fl. (sbr. hér að ofan) og 20% í samræmi við útvarpsúthlutun.

Einnig er boðið upp á að höfundar sjálfir sent STEFi lagalista yfir tónlist sem þeir flytja í bakgrunni, t.d. fyrir bargesti eða kvöldverðargesti, eða ef þeir vita til þess að notuð er í bakgrunni. Er þá notað sama form lagalista og þegar um tónleika er að ræða. Er slíkt þá sérstaklega skoðað af skrifstofu STEFs.

STEF úthlutar tvisvar sinnum á ári fyrir lifandi flutning á tónleikum eða sambærilegum viðburðum. Undantekning frá þessu er flutningur Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en úthlutað er fyrir flutning hennar árlega, í s.k. aðalúthlutun.

Forsenda fyrir tónleikaúthlutun er að STEFi hafi borist greiðsla vegna þeirra sem og tilheyrandi lagalisti. Tónleikahaldari ber ábyrgð á að greiða og senda inn lagalista. Hins vegar er höfundum, sem vita af því að lög þeirra hafi verið flutt, bent á að það borgi sig að þeir sjálfir láti STEF vita af slíku. Almennt greiða tónleikahaldarar 4,24% af miðaverði í höfundaréttargjöld, en af því sem innheimtist heldur STEF eftir 10% í umsýslugjald. Ef ókeypis er á tónleikana eða miðaverð mjög lágt, þá er greitt lágmarksgjald til STEFs, sem miðast við fjölda gesta. Sumir tónleikastaðir hafa samning við STEF um að greiða föst árgjöld vegna allra tónleika sem þeir halda og greiða þá ekki hlutfall af miðasölu hverra einstakra tónleika.

Innheimt fé af tónleikum, sem ekki er hægt að tengja spilunarlistum, sökum þess að þeir hafa ekki borist, er að hluta til bætt ofan á úthlutun fyrir þá tónleika sem úthlutað er fyrir hverju sinni, þ.e.a.s. þá sem fylgt hafa lagalistar, en sem fyrr sagði er það forsenda fyrir því að hægt sé að úthluta.

Sveitarfélög og mörg íþróttafélög greiða höfundaréttargjöld til STEFs vegna notkunnar tónlistar í æsku- og tómstundastarfsemi. Höfundar geta einnig skilað inn lagalistum vegna flutnings tónlistar á viðburðum sem slík félög standa fyrir, þótt það teljist ekki til eiginlegra tónleika.

  • Höfundur geta tilkynnt um flutning verka á tónleikum (lagalista) í gegnum „Mínar síður“.
  • Tónleikahaldarar geta sent inn lagalista hérna.

STEF er aðili að alþjóðasamtökunum CISAC sem er samband höfundaréttarfélaga um víða veröld. Með gagnkvæmum samningum við systursamtök, sem einnig eru aðilar að CISAC tryggir STEF réttindi erlendra rétthafa hér á landi, og erlend systurfélög tryggja réttindi STEF-félaga í sínu landi. Þannig er höfundaréttargæsla net sem nær um heiminn allan. Hvert félag setur sér sínar reglur innan ramma höfundaréttarins og ákveður innheimtu- og úthlutunaraðferðir sínar. M.a. ræður hvert félag hversu mikið er greitt fyrir ákveðna tegund flutnings, en þær reglur gilda jafnt fyrir innlenda sem erlenda höfunda. Þetta þýðir með öðrum orðum að STEF getur ekki ákveðið hversu mikið eitthvert systurfélag á að greiða fyrir flutning á íslensku verki, en tekur á móti þeirri greiðslu sem send er, enda sé hún í samræmi við úthlutunarreglur viðkomandi félags. Upplýsingar um lengd og gerð verka eru sendar á milli landa til þess að fá sem réttastar greiðslur.

Greiðslur frá erlendum systursamtökum eru að berast allt árið, enda er misjafnt á hvaða árstíma hvert félag sendir úthlutanir sínar. Frá stærri samtökum berast greiðslur ársfjórðungslega en stundum berast greiðslur frá þeim aðeins einu sinni á ári. Skilagreinar sem fylgja greiðslunum sýna hvaða verk voru leikin, hver höfundurinn er og hvernig höfundargreiðslan skiptist. Venjulega er verið að greiða fyrir spilun á næstliðnu ári eða árinu þar á undan. Ljóst er því að kerfið vinnur hægt en þó örugglega. Greiðslum erlendis frá er úthlutað frá STEFi fjórum sinnum á ári, í mars, júní, september og nóvember.

Á skilagreinum STEFs með erlendum úthlutunum má sjá frá hvaða landi greiðslan barst og hvaða verk var verið að leika. Senda þarf skriflega beiðni til þess að fá nánari útlistanir á því hvernig greiðslan er til komin, en þó er engin trygging fyrir því að erlenda skilagreinin veiti frekari upplýsingar en koma fram á skilagrein STEFs.

STEF aðstoðar gjarnan meðlimi sína við að tryggja sér greiðslur fyrir lifandi flutning erlendis frá. Til að slíkt sé gerlegt þarf STEF að hafa upplýsingar um tónleikaferðir meðlima sinna erlendis svo og lagalista yfir flutt verk. Best er að senda slíkar upplýsingar á netfangið info@stef.is

Úthlutanir frá NCB koma fjórum sinnum á ári og eru sendar áfram eftir að unnið hefur verið úr gögnum NCB á skrifstofu STEFs. Tvisvar sinnum á ári vegna útgáfu hljóðrita og tvisvar sinnum á ári vegna tekna frá tónlistarveitum á netinu.

Greiðslur fyrir sölu á hljóðritum á fyrri hluta árs (janúar-júní) eru sendar rétthöfum í byrjun janúar, um það bil fjórum vikum eftir að aðalúthlutun hefur verið send í desember, en greiðslur fyrir sölu á hljóðritum seinni hluta ársins (júlí-desember) eru venjulega sendar út fyrstu vikuna í júlí árið eftir. Ræðst þetta af uppgjörstímabili útgefenda með fastan samning sem gera upp fyrir seld eintök.

Ekki er greitt jafnmikið fyrir öll lög á sama hljóðriti, heldur fer greiðslan eftir því hvað verkið er langt. Er þá reiknað hlutfall lagsins miðað við heildartímann. Þetta hlutfall kemur fram á skilagreininni sem prósentutala: hlutdeild í hljóðriti. Meira fæst greitt fyrir langt lag en stutt.

Úthlutun frá STEFi fyrir streymi

Greiðslur frá STEFi fyrir streymi koma annars vegar sem hluti af úthlutun erlendra tekna, en hins vegar sem úthlutun frá NMP. Fer það eftir því í hvaða landi streymið á sér stað í hvorn flokkinn greiðslan fer. Í tilviki Spotify, sem skilar mestum tekjum af streymisveitum, þá fær STEF greitt beint frá þeim í tilteknu löndum sem eiga aðild að þjónustusamningnum við NMP. Þau lönd hins vegar, sem ekki falla undir þann samning, greiða til STEFs fyrir streymi í gegnum systursamtök STEFs í viðkomandi löndum.

Til viðbtótar fær STEF streymsgreiðslur frá Bandaríkjunum (í gegnum NCB), sem koma frá MLC-stofnuninni (Mechanical Licensing Collective) fyrir s.k. „mekanísk“ réttindi, eða eintakagerð, sem á sér stað við streymi.  Um er að ræða sérstakt bandarískt kerfi sem á sér ekki hliðstæðu annars staðar. Nánar má fræðast um þetta hér undir liðnum „Mekanísk“ réttindi > Eintakagerð.

Hvað hefur áhrif á streymisgreiðslur?

  • Hvað STEF (eða systursamtök í öðrum löndum) fá samkvæmt samningi af áskriftartekjum (og auglýsingatekjum) viðkomandi streymisþjónustu. Áskriftamódel streymisþjónustunnar hafa því bein áhrif á tekjur höfunda.
  • Hvort höfundurinn er með tónlistarforleggjara (e. publisher) eða ekki. Sé höfundur með slíkan samning, þá fær forleggjarinn oftast sína hlutdeild beint frá streymisveitunni í samræmi við fyrirliggjandi samningi.
  • Hversu mörgum lögum var streymt á streymisveitunni á viðkomandi uppgjörstímabili.
    Þessi úthlutunaraðferð er nefnd hlutfallsaðferð (e: „pro rata“) og felst í því að tekjur af viðkomandi tímabili eru settar í einn pott og þeim deilt á heildarfjölda spilanna í viðkomandi landi á sama tímabili. Þess ber að geta, að heildarfjöldi streyma miðað við áskriftartekjur á t.d. Spotify, hefur hingað til verið nokkuð meiri hérlendis en í mörgum öðrum löndum. Eitt streymi á Íslandi gefur því örlítið hærri tekjur í úthlutun en eitt streymi erlendis.

Vert er að benda á, að STEF fær sáralitlar tekjur af fríþjónustu Spotify, en slíkur aðgangur er þó talinn nauðsynlegur fyrir streymisþjónustur til að búa síðar til greiðandi áskrifendur.

Hins vegar greiðir STEF það sama fyrir hvert skráð streymi, hvort sem það átti sér stað í gegnum greiðandi áskrifanda eða áskrifanda með fríþjónustu (svo lengi sem STEF er með samning við viðkomandi streymisþjónustu).

Útgefendur (og þar með flytjendur) búa hins vegar við annað uppgjörsmódel. Í því sambandi má nefna að hlutfallslega fá höfundar mun lægri tekjur af streymi en útgefendur (og líkast til flytjendur, sem fá greitt frá útgefendum samkvæmt sínum samningum). Systursamtök STEFs, sem og alþjóðasamtök, hafa á síðustu árum í vaxandi mæli bent á hversu ósanngjörn sú tekjuskipting er. En það er önnur saga.

Þá má einnig benda á, að ekki er hægt að bera tekjur af t.d. útvarpsspilun saman við tekjur af streymi, en greiðsla fyrir eina útvarpsspilun er mörghundruð sinnum hærri en fyrir eitt streymi. Má enda líta á það þannig, að eitt streymi sé í raun eins og einn hlustandi að útvarpi.

Til að skilja betur greiðsluflæði frá streymisveitum má benda á flæðirit sem sjá má hér.

Samkvæmt úthlutunarreglum STEFs, úthlutar STEF sérstaklega fyrir frumflutning verka, með því markmiði að hvetja til nýsköpunar. Greitt er fyrir frumflutning verka í desemberúthlutun ár hvert.

Úthlutun fyrir frumflutning – breyting á verklagi. Samþykkt af stjórn STEFs í júní og svo ágúst 2024

Markmið þessara verklagsreglna er að koma í veg fyrir hugsanlega misnotkun á verklagi fyrir úthlutun fyrir frumflutning.

  1. Fjárhæð í frumflutningspotti skal breytast til samræmis við fjölda frumfluttra verka (punkta) í stað þess að fjárhæðin sé sú sama (með verðbreytingum) ár eftir ár. Þannig verður minni sveifla milli ára á greiðslum fyrir frumflutning.

Greiðast 5 kr. fyrir hvern punkt. Þessi fjárhæð skal breytast árlega í samræmi við vísitölu. Fyrir þriggja mínútna verk yrði þá greitt skv. ofangreindu kr. 4.320 kr. í frumflutning.

  1. Ekki skal tekið við sérstökum tilkynningum um frumflutning frá höfundum, heldur þarf að liggja fyrir einhvers konar sönnun um flutning, s.s. frá tónleikahaldara, fjölmiðlum eða sem úthlutun frá erlendum systursamtökum eða NCB eða NMP.
  1. Þak skal sett á það hvað einstakt verk getur fengið úthlutað í frumflutningi. Fyrir árið 2024 skal þakið vera 100 þúsund kr. Fjárhæðin breytist þó árlega í samræmi við vísitölu.

Miðað við úthlutun síðasta árs þýðir það í raun að verk sem eru lengri en 70 mínútur lenda í þakinu.

  1. Hámark er á fjölda verka frá einum og sama höfundi sem geta fengið úthlutað frumflutningsálagi ár hvert.

Hámarkið eru 50 verk á ári. Í því sambandi skal sérstaklega passað að þetta hámark komi ekki niður á meðhöfundum, sem eiga þá færri verk frumflutt. Þak þetta nær þó ekki til kvikmyndaverka, þar sem eitt „tónspor“ í kvikmynd getur innihaldið marga verkhluta, sem hver og einn skráist eins og nýtt verk.

Samkvæmt íslenskum höfundalögum er höfundur alltaf einstaklingur og því er einungis hægt að skrá einstaklinga sem höfunda af verkum hjá STEFi og einungis höfundar geta verið eiginlegir meðlimir með kjörgengi til stjórnar og fulltrúaráðs STEFs.

Höfundar geta þó ákveðið að fyrirtæki eða aðrir en þeir sjálfir taki við greiðslum fyrir verk þeirra og geta tilkynnt um slíkt til skrifstofu STEFs. Ef fyrirtæki tekur við höfundaréttargreiðslum heldur STEF ekki eftir staðgreiðslu tekjuskatts, heldur telur fyrirtækið þá fram tekjurnar og greiðir af þeim tekjuskatt fyrirtækja. Nánari upplýsingar um skattgreiðslur af höfundaréttartekjum eru hér að neðan.

Um skattlagningu höfundaréttartekna

Frá og með 1. janúar 2020 eru höfundaréttargreiðslur skattlagðar sem fjármagnstekjur einstaklinga utan rekstrar. Fjármagnstekjuskattur er einungis greiddur af einstaklingum (ekki félögum). Ekki er heimilt að draga frá nokkurn kostnað af fjármagnstekjum.

STEF heldur eftir staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts við úthlutanir til allra einstaklinga og stendur skil á þeim fjármunum til skattayfirvalda skv. reglum sem þar um gilda. Upplýsingar um höfundaréttartekjur frá STEFi og skattheimtu verða síðan forskráðar á skattframtöl rétthafa.

Fái höfundar höfundaréttartekjur annars staðar frá, sem teljast tekjur vegna „síðari afnota“ (eins og það heitir í lögunum), getur viðkomandi einnig talið þær tekjur fram sem fjármagnstekjur. Það er þá gert eftir á, á skattframtali viðkomandi rétthafa. Dæmi um slíkt gæti verið tekjur vegna leigu eða sölu á nótum eða vegna afnota á tónverki í auglýsingu eða tekjur sem höfundar fá frá tónlistarforleggjurum (e. publishers).

Um höfundaréttartekjur og rekstrarfélög

STEFi ber ekki að að draga fjármagnstekjuskatt frá þeim höfundum sem framselt hafa fjárhagslegan hluta höfundaréttar síns til rekstrarfélags í þeirra eigu eða annarra. Þær úthlutanir renna því óskertar frá STEFi til viðkomandi félaga, sem síðan eru skattlögð skv. reglum sem gilda um viðkomandi félagaform.

Hins vegar er ljóst að það er eingöngu í undantekningartilvikum sem slíkt fyrirkomulag borgar sig, þar sem sérfræðingar hafa bent á að frádráttarbær kostnaður þurfi að vera um og yfir 40% af rekstrartekjum viðkomandi félags svo að sú leið feli í sér ávinning umfram það að þiggja tekjurnar sem einstaklingur utan rekstrar.

Um verktakayfirlýsingar

Með lagabreytingunni missa verktakayfirlýsingar (sem sumir höfundar gáfu áður út) gildi sitt, því sem fyrr segir flokkast höfundarréttartekjur eftirleiðis sem fjármagnstekjur einstaklinga utan rekstrar. Af þeim sökum falla verktakayfirlýsingar í raun sjálfkrafa úr gildi, enda fylgir þeim ekki hagræði eftir breytingarnar.

Erfingjar

Ef einn erfingi tekur við höfundaréttargreiðslum fyrir hönd fleiri erfingja en sjálfs síns, verða tekjurnar forskráðar á hans/hennar skattframtal, sem og hinn greiddi fjármagnsskattur.

Þeim sem vilja kynna sér málið nánar er bent á að skoða lög 111/2019 á vef Alþingis (smella hér), sem og viðkomandi reglugerð (smella hér).

Samkvæmt íslenskum höfundalögum er verk verndað af höfundarétti í sjötíu ár frá lokum þess almanaksárs sem höfundur deyr. Við landát höfundar fellur höfundarétturinn til erfingja hans í samræmi við erfðalög og erfðaskrá ef slík ráðstöfun arfs liggur fyrir. Oftast er um fleiri en einn erfingja að ræða, en því miður getur STEF að jafnaði ekki greitt þeim hverjum fyrir sig, heldur er nauðsynlegt að erfingjarnir tilnefni einn aðila, t.d. einn úr sínum hópi, til þess að taka við höfundarréttargreiðslum fyrir hönd allra erfingjanna. Er það í samræmi við ákvæði samþykkta STEFs sem viðkomandi rétthafi hefur skuldbundið sig og erfingja sína til að fylgja.

Í maí 2022 fór fram sérstök úthlutun vegna viðspyrnuaðgerða ríkisstjórnarinnar í ljósi tekjufalls tón- og sviðslistafólks vegna COVID-19 á árunum 2020 og 2021. Tónhöfundum voru eyrnamerktar 150 milljónir og var þeim úthlutað skv. sérstökum reglum þar um, sem hægt er að kynna sér með því að smella hér.

Samspil Miðsumarsúthlutunar og Aðalúthlutunar

Miðsumarsúthlutun, sem komið var á 2018, er í raun inngreiðsla á það sem höfundar þekkja sem „Aðalúthlutun“. Miðsumarsúthlutunin tekur reyndar aðeins til hluta spilunar á útvarpsstöðvum RÚV og Sýnar (auk bakgrunnstónlistar). Aðalúthlutun í desember tekur líka til þeirra stöðva, en einnig til flutnings á öllum öðrum útvarpsstöðvum og í sjónvarpi. Auk þess inniheldur Aðalúthlutun frumflutningsálag sem og þóknun v. eintakagerðar til einkanota (IHM).

Vægi bakgrunnstónlistar

Frá og með Miðsumarsúthlutun 2020 var hluti úthlutunarinnar (þá u.þ.b. þriðjungur) sérmerktur á skilagreinum sem „bakgrunnstónlist“, m.ö.o. ekki skilgreind útvarpsspilun. Bakgrunnstónlist hafði fram að því ekki verið sér liður á skilagreinum.

Hugtakið „bakgrunnstónlist“ vísar til flutnings tónlistar í almannarýmum (t.d. verslunum og veitingastöðum), en á bakvið slíkan flutning liggja ekki spilunarskýrslur, hann er m.ö.o. óskilgreindur. Bakgrunnstónlist hefur reyndar alltaf verið hluti af innheimtu og úthlutun, en lengst af var þeim upphæðunum hlaðið ofan á það sem úthlutað var fyrir flutning á útvarpsstöðvum.

Ástæðan fyrir því að bakgrunnstónlistin var gerð að sérstökum lið á skilagreinum er m.a. sú, að glöggva höfunda betur á umfangi bakgrunnstónlistar í heildarmyndinni, en þessi liður hefur stækkað jafnt og þétt, t.d. eftir því sem veitingahúsum og þjónustufyrirtækjum hefur fjölgað.

Úthlutunarreglur STEFs
Smellið hér til að hlaða niður PDF-skjali með úthlutunarreglum STEFs.

1. grein

Höfundaréttargreiðslum þeim, sem STEFi ber að greiða tónskáldum, textahöfundum og öðrum rétthöfum fyrir flutning tónverka, skal úthlutað samkvæmt höfundalögum og þeim reglum sem hér fara á eftir.

2. grein – Almennar meginreglur um úthlutun

STEF innheimtir höfundaréttargjöld fyrir flutning tónverka. Af þeim er dreginn kostnaður við starfsemi samtakanna og samþykkt framlag í Menningarsjóð STEFs. Upphæðinni sem þá er eftir er úthlutað til rétthafa eftir á, miðað við flutning verka þeirra á því ári sem gjöldin falla til.

Tillit skal tekið til eftirtalinna sjónarmiða við úthlutun á höfundaréttargreiðslum eftir því sem við á:

1. Kostnaðar við innheimtu höfundaréttargjalda samkvæmt síðasta staðfesta ársreikningi. Á þeirri meginreglu eru eftirfarandi undantekningar:

1.1  Vegna innheimtra tekna af tónleikum reiknar STEF 10% umsýslukostnað.
1.2  Vegna innheimtra tekna frá erlendum systursamtökum reiknar STEF 3% umsýslukostnað.
1.3  Vegna innheimtra tekna frá alþjóðlegum tónlistarveitum reiknar STEF 3% umsýslukostnað.

2. Hlutfalls verndaðrar tónlistar af því efni sem flutt er, til dæmis í dagskrá útvarpsstöðva eða á tónleikum, þannig að hærri greiðslum sé úthlutað eftir því sem hlutfallið eykst.

3. grein – Framlag í Menningarsjóð STEFs

Menningarsjóður STEFs styður við framgang íslenskrar tónlistar í samræmi við ákvæði samþykkta STEFs. Framlag í Menningarsjóð STEFs má nema allt að 10% af innheimtum höfundaréttargjöldum, að frádregnum kostnaði, eftir ákvörðun aðalfundar samtakanna hverju sinni.

4. grein – Sviðsverk – stórréttindi

Að því marki sem áður útgefin tónlist er notuð í sviðsverkum skal úthlutað hlutfallslega miðað við þau höfundaréttargjöld sem innheimt eru af hverju leikhúsi fyrir sig, eða þeim sem setur upp sviðsverk og þeim tónlistarskýrslum sem berast.

Samkvæmt aðildarsamningum STEFs við meðlimi hefur STEF ekki umboð til að semja um stórréttindi þeirra (e: Grand Rights) og þar af leiðandi úthlutar STEF ekki til höfunda vegna slíkra nota. Það er eingöngu á forræði tónhöfunda sjálfra að semja um flutningsrétt verka sem falla undir stórréttindi.

Hugtakið stórréttindi á við um tónverk sem hafa verið sérstaklega samin til að vera hluti af leikverki, s.s. ef um er að ræða leikhúsverk, óperu, söngleik, ballett eða dansverk. Leikhúsverk telst að þessu leyti vera verk með einhverskonar söguþræði og/eða persónum. Í flestum slíkum tilvikum fer rétthafi sviðsverksins með réttinn til að semja um uppsetningu þess eða aðra notkun og þar með tónlistarinnar í verkinu og ber hann þá ábyrgð gagnvart tónhöfundum að gæta réttinda þeirra.

Mörkin á því hvort uppsetning teljist falla undir stórréttindi eða ekki fer eftir því hvort tónverkið sé flutt með búningum, leikmynd og leikgerð sem vísar til upphaflegs sviðsverks. Leyfi STEFs vegna tónlistar í sviðsverki fylgir þó ekki leyfi til notkunar vörumerkis upphaflegs sviðsverks, bíómyndar eða t.d. nafna þekktra listamanna.

Ef tónverk sem er hluti af sviðsverki og stórréttindum er flutt sem hluti af öðru sviðsverki en því sem það var sérstaklega samið fyrir, eða ef það er flutt á tónleikum, þá telst ekki vera um stórréttindi að ræða og veitir þá STEF leyfi fyrir flutningnum og úthlutar fyrir á hefðbundinn hátt sem verk flutt á tónleikum eða verk flutt í leikhúsi, enda sé verkið eða hlutar þess skráðir hjá STEFi.

Hafi tónlist sviðsverksins verið gefin út sem hljóðrit eða sem hljóð- og myndverk, þurfa þeir aðilar sem á annað borð hafa heimild STEFs til opinbers flutnings ekki sérstakt leyfi fyrir flutningi verksins í miðlum sínum og er þá úthlutað fyrir slíkan flutning eins og annan sjónvarps- eða útvarpsflutnings eða þá t.d. flutning í kvikmyndahúsum, í endurvarpi eða VOD þjónustu. Á slíkt einnig við um óútgefin verk, hafi viðkomandi aðili sem flytur verkið opinberlega á annað borð heimild til flutnings verksins. Í öllum þessum tilvikum úthlutar STEF fyrir flutninginn eins og fyrir annan flutning í viðkomandi miðli. Það sama á við ef hluti sviðsverks sem telst til stórréttinda er hluti af þáttum eða heimildamyndum sem sjónvarpað er.

Ef viðkomandi verk er flutt erlendis fer það eftir reglum höfundaréttarsamtaka í viðkomandi landi hvort flutningur þess þar telst falla undir stórréttindi eða ekki.

5. grein – Úthlutunarflokkar

Höfundaréttargreiðslum skv. 2. grein skal úthlutað í sem mestu samræmi við þau gjöld sem innheimt eru fyrir flutning hvers tónverks um sig. Úthlutun höfundaréttargreiðslna tekur mið af eftirtöldum flokkum, eins og nánar er kveðið á um í 6. grein:

1.  Tónlist í hljóðvarpi.
2.  Tónlist í sjónvarpi.
3.  Tónleikar.
4.  Dansleikir og aðrar samkomur þar sem lifandi tónlist er flutt.
5.  Bakgrunnstónlist, svo sem á veitingastöðum og í verslunum.
6.  Tónlist við kirkjulegar athafnir, þ.m.t. útfarir.
7.  Tónlist á kvikmyndasýningum.
8.  Tónlist á leiksýningum.
9.  Tónlist á netinu, þ.m.t. streymi og niðurhal frá tónlistarveitum.
10.  Sönghefti.
11.  Eintakagerð.
12.  Hljóðsetning.
13.  Eintakagerð til einkanota frá IHM.
14.  Streymisþjónustu á myndmiðlun eftir pöntun (VOD – e: Video On Demand, þ.m.t. s.k. TVOD og SVOD).
15.  Frumflutningur.

STEF getur útvistað bakvinnslu og samkeyrslu tiltekinna úthlutunarflokka til þriðja aðila eftir því sem þörf þykir á hverjum tíma.

Stærstu úthlutunarflokkum eru gerð frekari skil hér að neðan.

6. grein – Úthlutun byggist á tiltækum upplýsingum

Úthlutun höfundaréttargreiðslna miðast við þær upplýsingar um flutning tónverka sem STEFi berast eða samtökin afla með öðrum hætti og samkeyrslu þeirra við gagnagrunn STEFs. Ber helstu viðskiptavinum STEFs að láta í té ítarlegar tónlistarskýrslur yfir tónlistarflutning sinn, skv. samningum við STEF. Af hagkvæmni- og kostnaðarástæðum er ekki gerð krafa um upplýsingar fluttra tónverka í öllum tilvikum.

6.1 Hljóðvarp og sjónvarp

Úthlutun höfundaréttargreiðslna fyrir flutning í hljóðvarpi og sjónvarpi byggist á þeim höfundaréttargjöldum sem innheimt eru af sérhverri hljóðvarps- og sjónvarpsstöð og skýrslum yfir opinberan flutning tónlistar samkvæmt samningum milli STEFs og viðkomandi fyrirtækis. Úthluta skal sérstaklega fyrir flutning á hverri og einni útvarps- eða sjónvarpsstöð og – eftir því sem við á – hverri og einni útvarps- og sjónvarpsrás. Í þeim tilvikum þar sem sami viðskiptavinurinn rekur bæði útvarps- og sjónvarpsstöð, skal úthlutunum skipt þannig að 80% fjármuna er úthlutað vegna útvarps og 20% vegna sjónvarps.

Í þeim tilvikum, þar sem sami viðskiptavinurinn rekur fleiri útvarpsstöðvar eða fleiri sjónvarpsstöðvar, skal úthlutunum skipt þannig milli stöðvanna að 30% fjárhæðarinnar miðast við magn tónlistar sem flutt er á stöðinni og 70% samkvæmt hlustenda- eða áhorfskönnunum.

Fyrir einkennislög þátta er úthlutað eins og fyrir annan tónlistarflutning í viðkomandi þætti, hvort sem um er að ræða frumsamda eða áður útgefna tónlist. Sé þáttur daglega eða oftar á dagskrá, þá telst einkennislag hans falla undir úthlutun fyrir dagskrárstef. Þetta á t.d. við um stef sem flutt eru fyrir og eftir auglýsingar, fréttastef og stef viðkomandi sjónvarps eða hljóðvarpsstöðvar. Úthlutað skal fyrir slík stef 2,5% af heildarúthlutunarfjárhæð frá viðkomandi viðskiptavini, skipt milli einstakra miðla eða stöðva, ef um fleiri en einn miðil er að ræða, skv. ofangreindum reglum um skiptingu úthlutunarfjárhæðar milli miðla.

STEF úthlutar ekki fyrir birtingu auglýsinga í hljóðvarpi eða sjónvarpi.

Ef útvarps- eða sjónvarpsútsendingar eru innan takmarkaðs landfræðilegs svæðis og innheimt höfundarréttargjöld óveruleg, skal úthlutunin byggjast á tónlistarskýrslum sem aðrar stöðvar af svipuðum toga láta STEFi í té.

Ekki er hægt að úthluta vegna kvikmynda- og sjónvarpsefnis sem framleitt er hér á landi, nema að svonefnd tónlistarskýrsla (e. Cue Sheet) hafi borist STEFi um þá tónlist sem finna má í viðkomandi þætti eða kvikmynd.

6.2 Bakgrunnstónlist

Þegar STEF fær litlar eða engar upplýsingar um hvaða tónverk hafa verið flutt, til dæmis sem bakgrunnstónlist, er meginreglan um höfundaréttargreiðslur að úthlutað er í samræmi við flutning tónlistar á öðrum vettvangi, svo sem í útvarpi eða frá streymisþjónustum. Þetta gildir ef sýnt þykir að tónlistarflutningurinn sem um ræðir sé ekki ósvipaður tónflutningi í viðkomandi miðlum.

Teljist slíkur samanburður ótækur, þá skal úthluta viðkomandi tekjum hlutfallslega miðað við heildarúthlutun síðastliðins árs. Ef unnt er að afla frekari upplýsinga um flutning tónlistar sem fellur innan þessara flokka, án óeðlilegs kostnaðar, með því að nota úrtak af fluttum tónverkum, má einnig byggja úthlutun í þessum flokkum á slíkum upplýsingum. Úthlutun í þessum tilvikum skal vera í eins nákvæmu samræmi við raunverulega tónlistarnotkun og unnt er.

Stjórn STEFs tekur ákvörðun um viðmið varðandi úthlutun bakgrunnstónlistar innan ofangreinds ramma.

6.3 Lifandi flutningur tónlistar

Úthlutun höfundaréttargreiðslna fyrir lifandi flutning tónlistar byggist á innheimtu höfundaréttargjalda af hverjum tónleikum fyrir sig og þeim tónlistarskýrslum sem tónleikahaldarar og/eða viðkomandi listamenn eða rétthafar skila til STEFs. Í þeim tilvikum sem STEF hefur undirritað samning við tónleikastað, sem greiðir fasta fjárhæð höfundaréttargjalds á ári og höfundaréttargjöld af hverjum viðburði fyrir sig eru óveruleg, byggist úthlutunin á tónlistarskýrslum sem STEFi berast um flutning tónlistar á viðkomandi stað, sem hlutfall af meðalfjölda tónleika. Sama regla er notuð um tónlistarhátíðir, en þá er úthlutun hlutfölluð miðað við meðalfjölda tónleika eða atriða á viðkomandi hátíð.

Sé um að ræða tónleika sem kenndir eru við eina hljómsveit eða flytjanda og áheyrendur eru fleiri en 1.000, skulu 90% höfundaréttargreiðslna af tónleikunum koma í hlut rétthafa tónlistar sem flutt er af viðkomandi hljómsveit eða flytjanda. Rétthafar tónlistar sem flutt er af öðrum hljómsveitum eða flytjendum, svo sem „upphitunarhljómsveitum“, fá í sinn hlut 10% af höfundaréttargreiðslum vegna tónleikanna.

Fyrir aðra viðburði eins og árshátíðir og skólaskemmtanir, þar sem lifandi flutningur tónlistar fer fram miðast úthlutun við meðaltal gesta (stærri og minni skemmtanir skv. verðskrá STEFs) og að í heild séu flutt um 35 lög á slíkri skemmtun.

7. grein – Frumflutningur

Úthlutað er sérstaklega fyrir frumflutning verks. Frumflutningur tekur til hvers nýs verks sem meðlimir samtakanna hafa skráð og sem sannarlega hefur verið frumflutt hérlendis. Í því sambandi skiptir ekki máli í hvaða miðlum verkið hefur verið frumflutt eða það frumflutt á tónleikum. Frumflutningur tekur einnig til meðlima erlendra höfundaréttarsamtaka sem eiga ný verk sem hafa verið heimsfrumflutt hér á landi. Höfundur ber ábyrgð á að tilkynna frumflutning til skrifstofu STEFs.

8. grein – Skráning tónverka

Rétthafar tilkynna verk sín til STEFs og skulu þau skráð í gagnagrunn samtakanna eftir þeim upplýsingum sem tilkynningunni fylgja. Tónverk er aðeins hæft til úthlutunar höfundaréttargreiðslna ef viðeigandi upplýsingar um tónverkið hafa verið skráðar.

Skráningu tónverks má aðeins breyta með nýrri tilkynningu sé hún undirrituð eða sannarlega samþykkt af öllum þeim sem undirrituðu upphaflegu tilkynninguna eða voru tilkynntir sem höfundar á henni eða rétthöfum þeirra.

Höfundaréttur á verki er óháður skráningu STEFs á tónverki.

STEF axlar enga ábyrgð og veitir enga tryggingu gegn skaða sem aðili getur orðið fyrir í tengslum við úthlutun höfundaréttargreiðslna eða við verndun á höfundarétti sem rekja má til rangra eða ófullnægjandi tilkynninga um verk.

9. grein – Skipting á höfundaréttargreiðslum milli rétthafa

Höfundarétti hvers verks skal skipt upp í hundraðshluta. Höfundar geta samið um skiptingu höfundaréttar á milli sín og því sýnir taflan hér að neðan eingöngu viðmið um skiptingu sem höfundar geta stuðst við. Í ákveðnum tilvikum er hlutdeildin þó ekki umsemjanleg, en í töflunni birtist hæsta hlutdeild sem útsetjara er heimil. Það á einnig við í þeim tilvikum þegar hluti verksins (annaðhvort tónverk eða texti) er ekki í vernd, en þá eru settar skorður við hámarkshlut þess höfundar sem bætir við slíkt verk (annað hvort nýju tónverki eða nýjum texta).

Þegar rætt er um að verk sé ekki í vernd á það einnig við um þau tilvik sem höfundur er óþekktur.

TónskáldTextahöf.Útsetjari
Tónverk án texta100%
Tónverk og texti, samið samtímis*50%50%
Tónverk samið við eldri texta66,67%33,33%
Tónverk samið við eldri texta, ef texti er ekki í vernd66,67%
Texti er saminn við eldra tónverk50%50%
Texti saminn við eldra tónverk, ef tónverk er ekki í vernd50%
Útsett verk:
Útsett tónverk án texta83,34%16,67%
Útsett tónverk og texti, samið samtímis*33,33%50%16,67%
Útsett tónverk samið við eldri texta50%33,33%16,67%
Útsett tónverk samið við eldri texta, ef texti er ekki í vernd50%16,67%
Útsett tónverk án texta, ef tónverk er ekki í vernd**16,67%
Texti með útsettu tónverki, ef tónverk er ekki í vernd, en útsetningin er í vernd50%16,67%

Samsett verk (þjóðlag og nýtt verk)***

TónskáldTextahöf.ÞjóðlagÚtsetjari
Tónverk og þjóðlag án texta50%(50%)
Tónverk og þjóðlag með þjóðvísu33,34%(33,33%)(33,33%)
Tónverk og útsett þjóðlag án texta50%(33,33%)16,67%
Tónverk og útsett þjóðlag með þjóðvísu33,34%(33,33%)(16,67%)16,67%
Þjóðlag með nýjum texta50%(50%)
Tónverk og þjóðlag með nýjum texta33,34%33,34%(33,33%)
Útsett þjóðlag með nýjum texta50%(33,33%)16,67%
Tónverk og útsett þjóðlag með nýjum texta33,34%33,34%(16,67%)16,67%

* Orðalagið „samið samtímis“ þýðir að út kemur saman eða flutt er saman nýtt og áður óútgefið tónverk og texti.
** Hér er verið að vísa í það sem í daglegu tali eru oft nefnd þjóðlög, en á einnig við um önnur verk sem ekki njóta verndar höfundaréttar s.s. vegna aldurs verks.
*** Hér er átt við þegar nýju verki er skeytt saman við þjóðlag, á þann hátt að úr verður nýtt verk, með eða án útsetningar á þjóðlaginu, þannig að nýsköpun sé umtalsverður hluti hins samsetta verks. Sama krafa er gerð til nýs texta. Með þessari töflu er sett inn sú lágmarkshlutdeild sem þjóðlag eða þjóðvísa nýtur.

Svigi utan um hlutfall þýðir að um sé að ræða reiknaða stærð verks, en sem ekki er greidd út þar sem viðkomandi hluti verks er ekki í vernd.

Athygli er vakin á því að þegar nýtt tónverk eða nýr texti er settur við eldri texta eða eldra tónverk sem er í höfundaréttarvernd, þarf ávallt leyfi höfundar, hvort sem um er að ræða textahöfundinn eða tónhöfundinn.

10. grein – Útsetningar

Við skráningu hlutdeildar til útsetjara er gert ráð fyrir að útsetningin fullnægi lágmarkskröfum um útsetningu. Slíkt felur í sér að útsetjarinn hafi skilað sjálfstæðu frumlegu framlagi við upprunalega verkið. STEF áskilur sér rétt til að meta framlag útsetjara að þessu leyti og breyta eða afnema skráningu á útsetjarahlut í kjölfarið. Í viðauka 1 við reglur þessar er að finna frekari leiðbeiningar um útsetningar.

11. grein – Úthlutun til meðlima annarra höfundaréttarsamtaka

Höfundaréttargreiðslum til rétthafa, sem aðild eiga að systursamtökum STEFs erlendis, skal úthlutað í samræmi við gagnkvæma samninga sem STEF hefur gert við viðkomandi samtök. Skal STEF leitast við að gera slíkt á sem hagkvæmastan hátt og getur stjórn ákveðið að útvista þessum hluta úthlutunar til þriðja aðila s.s. eins og annarra erlendra systursamtaka. Við þá úthlutun skal fylgt sömu reglum og við úthlutun til rétthafa sem aðild eiga að STEFi. Úthlutun til erlendra rétthafa skal í það minnsta eiga sér stað einu sinni á ári.

12. grein – Úthlutun höfundaréttargreiðslna frá erlendum höfundaréttarsamtökum

Erlend höfundaréttarsamtök sem annast hagsmunagæslu fyrir rétthafa innan STEFs, samkvæmt gagnkvæmum samningum, annast úthlutun höfundaréttargreiðslna til STEFs fyrir íslenska tónlist sem flutt er í þeirra umdæmi. Tímasetning þessara úthlutana er mismunandi eftir höfundaréttarsamtökum, en STEF úthlutar þeim tekjum sem samtökunum berast að jafnaði fjórum sinnum á ári.

13. grein – Óþekkt og óskráð verk

STEF gerir sitt ýtrasta til að bera kennsl á tónverk sem tilkynnt er um flutning á. Þetta er gert með því að bera saman skýrslur við gagnagrunn STEFs, bæði sjálfvirkt og handvirkt. Ef tónverkið er enn óþekkt tekur eftirfarandi ferli við:

a. Ef vitað er hver höfundurinn er, þá er haft samband við hann og verkið skráð.
b. Í því tilviki að engin samsvörun finnst, þá er óþekkta tónverkinu bætt við lista af óþekktum tónverkum. Öllum tónverkum er bætt við listann þegar þau hafa náð lágmarksfjárhæð úthlutunar. Listinn er birtur á heimasíðu STEFs og uppfærður þar reglulega.

Höfundaréttargreiðslum fyrir notkun á óþekktum tónverkum og höfundaréttargreiðslum sem haldið er eftir vegna lágmarksreglunnar sem tilgreind er í 14. grein er úthlutað hlutfallslega til rétthafa þekktra tónverka.

14. grein – Útborgun höfundaréttargreiðslna

STEF úthlutar höfundaréttargreiðslum svo fljótt sem auðið er, hafi allar nauðsynlegar upplýsingar vegna úthlutunarinnar borist. Höfundaréttargreiðslur skulu lagðar inn á bankareikning samkvæmt fyrirmælum viðkomandi rétthafa.

Ekki er lágmark á úthlutunarfjárhæð, en stjórn er heimilt að setja á slíkt lágmark ef þörf krefur.

Athugasemdir við úthlutun þurfa að berast innan þriggja mánaða frá dagsetningu úthlutunar, að öðrum kosti telst rétthafi hafa samþykkt úthlutunina.

Sé af einhverjum ástæðum ekki hægt að úthluta til rétthafa fyrir flutning tónlistar, s.s. ef skráning hefur ekki borist, skráning er röng eða ófullkomin eða ágreiningur er um höfundarétt viðkomandi verks, fyrnist réttur til úthlutunar á tveimur árum frá þeim tíma sem úthlutun hefði getað átt sér stað, sé ekki bætt úr þeim ágöllum sem hindra úthlutunina innan þess tíma.

Sé um að ræða fleiri en einn rétthafa, s.s. þegar um er að ræða erfingja tónskálds eða textahöfundar, skal greiðslum úthlutað til sameiginlegs fyrirsvarsmanns. Bera viðkomandi rétthafar ábyrgð á því að skila inn upplýsingum til STEFs hver sé fyrirsvarsmaður þeirra. Berist ekki slíkar upplýsingar fyrnast greiðslur á sama hátt og aðrar greiðslur sem ekki er unnt að koma til skila

15. grein – Skattlagning

STEFi ber að halda eftir skatti af höfundaréttargreiðslum í samræmi við lög á hverjum tíma. Af höfundaréttartekjum til einstaklinga ber STEFi að halda eftir staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts og skila til ríkissjóðs. Lögaðilar greiða skatt af höfundaréttartekjum með öðrum tekjum sínum á þann hátt sem gildir um rekstrarform þeirra.

16. grein – Ágreiningur

Verði ágreiningur um túlkun þessara úthlutunarreglna milli STEFs og meðlima samtakanna, getur viðkomandi meðlimur vísað ágreiningnum til þriggja manna úrskurðarnefndar sem skipuð skal af stjórn STEFs.

17. grein – Gildistími

Reglur þessar leysa af hólmi eldri úthlutunarreglur frá 2011 með síðari breytingum. Þær öðluðust gildi frá og með samþykkt þeirra á fulltrúaráðsfundi STEFs þann 25. maí 2022.

VIÐAUKI 1 – Leiðbeiningar um útsetningar

Það er grundvallarregla um verndun hugverka að verndin nái einungis til sjálfstæðrar, listrænnar sköpunar. Því geta réttindi aldrei náðst fyrir eftirlíkingar eða útvíkkun á því sem aðrir hafa skapað. Útsetningar eru því metnar eftir því hverju þær bæta við upprunalega verkið. Flest allar útfærslur, sem verið er að gera á einstökum verkum, falla EKKI undir sjálfstæða, listræna sköpun, en má fremur líkja við misflókið og viðamikið handverk.

Útsetningar fyrir einstök hljóðfæri eða smáar hljómsveitir fá því að öðru jöfnu aðeins útsetjarahlut að um sjálfstæða listsköpun með hliðsjón af frumverkinu sé að ræða og að það sem gert hefur verið nái út fyrir það sem krefjast þarf til að hægt sé að flytja verkið með þeirri hljóðfæraskipan og þeim röddum sem gengið er út frá. Ýmislegt fleira skiptir máli í mati á útsetningu, t.d. hvort hljómsetning fylgir ríkjandi hefðum innan þess stíls sem útsett er í eða hvort hún telst frumleg og gegnsamin og í grundvallaratriðum ólík því sem hefðin segir til um varðandi hljómsetningu og laglínu upprunalagsins.

Uppfylli útsetning skilyrðið um sjálfstæða og listræna sköpun getur hún orðið grundvöllur til úthlutunar höfundaréttartekna frá STEFi, skv. þeim reglum sem um slíkt gilda.
Gerður er greinamunur á útsetningu þjóðlaga (og öðrum óvernduðum verkum) og útsetningu á verkum sem njóta höfundaréttarverndar.

Það er grundvallaratriði við útsetningu verndaðra verka að leyfi tónhöfundar (rétthafa) þarf fyrir útsetningunni, enda telst útsetning vera breyting á upphaflegu verki. Í slíku leyfi þarf þó ekki að felast afsal tónhöfundar á hlutdeild í höfundaréttargreiðslum vegna verksins, en um slíkt geta tónhöfundur og útsetjari samið. Sama gildir ef tónhöfundur biður um að verk sitt sé útsett.

Fallist tónhöfundur á að útsetjari fái hlutdeild í eldra tónverki, verður í raun til nýtt verk í gagnagrunni STEFs, með annarri skiptingu höfundaréttar en upphaflega verkið. Gott er að hafa í huga að hafi upphaflega verkið verið metið af matsmönnum STEFs í hærri flokk en almennan flokk (sjá nánar umfjöllun á heimasíðu STEFs um flokkun tónverka), þá færist matið ekki sjálfkrafa yfir á hið nýja útsetta verk, heldur þarf þá að óska eftir nýju mati á því í nýrri útsetningu. Ný flokkun á verki í nýrri útsetningu tekur þá til bæði framlags upphaflegs höfundar og útsetjara.

Hvað varðar útsetningar á þjóðlögum (eða verkum sem ekki eru lengur í vernd) fer útsetningin sjálfkrafa í almennan flokk. Í reglum um útsetningu þjóðlaga (sbr. tilheyrandi töflu) kemur fram, að við skráningu slíkra útsetninga hjá STEFi sé gert ráð fyrir að útsetningin fullnægi lágmarkskröfum um útsetningu. Útsetjarar geta óskað eftir mati matsmanna og nýrri flokkun á útsetningu þjóðlags. Vert er að hafa í huga í því sambandi, að matsmenn geta hugsanlega komist að þeirri niðurstöðu að útsetningin uppfylli ekki skilyrði um verkhæð (sbr. umfjöllun í reglunum). Slík niðurstaða leiðir til þess að hafnað er skráningu útsetningarinnar hjá STEFi.

Scroll to Top