—
Eitt & annað
—
Gagnlegar upplýsingar fyrir höfunda um hitt og þetta
Hér eru ýmsar upplýsingar fyrir réttahafa. Smellið á plúsinn til að opna viðkomandi efnisþátt.
Ávallt þarf leyfi tónhöfundar til að nota tónlist í auglýsingum. STEF hefur ekki heimild til að veita leyfi fyrir slíkri notkun fyrir hönd höfunda, heldur verða auglýsendur (eða auglýsingastofur fyrir hönd þeirra) að leita leyfis hjá höfundum. Ástæðan er sú, að það er talið geta varðað höfundinn miklu hvers konar vörur eða þjónusta er tengd við tónlist viðkomandi.
STEF úthlutar því ekki höfundaréttartekjum vegna auglýsinga og aflar ekki upplýsinga um tónlist sem flutt er í auglýsingum (fyrir utan eigin dagskrárkynningar útvarps- og sjónvarpsstöðva), nema þá að tekjur berist erlendis frá vegna notkunar á íslensku lagi í auglýsingu sem sýnd er erlendis, en í sumum löndum tíðkast það að höfundaréttarsamtök innheimti fyrir slíka notkun. Ef íslenskir höfundar selja frumsamið verk í erlenda auglýsingu er þeim því ráðlagt að skrá verkið hjá STEFi.
- Tiltaka þarf hvort auglýsandinn eigi einkarétt á að nota lagið í auglýsingar eða ekki.
- Tiltaka þarf hvert sýningarsvæði auglýsingarinnar verður (t.d. Ísland eða fleiri lönd).
- Tiltaka þarf hvers konar auglýsingar um er að ræða; útvarpsauglýsingar, sjónvarpsauglýsingar, auglýsingar á netinu, samfélagsmiðlaherferð eða annað.
- Tiltaka þarf hvort samningurinn nær bæði til lagsins (höfundarétturinn, e: publishing right) og einnig til tiltekinnar upptöku, hljóðritsins (master-rétturinn).
- Gott er að það sé skýrt í samningnum hvort nota megi tónlistina almennt í auglýsingum fyrirtækisins eða hvort um sé að ræða tiltekið vörumerki innan fyrirtækisins.
- Gott er að það sé skýrt í samningnum hvernig auglýsingin er, hvað sýnir auglýsingin (hvert er myndmálið).
- Gott er að það komi fram hvort heimilt sé að gera einhverjar breytingar á tónlistinni til að hún henti betur auglýsingunni. Langoftast er reyndar einungis notaður tiltekinn bútur úr auglýsingunni.
- Ef höfundar að viðkomandi tónverki eru fleiri en einn (t.d. sitthvor höfundur af tónlist og texta) þá þarf að vera skýrt hvort auglýsandinn geri sérstakan samning við hvern og einn höfunda, eða hvort samningurinn sé við alla höfundana í einu og þá um leið hversu há greiðsla fer til hvers höfunda og inn á hvaða reikninga skuli greiða.
- Venjulega tekur höfundurinn síðan ábyrgð á því í samningnum að hafa sannarlega samið tónlistina sem um ræðir.
Í grunninn er gott að átta sig á því, að samkvæmt höfundalögum er birting verks óheimil án leyfis höfundar, en slíkt ákvæði er í höfundalögum flestra ríkja.
Nokkur munur hefur verið á Bandaríkjunum og öðrum svæðum í þessu sambandi, en í Bandaríkjunum þurfti löngum að fá s.k. „compulsory license“ til að gefa út nýja hljóðritun, með sérstakri tilkynningu til rétthafa og reglubundnum uppgjörum í framhaldinu.
Sú formlega kvöð breyttist þó með innleiðingu „Music Modernization Act“ (MMA) og nú taka tónlistarveiturnar það að sér að sækja um leyfi til útgáfu „ábreiða“ hjá sérstakri stofnun í Bandaríkjunum (MLC) og þurfa flytjendur eða útgefendur því ekki lengur að fara í sérstakar aðgerðir vegna slíkra útgáfa.
Í Evrópu er þessu aðeins ólíkt farið. Mörg höfundaréttarsamtök hafa það í aðildarsamningum sínum að viðkomandi meðlimur skuli samþykkja ábreiðu af verki sínu og það eina sem þurfi að gera til að framleiða og selja eintök af ábreiðum, er að senda umsókn til höfundaréttarsamtaka höfundarins og greiða síðan höfundaréttargjöld af framleiddum eintökum.
Hér á landi og á hinum Norðurlöndunum annast NCB þessa umsýslu fyrir hönd rétthafa. Leyfi NCB nær þó eingöngu til eiginlegra eintaka, eins og CD og vínyl, sem og niðurhals. Ekkert sambærilegt kerfi er þó til þegar kemur að streymi, heldur er gengið er út frá því að hægt sé að gera ábreiður og dreifa til streymisveita, enda sé lögunum dreift eingöngu til löglegra veita og lögin réttilega merkt höfundum þegar þeim er komið í dreifingu.
Alltaf gildir hins vegar sú regla hvarvetna í heiminum, að ábreiða verður að virða s.k. „sæmdarrétt“ höfundar. Um leið og listamaður er farinn að breyta verki verulega, þá þarf viðkomandi að leita leyfis höfundar, ella er hætta á að höfundur lögsæki viðkomandi. Slíkar kærur eru vissulega fátíðar, en þó skyldu menn átta sig á því að til þess gæti komið, einkum ef lagi hefur verið breytt mikið eða það hreinlega afskræmt.
Málið verður þó flóknara ef listamaðurinn vill gera myndefni með ábreiðunni, þ.e.a.s. að gera tónlistarmyndband. Í þeim tilvikum þarf listamaðurinn að fá hljóðsetningarleyfi. Minni hljóðsetningarleyfi eru veitt af STEFi skv. sérstakri verðskrá (sjá nánar á heimasíðu STEFs undir Hljóðsetning), en hljóðsetningarleyfi fyrir sjónvarpsefni og kvikmyndir eru veitt af NCB sem er með höfuðstöðvar í Danmörku. Best er að skoða hljóðsetningarleyfi NCB á vefsíðunni www.ncb.dk.
Hugtakið „bakgrunnstónlist“ vísar til flutnings tónlistar í almannarýmum (t.d. verslunum og veitingastöðum), en á bakvið slíkan flutning liggja ekki spilunarskýrslur, hann er m.ö.o. óskilgreindur. Bakgrunnstónlist hefur reyndar alltaf verið hluti af innheimtu og úthlutun, en lengst af var þeim upphæðunum hlaðið ofan á það sem úthlutað var fyrir flutning á útvarpsstöðvum. Fyrir vikið virtust úthlutanir fyrir útvarp lengst af vera verðmeiri en þær voru í raun og veru.
Frá og með miðsumarsúthlutun 2020 var bakgrunnstónlist hins vegar gerð að sér lið í skilagreinum, til að glöggva höfunda betur á umfangi bakgrunnstónlistar í heildarmyndinni, en þessi liður hefur stækkað á undanförnum árum, m.a. vegna breytinga á verðskrám og fjölgunar veitingahúsa og þjónustufyrirtækja.
Cue-sheet er n.k. skýrsla sem fylgir sjónvarps- og kvikmyndum og geymir upplýsingar um alla þá tónlist sem fram kemur í viðkomandi mynd/þætti, jafnt í forgrunni sem í bakgrunni. Ef um nýja/frumsamda tónlist er að ræða, þarf tónskáldið einnig að passa upp á að skrá hana hjá STEFi (alveg eins og gert er með önnur tónverk/lög). Skráning verka fer fram í gegnum „Mínar síður“. Ef verk/score er ekki til á skrá, þá er ekki hægt að tengja það við cue-sheet og skrá flutning á það.
Hér má finna eyðublað/grind af alþjóðlegu „music cue-sheet“ sem hægt er að fylla út.
- Hægt er að sækja um aðild til leitar í CIS-NET, hinum alþjóðlega gagnabanka CISAC, sem geymir þúsundir kvikmyndaskýrslna (Cue-Sheets), með því að senda netpóst á pubnet@cisac.org.
- Hér er hægt að leita eftir nöfnum höfunda og sjá skrá yfir þau verk þeirra sem skráð eru í alþjóðakerfið og finna kennitölur þeirra verka.
- Hér er hægt að leita eftir upplýsingum um lög eftir alþjóðlegum kennitöulum (ISWC) laga.
Endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist
Á grundvelli laga nr. 110/2016, um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist, er unnt að fá endurgreitt 25% af endurgreiðsluhæfum kostnaði sem fellur til við hljóðritun hér á landi. Markmið laganna er að efla tónlistariðnað á Íslandi. Jafnt innlendir sem erlendir aðilar geta sótt um endurgreiðslu. Hafi meira en 80% af framleiðslukostnaði fallið til hérlendis eru jafnframt endurgreidd 25% af þeim framleiðslukostnaði sem fellur til á hinu evrópska efnahagssvæði. Í lögunum er skilgreint hvað sé endurgreiðsluhæfur kostnaður og hver séu skilyrði endurgreiðslu fyrir útgáfu hljóðrita. Umsókn um endurgreiðslu hluta kostnaðar sem fellur til við hljóðritun hér á landi skal berast ráðuneytinu ásamt fylgigögnum í síðasta lagi sex mánuðum eftir útgáfu nýjasta hljóðritsins sem sótt er um endurgreiðslu vegna. Sérstök fjögurra manna nefnd fer yfir umsóknir og gerir tillögur til ráðherra um afgreiðslu. Ráðherra skipar nefndina og skulu tveir vera tilnefndir af Sambandi flytjenda og hljómplötuframleiðenda, þ.e. einn úr röðum flytjenda og einn úr röðum hljómplötuframleiðenda, einn tilnefndur af STEF og einn skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður. Varamenn skal skipa á sama hátt. Atkvæði formanns ræður úrslitum falli atkvæði jöfn. Við mat á umsóknum um endurgreiðslu getur nefndin aflað álits sérfróðra aðila um hvort skilyrði 5. gr. laganna séu uppfyllt. Hlutfall endurgreiðslu skal vera 25% af endurgreiðsluhæfum kostnaði sem fellur til við hljóðritun. Sami útgefandi getur ekki fengið hærri endurgreiðslu en 30.000.000 kr. á þriggja ára tímabili. Hafi umsækjandi hlotið styrk frá opinberum aðilum til útgáfu sömu hljóðrita dregst styrkurinn frá þeirri upphæð sem telst innlendur endurgreiðsluhæfur kostnaður. Nánari upplýsingar ásamt umsóknareyðublaði má finna hér: https://www.stjornarradid.is/verkefni/atvinnuvegir/skapandi-greinar/endurgreidslur-vegna-hljodritunar-a-tonlist/
Hér er fróðleikur fyrir erfingja höfundaréttar
Þegar höfundur andast þurfa erfingjar að tilkynna STEFi um nýjan viðtakanda greiðslna. Hér er sérstakt eyðublað sem fylla þarf út þegar svo ber við.
Heildarleyfissamningur er stundum kallaður samningskvaðaleyfi (e. Extended Collective Licensing). Þessi gerð samninga er einkum þekkt á Norðurlöndum og byggir á sömu hugsun og lágmarkslaun kjarasamninga sem binda bæði atvinnurekendur og launamenn burtséð frá aðild þeirra að stéttarfélögum og samtökum atvinnurekenda. Kerfið byggist á því að viðurkenndum innheimtusamtökum rétthafa er fengið umboð skv. lögum og samþykktum til að innheimta endurgjald vegna notkunar á höfundaréttarvörðu efni. Umboð samtakanna til innheimtu nær til allra höfunda, óháð því hvort þeir hafa gengið í höfundaréttarsamtökin eða ekki og eru þeir því allir bundnir af því endurgjaldi sem höfundaréttarsamtökin semja um.
Allir höfundar geta þó bannað notkun á eigin efni skv. heildarleyfissamningum. Þeir sem standa utan samtakanna eiga sama rétt og innanfélagsmenn til greiðslna, eigi þeir réttmæta kröfu fyrir notkun og geta sýnt fram á notkunina. Í tilviki STEFs, þurfa þeir sem standa utan samtakanna að skila upplýsingum um þau verk sem þeir hafa samið á sama hátt og meðlimir, þannig að hægt sé að keyra saman við skýrslur um flutning tónlistar sem STEFi berast.
Með heildarleyfissamningi fær notandi (t.d. útvarpsstöð) með einum samningi heimild til að nota mun stærra úrval verka en annars væri, auk þess sem ákveðinn ómöguleiki er fyrir hann að kanna aðild höfunda að samtökum varðandi hvert og eitt verk sem flutt er. Heildarleyfissamningar uppfylla ákvæði höfundalaga og alþjóðlegar skuldbindingar um meðferð höfundaréttar þar sem um er að ræða frjálsa samninga og hver og einn rétthafi getur hvenær sem er bannað birtingu verka sinna skv. leyfissamningunum. Það er þá á ábyrgð STEFs að tilkynna leyfishöfum um slíkt bann.
Höfundaréttarsamtök (eins og STEF) bera mismunandi ensk undirheiti. CMO (Collective Management Organisation) er mikið notað í Evrópu, en einnig er oft vísað til slíkra samtaka sem PRO (Performance Rights Organisation).
Hljóðsetning – eða tónsetning (e. synchronisation, oft stytt í sync). Vísar til þess þegar hljóði (tónlist) er skeytt við mynd.
Kvikmyndatónlist getur annars vegar verið einstök áður útgefin verk eða heildarverk (e. score). Sérstakir samningar eru gerðir við tónskáld vegna heildarverka og fellur slík vinna venjulega ekki undir almenna hljóðsetningu/tónsetningu.
Tónlistarforleggjari (e. music publisher, eða bara publisher). Fyrirtæki eða einstaklingur sem gerir samning við höfund um að annast umsýslu verka hans gegn hlutdeildar í höfundarétti. Hlutverk þeirra felst í því að koma verkum höfundanna í verð. Sub-publisher er tónlistarforleggjari sem vinnur á ákveðnu landssvæði fyrir annan tónlistarforleggjara.
Útgefandi (e. record label, eða record company). Fyrirtæki sem gefur út tónlist. Útgefandinn gerir útgáfusamning við flytjendur (sem eðlilega eru oft einnig höfundar).
Tónlistarráðgjafi (e. music supervisor). Aðilar (fyrirtæki) sem sérhæfa sig í að finna tónlist í sjónvarp, og kvikmyndir skv. hugmyndum leikstjóra og/eða framleiðenda.
Einnig eru til svokallaðir „sync agents“, sem eru þá venjulega fyrirtæki sem komið hafa sér upp „tónlistarbanka“ sem leikstjórar og tónlistarráðgjafar geta leitað í eftir efni og fengið leyfi til að nota í kvikmyndir, sjónvarpsþætti og fleira (jafnvel tölvuleiki, auglýsingar, o.fl.)
Masterréttindi (e. master rights). Réttur á upptöku tónlistar (lags). Upptakan sjálf er eign útgefandans.
Í hljóðsetningarsamningi er venjulega samið annars vegar um master-réttindi við útgefandann og hins vegar um publising-réttindi, sem eru réttindi lagahöfundarins. Jafnvel þótt lagahöfundurinn sé ekki með tónlistarforleggjara (publisher) á sínum snærum, er hans réttindahluti oft nefndur publishing-hluti samningsins. Í ákveðnum tilvikum þarf framleiðandi myndefnis ekki að semja um master-réttinn, heldur einungis publishing-hlutann, ef hann kýs t.d. að fá annan flytjanda til að hljóðrita lagið sem um ræðir, þ.e.a.s. gera nýja upptöku af laginu.
Primary vs. secondary publishing income (secondary income er einnig stundum nefnt back-end). Við gerð hljóðsetningarsamnings greiðir framleiðandinn fyrir leyfi til að nota tónlistina og er það kallað primary income. Þegar viðkomandi kvikmynd eða sjónvarpefni er síðan sýnt, þarf sá sem birtir verkið opinberlega (t.d. sjónvarpsstöð) að greiða höfundaréttarsamtökum í viðkomandi landi fyrir flutninginn (það sem við þekkjum sem „STEF-gjöld“). Þannig myndast viðbótargreiðslur til höfundarins, eða það sem kallað er secondary income. Stundum getur tiltölulega lág greiðsla í upphafi verið réttlætanleg með tilliti til mikillar dreifingar verksins og möguleika á viðbótartekjum síðar frá höfundaréttarsamtökum.
Stórréttindi (e. grand rights). Þegar tónhöfundur semur sérstakt tónverk við sviðsverk myndast s.k. stórréttindi, sem falla utan umboðs höfundaréttarsamtaka.
NCB er Nordic Copyright Bureau. Þetta eru norræn samtök með höfuðstöðvar í Kaupmannahöfn. NCB gefur út hljóðsetningarleyfi til framleiðenda skv. fastri gjaldskrá fyrir sjónvarpsframleiðslu.
Miðlari (e. aggregator). Annast miðlun verka til tónlistarveita fyrir útgefendur. Dæmi um slíkan miðlara á Íslandi er t.d. Alda Music.
Mekanísk gjöld (e. mechanical rights). Réttur vegna eintakagerðar verka. Á einnig við um niðurhal af netinu. „One Stop Shop“ Þýðir að hægt er að fá öll réttindi vegna viðkomandi lags á einum stað, sem auðveldar mjög leyfisveitingarferlið. Þegar um slíkt er að ræða er einn aðili bæði með réttinn til að veita hljóðsetningarleyfi vegna lagsins sjálfs svo og masterréttindin vegna upptökunnar. Ef fleiri en einn höfundur er að laginu verða meðhöfundar að vera búnir að framselja réttinn til hljóðsetningar til eins höfundar eða til tónlistarforleggjara.
Metadata er í raun ekkert annað en þær upplýsingar sem fylgja þurfa tónlistinni um hverjir séu rétthafar tónlistarinnar, hver sé útgefandi, hvað lagið heitið, hver flytji það, o.s.frv. Þessar upplýsingar þurfa að vera rafrænar og fylgja laginu þegar það er sent til tónlistarráðgjafa.
Library Music eða Production Music er það nefnt þegar um er að ræða tónlist sem sérstaklega hefur verið samin til að nota til ótilgreindrar sjónvarps- eða kvikmyndaframleiðslu oftast án þess að veittur sé einkaréttur á tónlistinni. Þessa tónlist er hægt að finna í gagnabönkum á netinu eða í svokölluðum tónlistarbönkum. Rétt er að vekja sérstaka athygli á að skoða þarf mjög vel smáa letrið í samningsskilmálum slíkra fyrirtækja, þar sem oft er með slíkri notkun búið um leið að koma í veg fyrir að tónhöfundarnir geti fengið greitt vegna opinbers flutnings tónlistarinnar í myndefninu í gegnum höfundaréttarsamtök.
Nokkrar þýðingar úr ensku:
Copyright: Höfundaréttur. Hugtakið copyright er komið frá Bandaríkjunum og inntak réttarins ekki alveg það sama og í Evrópu og á Íslandi.
License: Leyfi (oftast nýtingarleyfi)
Royalty: Þóknun
Co-writer: Meðhöfundur
Advance: Fyrirframgreiðsla
Term (duration): Gildistími
Delivery/release: Afhendingartími
Moral rights: Sæmdarréttur
Annað áhugavert:
FTT: Félag tónskálda og textahöfunda
TÍ: Tónskáldafélag Íslands
NMP: Network of Music Partners. Dótturfyrirtæki NCB og bresku höfundaréttarsamtakanna PRS For Music. Sér um bakvinnslu vegna streymis og niðurhals á netinu.
SFH: Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda. Reka vefinn www.hljodrit.is, þar sem útgefendur skrá flytjendur á hljóðritum vegna flytjendagreiðslna.
Samtónn: Samstarfsvettvangur STEFs og SFH.
IHM: Innheimtumiðstöð rétthafa. Annast úthlutun á greiðslum fyrir eintakagerð til einkanota svo og vegna endurvarps sjónvarpsefnis.
Fjölís: Annast innheimtu af opinberum aðilum, tónlistarskólum, kórum, lúðrasveitum o.fl. vegna fjölföldunar nótna og texta.
Hvað er höfundaréttur?
Þegar talað er um höfundarétt er átt við þær réttarreglur sem gilda um réttarstöðu höfunda að hugverkum sem þeir hafa skapað. Undir höfundarétt (fræðigreinina) falla einnig svokölluð „grannréttindi“ eins og réttindi flytjenda og útgefenda sem hafa að sumu leyti sambærilega vernd og höfundar.
Hvernig stofnast höfundavernd?
Höfundavernd stofnast við sköpun verksins og verður verkið þá að vera í þeim búningi að aðrir en höfundur geti notið þess. Hvað tónlist varðar verður t.d. tónlistin að vera útgefin, búið að setja hana niður á blað eða hún flutt opinberlega. Þetta þýðir að hugmynd að verki getur ekki notið verndar.
Þá er gerð sú krafa að einhver lágmarkssköpun verði að hafa átt sér stað til þess að verkið hafi náð svokallaðri verkshæð og geti þar með notið höfundaverndar. Það sama á við um útsetningar að þær þurfa að fela í sér tiltekna sköpun til að geta talist njóta höfundaverndar. Gott er að muna samt að það eitt og sér veitir ekki útsetjara rétt til hlutdeildar í greiðslum af flutningi verksins, heldur verður upphaflegur höfundur ávallt að hafa samþykkt slíka skiptingu höfundaréttarins. Nánar er fjallað um útsetningar undir flipanum „Útsetningar“.
Gott er að hafa í huga að ekki er gerð nein krafa um að verk sé skráð til þess að það njóti þessarar verndar. Skráning verks hjá STEFi breytir þannig engu um það hvort verk njóti höfundaverndar né er slík skráning sönnun á því hver samdi verkið, þótt slík skráning myndi væntanlega vera skoðuð af dómurum eins og önnur sönnunargögn í dómsmáli um ágreining yfir því hver hafi samið tiltekið verk.
Hverjir njóta höfundaréttar?
Samkvæmt íslenskum lögum geta eingöngu einstaklingar verið höfundar. Það þýðir að ekki er t.d. hægt að skrá hjá STEFi sem höfund fyrirtæki eða félagasamtök. Hins vegar geta höfundar framselt fjárhagslega hluta höfundaréttar síns og ánafnað þannig fyrirtækjum eða félagasamtökum þeim ávinningi sem höfundarétturinn getur haft í för með sér. Á það t.d. við um það þegar að höfundar láta tekjur af höfundarétti sínum renna til fyrirtækja í þeirra eigin eigu eða þegar að höfundar gera samninga við tónlistarforleggjara (e. publishers). Hlutdeild tónlistarforleggjara í verkum eru ávallt skráð inn á verkin sjálf hjá STEFi.
Í þeim tilvikum sem fyrirtæki ræður höfund í vinnu til að semja verk og það liggur ljóst fyrir að vinnan sem greidd eru laun fyrir gengur út á að semja tónlist myndi fyrirtækið teljast sjálfkrafa hafa rétt til að nýta tónlistina í sinni starfsemi án viðbótargreiðslu, en sbr. það sem áður er komið fram gæti fyrirtækið sjálft þó aldrei verið skráð sem höfundur hennar. Meiri spurning getur verið hvort fyrirtækið eigi einnig fjárhagslegan hluta höfundaréttarins þegar tónlistin er notuð í öðru samhengi en atvinnustarfsemi fyrirtækisins. Í slíkum tilvikum þarf að meta hvert tilvik fyrir sig. Mælir STEF ávallt með með því að höfundar gæti vel að réttindindum sínum í slíkum ráðningarsamningum og taki það helst fram að leyfið til að nota tónlistina taki eingöngu til notkunar í tengslum við atvinnustarfsemi fyrirtækisins en ekki öðrum tilvikum.
Efni og inntak höfundaréttar
Hér að ofan hefur verið minnst á fjárhagsleg réttindi höfundar en þau grundvallast á einkarétti höfundar til bæði eintakagerðar og birtingar verka sinna. Það er síðan hlutverk STEFs að annast umsýslu með þessi réttindi fyrir hönd höfunda, en nánar má lesa um slíka heildarleyfissamninga á þessari síðu, undir flipanum „Heildarleyifissamningar“.
Undir höfundarétt falla einnig ófjárhagsleg réttindi höfundarins. Þessi réttindi eru oft nefnd einu orði sæmdarréttur höfundar. Sæmdarrétturinn er margskonar og má fræðast nánur um hann undir flipanum „Sæmdarréttur“.
Verndartími höfundaréttar
Verndartími höfundaréttar er 70 ár frá lokum þess almanaksárs sem höfundur deyr.
Þegar um er að ræða samsett verk eins og tónverk með texta vandast þó aðeins málið. Í þeim tilvikum þegar höfundaframlag hvors um sig hefur verið sérstaklega búið til fyrir tónverkið með texta stendur verndin í 70 ár frá andlátsári þess höfundar sem lengst lifir, tónskálds eða textahöfunda. Hafi hins vegar lagið verið búið til við eldra ljóð eða hafi nýr texti verið saminn við eldra lag á þessi regla ekki við en þá telst textinn og tónverkið vera sjálfstæð verk og reiknast þá verndartíminn sjálfstætt fyrir hvort verk. Ef tónverk með texta er t.d. samið af tónhöfundi sem andast 1950 og textahöfundi sem andast 1970 verður þannig 20 ára tímabil þar sem aðeins söngtextinn nýtur verndar eða öfugt ef textahöfundur andast á undan tónhöfundi.
Ef um er að ræða fleiri en einn höfund að sama söngtexta eða fleiri en einn höfund að tónverki (eins og á t.d. við ef hljómsveit semur saman bæði lag eða texta) ber að líta á höfundaframlag hvers um sig sem verk samhöfunda. Í slíkum tilvikum stendur verndin í 70 ár frá andlátsári þess höfundar sem lengst lifir.
Verndartími hljóðrita
Verndartími hljóðrita sem framleiðendur og flytjendur njóta var allt til ársins 2015 50 ár frá útgáfu. Árið 2015 var verndartími hljóðrita lengdur í 70 ár frá útgáfu og var það gert þegar tilskipun ESB um sama efni var innleidd hér á landi. Hafa þetta verið nefnd „Cliff Richard“ lögin þar sem hann barðist hatrammlega fyrir því að fá verndartímann lengdan enda voru á þeim tíma hans fyrstu upptökur að falla úr vernd.
Takmarkanir á höfundarétti
Á höfundarétti eru ýmsar takmarkanir sem höfundar þurfa að þola á einkarétti sínum. Sem dæmi um slíkt má nefna ýmsar takmarkanir í þágu blindra, heyrnarlausra, fræðslustarfsemi, góðgerðarsamtaka, rannsókna o.fl. Birting verka í tengslum við umræðu og frétta og upplýsingaþjónustu fjölmiðla. Varðandi góðgerðartónleika má benda sérstaklega á skilyrði STEFs til þess að fella niður höfundaréttargjöld af slíkum tónleikum (sjá hér). Viðamestu takmarkanirnar eru þó væntanlega þær að eintakagerð til einkanota er öllum almenningi heimil án endurgjalds, enda greiði ríkið sanngjarnar bætur til höfunda vegna þessarar heimildar. IHM (Innheimtumiðstöð rétthafa) annast umsýslu með greiðslur fyrir eintakagerð til einkanota og má vísa á heimasíðu IHM í því sambandi, www.ihm.is.
Höfundalög nr 73/1972 má finna á vef Alþingis: http://www.althingi.is/lagas/138b/1972073.html
Fróðleikur um Bernarsáttmálinn
Bernarsáttmálinn tók gildi 5. desember 1887 og höfðu þá níu ríki staðfest hann, þ.á m. evrópsku stórveldin Belgía, Bretland, Frakkland, Ítalía, Spánn og Þýskaland. Norðurlöndin voru ekki meðal stofnaðila að sáttmálanum, heldur gerðust þau aðilar að honum síðar, fyrst Noregur 1896, þá Danmörk 1903, Svíþjóð 1904, Finnland 1928 og loks Ísland 1947. Hinn 1. janúar 1995 voru 109 ríki orðin aðili að sáttmálaunum.
Það markaði þáttaskil við gildistöku sáttmálans að þá hlaut sú regla fyrst alþjóðlega viðurkenningu að hvert aðildarríki skuli veita verkum frá öllum öðrum aðildarríkjum sömu vernd og eigin verkum (“The Rule on National Treatment”). Önnur mikilvæg grein er í 5. gr. sáttmálans og segir að “höfunar skulu njóta réttinda þessara án nokkurra formskilyrða”, sem þýðir að vernd höfundaréttar má ekki vera bundin neins konar formlegum skilyrðum eins og því að verkið sér sérstaklega skráð, að eintak sé afhent af verkinu eða eintök af því merkt á einhvern sérstakan hátt. Hafa verður þó í huga að sáttmálinn tekur einungis til erlendra höfunda þannig að aðildarríkjunum er í sjálfsvald sett hvort þau gera slíkar formkröfur til verka eigin höfunda.
Í sáttmálanum var frá upphafi gengið út frá því að hann skyldi tekinn til endurskoðunar að fenginni reynslu og hefur honum alls verið breytt sjö sinnum, síðast í París 1971.
Efnisreglum sáttmálans má skipta í tvennt: Annars vegar í reglur, sem aðildarríkin eru skuldbundin til þess að taka upp í höfundalög sín, og hins vegar frávíkjanlegar reglur sem eru aðeins leiðbeinandi en ekki skuldbindandi fyrir ríki þau sem gerst hafa aðilar að sáttmálanum.
Sáttmálinn er gerður á frönsku og ensku, en rísi ágreiningur um skilning á einstökum ákvæðum skal farið eftir franska textanum. Hafa ber þetta atriði í huga þegar stuðst er við þýðingar á sáttmálanum eins og þá íslensku sem birt er í fylgiskjali með lögum nr. 80/1972 (Opnast í nýjum vafraglugga). Í 1. mgr. 7. gr. sáttmálans er kveðið á um það að gildistími höfundaréttar skuli haldast í 50 ár eftir lát höfundar. Sum aðildarríkin, sem gerst höfðu aðilar að sáttmálanum fyrir 1948, hafa ákveðið að halda skemmri gildistíma samkvæmt sérstakri heimild, en önnur hafa lengt verndartímann. Þetta hefur í för með sér að verndartími höfundaréttar er mismunandi í aðildarríkjunum, allt frá 25 árum upp í 99 ár eftir lát höfundar. Í flestum aðildarríkjunum er gildistíminn annað hvort 50 eða 70 ár. Á Íslandi hefur hann verið 70 ár frá því 1. janúar 1997.
Hér að neðan gefur að líta rammasamninga STEFs við Borgarleikhúsið og Þjóðleikhúsið um frumsamda tónlist, sem tónhöfundar geta stuðst við þegar þeir semja beint við leikhúsin um að semja tónlist við leikverk. Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að verðin í samningnum eru lágmarksverð og að eingöngu er um greiðslu á milli leikhússins og tónhöfundarins að ræða, STEF innheimtir ekki höfundaréttargjöld af þessum sýningum. Samningunum fylgir form sem hægt er að nota við þessa samningsgerð, sem hér er hægt að nálgast einnig og fylla út.
Rammasamningur – Frumsamin tónlist – Borgarleikhúsið
Rammasamningur – Frumsamin tónlist – Þjóðleikhúsið
Samningur höfundar við Borgarleikhúsið (til útfyllingar)
Samningur höfundar við Þjóðleikhúsið (til útfyllingar)
Hjá STEFi starfar þriggja manna matsnefnd sem meðlimir samtakanna geta leitað álits hjá ef upp koma tilvik þar sem grunur er um stuld á lagi eða lagbút. Nefndarmenn eru tilnefndir af stjórn STEFs og er gerð sú krafa til þeirra að þeir eru sérfræðingar í tónlist annað hvort vegna menntunnar sinnar eða reynslu.
Álit matsnefndar er tónfræðilegt en ekki lögfræðilegt.
Álit matsnefndar getur verið hjálplegt fyrir þann sem leitar eftir mati m.a. til að taka ákvörðun um hvort viðkomandi eigi að leita til dómstóla eða til að styðja við kröfur sínar að öðru leiti.
Álit nefndarinnar er bindandi gagnvart skráningu verksins hjá STEFi (í þeim tilvikum þar sem það á við) en er að öðru leiti leiðbeinandi fyrir þann sem leitar eftir mati. Ávallt er þó hægt að leita til dómstóla til að hnekkja áliti nefndarinnar hvað varðar skráningu verka hjá STEFi.
Kostnaður við vinnu matsnefndar er greiddur af STEFi og er þessi þjónusta því án kostnaðar fyrir þann meðlim STEFs sem leitar eftir matinu. Ef aðilar máls leggja út í annan kostnað vegna máls fyrir matsnefndinni er sá kostnaður greiddur af þeim sem stofnar til hans.
Beiðnir um álit nefndarinnar skulu sendar á netfangið info@stef.is merktar „Matsnefnd – beiðni um álit“
Sá aðili sem leitar eftir áliti nefndarinnar skal senda inn skriflega greinargerð sem fram kemur krafa aðila og hvert ágreiningsefnið sé auk rökstuðnings.
Varði ágreiningurinn aðra meðlimi STEFs, skal nefndin tilkynna viðkomandi um framkomna beiðni um álit og gefa viðkomandi kost á að koma að sjónarmiðum sínum innan hæfilegs frests. Berist greinargerð til andmæla innan tilskilins frest sendir nefndin hana áfram til upphaflegs málsbeiðanda sem fær þá kost á andsvörum. Andmælandi fær þá einnig kost á að koma að athugasemdum við andsvörin.
Nefndin leitar ekki sérstaklega sátta milli aðila.
Nefndinni er heimilt að afla frekari gagna að sjálfsdáðum.
Ekki er um munnlegan málflutning að ræða fyrir nefndinni.
Nefndin skilar rökstuddu áliti sem sent er aðilum máls.
Álit nefndarinnar eru ekki birt opinberlega af hálfu STEFs en aðilum máls er frjáls að birta álit nefndarinnar kjósi þeir slíkt, nema annað komi sérstaklega fram í álitinu.
Hugtakið „mekanísk“ réttindi eða leyfi (e. mechanical) vísar fyrst og fremst til leyfis fyrir að framleiða tónlist á föstu formi eða gera eintök af tónlist, t.d. á plötum og geisladiskum, en lefyisgjaldið til höfunda er ákveðið hlutfall af verði hvers framleidds eintaks.
Mekaníska hugtakið er þó ekki einungis tengt áþreifanlegum eintökum, heldur á það einnig við í stafræna heiminum, þar sem hluti af þeim tekjum sem til falla vegna stafrænnar notkunar teljast mekanískar, bæði tengist það niðurhali, en við niðurhal má segja að myndist í raun eintök, ýmist varanleg eða tímabundin (off-line) og streymi, en við streymi á sér stað bráðabirgðaeintakagerð.
Mekaníska kerfið í Bandaríkjunum
Eftir innleiðingu á lögum í Bandaríkjunum, er varða tónlist í breyttu tækniumhverfi, lög sem nefnast „Music Modernization Act“ (MMA), sér ákveðin stofnun (MLC) um að veita mekanísk leyfi fyrir stafrænum útgáfum á tónlist í Bandaríkjunum með samningum við tónlistarveitur.
Mekanísk leyfisgjöld ná bæði til eigin útgáfu sem og útgáfu á ábreiðum (e. covers). Fyrir mekanísk leyfi greiða tónlistarveiturnar leyfisgjald samkvæmt ákvörðun sérstaks „Copyright Royalty Board“ í Bandaríkjunum. Þurfa flytjendur eða útgefendur verka í Bandaríkjunum því ekki lengur að fara í sérstakar aðgerðir vegna stafrænnar útgáfu þarlendis (þ.e.a.s. streymis og niðurhals á vegum tónlistarveita).
Áfram þurfa útgefendur í Bandaríkjunum þó að sækja um sérstök leyfi til að útgáfu á áþreyfanlegum eintökum þarlendis.
Í gegnum samninga NCB við Harry Fox Agency í Bandaríkjunum, fá meðlimir STEFs greitt fyrir mekanísk réttindi sín í Bandaríkjunum og þurfa því ekki að skrá sérstaklega verk sín hjá MLC stofnuninni. Gott er þó að gera sér grein fyrir því, að séu meðlimir STEFs með tónlistarforleggjara (e. publisher) eða undirforleggjara (e. sub-publisher) í Bandaríkjunum, þá greiðir MLC þóknanir vegna mekanískra réttinda til þeirra, en ekki til STEFs.
Í gegnum NCB er STEF einnig með samning við sérstakan innheimtuaðila í Bandaríkjunum, sem annast innheimtu á mekanískum réttindum af myndefni með tónlist (e. audio-visual), svo sem frá YouTube. Það sama á við um þessi leyfi og leyfi MLC, þ.e.a.s. að séu meðlimir STEFs með tónlistarforleggjara í Bandaríkjunum, fara þóknanir vegna þeirra til forleggjarana, en ekki til STEFs.
Mekaníska kerfið á Íslandi og í Evrópu
Hvað varðar stafræn mekanísk réttindi í Evrópu og flestra annarra svæða í heiminum en Bandaríkjanna, þ.m.t. á Íslandi, þá er landslagið mun einfaldara, þar sem samningar STEFs og annarra höfundaréttasamtaka við tónlistarveitur felur í sér bæði mekanísk réttindi og réttindi vegna opinbers flutnings — og er ekki gerður greinarmunur þar á. Er enda gengið út frá því að stafrænum útgáfum sé eingöngu dreift til löglegra tónlistarveita og lögin réttilega merkt höfundum þegar þeim er komið í dreifingu. Vegna útgáfu á áþreyfanlegum eintökum þarf þó eftir sem áður að sækja um og greiða fyrir sérstök framleiðsluleyfi til NCB (eða sambærilegra mekanískra samtaka í öðrum Evrópulöndum).
Samkvæmt tilskipun Evrópuráðsins um munaðarlaus verk sem innleidd hefur verið í höfundalög, er stofnunum sem starfa í almannaþágu (t.d. söfnum og menntastofnunum) heimilt að nota verk sem teljast munaðarlaus á þann hátt að gera eintök af þeim svo og að veita almenningi aðgang að verkunum. Verk telst munaðarlaust ef rétthafi þess finnst ekki þrátt fyrir ítarlega leit. Sú stofnun sem hyggst nota munaðarlaust verk skal tryggja að slík leit hafi farið fram og verið skráð. Ef rétthafi verks sem áður hefur ekki fundist gefur sig fram við stofnun sem notar verk samkvæmt ákvæðum þessa kafla skal viðkomandi verk ekki lengur teljast munaðarlaust og afnot þess ekki lengur heimil nema með leyfi rétthafa.
Tónverk sem hluti af myndlist eða tónverk hluti af gjörningi eða innsetningu
Upp hafa komið spurningar um úthlutun þegar tónverk sem notað er sem hljóðinnsetning í listasafni og þá hvernig eða hvort STEF úthluti fyrir slíkt.
Aðalatriðið er að skoða hvort tónverkið og myndlistarverkið teljist vera eitt samofið verk eða ekki. Ef tónlistin telst órjúfanlegur hluti af verkinu og ekki er hægt að aðskilja þessa tvo þætti hvorn frá öðrum, þá teljast höfundarnir vera samhöfundar verksins. Í slíkum tilvikum á listasafnið eða galleríið að semja við báða aðila um uppsetningu verksins og þar með um greiðslur til beggja og á það sama við um sölu á verkinu, ef t.d. er um vídeóverk að ræða sem selt er í nokkrum eintökum til uppsetningar. Þar með ætti tónhöfundurinn þá væntanlega rétt einnig á fylgiréttargjaldi ef verkið yrði síðar framselt enn öðrum.
Önnur útfærsla er, að annar höfundurinn (þá oftast myndhöfundurinn) fær hinn fjárhagslega rétt framseldan frá tónhöfundinum og heimild til uppsetningar verksins og sölu. Þá tekur myndhöfundurinn einn við greiðslu frá listasafninu eða kaupanda verksins, en það fer síðan eftir samningi hans og tónhöfundarins hvernig gert er upp við tónhöfundinn og hversu stóran hluta uppgjörsins hann fær í sinn hlut. Er það þá myndhöfundarins að gæta að hagsmunum tónhöfundarins jafnhliða sínum eigin.
Ofangreint á við hvort sem um er að ræða frumsamið tónverk sérstaklega fyrir myndverkið eða eldra tónverk er notað með heimild tónhöfundar, svo lengi sem tónlistin telst órjúfanlegur hluti af heildarverkinu. Í slíkum tilvikum er þá einnig óheimilt að skipta út tónlistinni síðar fyrir aðra tónlist án heimildar upphaflega tónhöfundarins.
Hvort sem um frumsamda tónlist er að ræða fyrir viðkomandi verk eða ekki, þá er ljóst að STEF veitir ekki heimild fyrir því að skeyta saman tónlistinni við annað listform og búa til nýtt verk. Þarna verður tónhöfundurinn alltaf að koma sjálfur að gerð viðkomandi verks, annaðhvort með samþykki fyrir notkun á áður útgefinni tónlist og eða með því að semja sérstaka tónlist fyrir verkið.
Allt að einu, þá fellur listaverkið sjálft í heild með tónlistinni undir það sem kallað er stórréttindi (e. grand rights), sem höfundurinn sjálfur þarf að semja um uppsetningu á, svipað og þegar skeytt er saman sviðsverki og frumsömdu tónverki. STEF innheimtir ekki fyrir opinberan flutning á slíkum verkum, heldur verður tónhöfundurinn að tryggja sér greiðslu fyrir flutningnum á annan hátt.
STEF innheimtir eingöngu frá listasöfnum og galleríum ef haldnir eru tónleikar á vegum listasafnsins. Einnig reynir STEF að innheimta af tónleikahöldurum sem leigja slík rými fyrir tónleikahald. Þá er einnig hugsanlegt að söfn séu með samning við STEF um að nota tónlist í bakgrunni, s.s. í kaffiteríum eða öðrum opnum rýmum safna eða gallería.
Það er NCB sem veitir leyfi fyrir framleiðslu tónlistar á föstu formi (plötur og geisladiskar t.d.) Smellið hér til að fræðast um það.
Ef fleiri en einn aðili vinna saman að sköpun verks, eignast viðkomandi aðilar verkið saman (það kann þó að vera í mismunandi hlutföllum, sbr. umfjöllun annars staðar hér á heimasíðunni um skiptingu höfundaréttar). Venjulega er ekki talað um sameigendur að verki að þessu leyti eða samhöfunda, nema framlög þeirra til sköpunar verði ekki aðgreind hvert frá öðru sem sjálfstæð verk. Hins vegar gildir annað um það þegar tveir aðilar eða fleiri eiga hver sitt staka verk, sem þeir taka ákvörðun um eða samþykkja að skeytt sé saman í nýtt verk, sem þá er orðið að samsettu verki.
Þegar kemur að tónlist, er venjulega litið svo á að texti og sú tónlist sem hljómar undir textanum séu samsett verk. Þannig sé textinn sjálfstætt verk og tónlistin sem hljómar undir annað sjálfstætt verk, enda er almennt hægt að aðskilja textann frá laginu undir, jafnvel þótt báðir hlutar hins samsetta verks séu jafnan fluttir samtímis. Undantekningar frá þessu eru þó til. Þannig væri t.d. ópera þar sem ekki er hægt að aðskilja textann (librettóið) frá tónlistinni án þess að heildarverkið missi gildi sitt, að verulegu leyti líklega talin vera eitt verk í sameign, en ekki samsett verk.
Þetta þýðir að textahöfundur þarf almennt að sæta því að lagahöfundur samþykki nýjan texta við lag sitt og öfugt. Ef hins vegar hinn nýi texti er í raun þýðing á upprunalegum texta eða vísar til hans eða aðlagar hann að einhverju leyti, þá þarf upphaflegi textahöfundurinn að samþykkja slíkt. Eins fær textahöfundur ekki greitt frá STEFi ef lagið er flutt án textans, enda hafi lagið þá einnig verið skráð í slíkri útgáfu hjá STEFi.
Sé verk í sameign, þarf aftur á móti samþykki allra sameiganda eða samhöfunda hvað varðar ráðstöfun verksins, sem og hvað varðar breytingar á því. Þegar verk er í sameign margra aðila er oft heppilegt að viðkomandi aðilar geri með sér samkomulag um að einn fari með ráðstöfunarrétt yfir verkinu og getur þá viðkomandi einn gert samninga um notkun verksins t.d. um notkun þess í kvikmyndum. Um leið ber þá sami aðili ábyrgð á því að skipta greiðslum sem hann tekur hugsanlega við vegna slíkra samninga á milli allra sameiganda verksins. Slíkir samningar geta einfaldað mjög vinnu fyrir t.d. framleiðslufyrirtæki og stuðlað fremur að því að verkið verði notað í hin ýmsu verkefni. Slíkt á í raun einnig við ef einn aðili á texta og annar á lagið undir, þ.e.a.s. að það getur verið heppilegt að þessir aðilar geri með sér samskonar samning um ráðstöfun á hinu samsetta verki.
STEF hefur útbúið samningsform og tékklista sem höfundar geta nýtt sér við samningsgerð við framleiðendur kvikmynda eða annars myndefnis.
Annars vegar er um að ræða samningsform sem ætlað er þeim sem semja heildarverk (e. score) við kvikmynd og hins vegar samningsform þegar verið er að semja um notkun á einu eða fleiri áður útgefnum verkum í kvikmynd, en samningsgerðin er nokkuð ólík í þessum tilvikum.
Rétt er að benda á að ávallt þarf að aðlaga samninga að aðstæðum hverju sinni s.s. hver sé samningsstaða viðkomandi sem getur farið eftir því hvort um er að ræða þekktan höfund sem skapað hefur sér nafn eða óþekktan sem er að byrja í sínu fagi og hver gagnaðilinn er.
Höfundar eru því varaðir við að nota samningsformin án þess að kynna sér þau vel og ávallt er mælt með því að höfundar leiti sér ráðgjafar lögmanna sem eru sérfræðingar á sviði höfundaréttar áður en þeir skrifa undir samninga.
Samningsform fyrir heildarverk
Samningsform fyrir áður útgefna tónlist
Ef höfundur sem gerir samning um notkun á lagi sínu í kvikmynd eða sjónvarpsþátt á einnig masterréttinn að laginu, þ.e.a.s. höfundurinn hefur framleitt upptökuna á hljóðritinu og á réttinn á því, getur höfundurinn í einu lagi samið um notkun á laginu sjálfu og hljóðritinu og þá notast við þennan viðauka.
Viðauki ef höfundur á einnig masterrétt hljóðrits
Tékklisti fyrir höfunda vegna samningagerðar við framleiðendur myndefnis
Athugið að tékklistinn hér að neðan er engan veginn tæmandi varðandi þau atriði sem þarf að hafa í huga varðandi sölu tónlistar í kvikmyndir, en ætti þó að gefa ákveðnar hugmyndir um það sem mestu máli skiptir.
Einkaréttur eða ekki
Ef um er að ræða frumsamda tónlist getur verið rétt að veita einkarétt að tónlistinni en mun síður ef verið er að fá leyfi til að að nota áður útgefna tónlist. Í slíkum tilvikum er hægt að tengja einkaréttinn við ákveðinn tíma.
Ef veittur er einkaréttur er eðlilegt að huga að því hvort höfundurinn sjálfur geti ekki gefið út tónlistina eingöngu án tengingar við kvikmyndina.
Rétt er þá einnig að athuga hvort hægt sé að fá heimild fyrir því að höfundurinn geti notað tónlistina t.d. í heimildarmyndum um sjálfan sig eða í kynningarskyni fyrir sig síðar meir.
Einkaréttur kostar að sjálfsögðu meira.
Notkunartími
Það skiptir máli hvað framleiðsluferli kvikmyndarinnar er komið langt þegar samið er við tónhöfund og hvers eðlis myndin er. Er t.d. ætlunin að sýna myndina erlendis eða ekki? Er búið að tryggja dreifingu erlendis?
Ef ljóst er að ætlunin er að selja dreifingarréttinn erlendis er oftast nauðsynlegt að notkunartíminn sé út verndartíma höfundaréttarins.
Ef óvíst er um dreifingu og fjárhagsáætlun myndarinnar er mjög lág, er hægt er semja um notkunarrétt til stutts tíma fyrir tiltölulega lágt verð. Er þá samið aftur síðar um réttinn til að sýna kvikmyndina á kvikmyndahátíðum og síðan jafnvel enn aftur þegar búið er að tryggja því dreifingu erlendis. Slíkt fyrirkomulag getur þjónað hagsmunum beggja aðila. Lítil mynd getur náð flugi og mikilli dreifingu erlendis og þá getur verið slæmt að vera búin að semja um mjög lága greiðslu í upphafi fyrir leyfi sem gildir í ótakmarkaðan tíma og í öllum heiminum.
Ef samið er um ótakmarkaðan notkunartíma kostar það vitaskuld meira heldur en takmarkaður notkunartími.
Verðlagning
Til er sú þumalputtaregla að 5-11% af heildarfjárhagsáætlun kvikmyndarinnar skuli fara í að greiða fyrir tónlist í myndinni. (Meðaltal 7%.) Innifalið í þessari tölu er þá bæði heildarverkið (e. score) og þegar útgefin tónlist. Í þeim tilvikum sem að um er að ræða heimsþekkt lög er verðlagningin þá nær efri mörkum en þegar um óþekkta höfundar er að ræða væri verðlagningin nær neðri mörkum. Eðlilegt er að spyrja um hver heildarfjárhagsáætlun kvikmyndarinnar er, að opinberum styrkjum meðtöldum.
Hvar á að sýna verkið? Á að sýna kvikmyndina eingöngu á Íslandi eða einnig erlendis? Það skiptir máli varðandi verð.
Hvers konar mynd er um að ræða og hver er markaðurinn fyrir hana. Er um að ræða heimildarmynd, leikna mynd með þekktum leikstjóra og leikurum, mynd sem eingöngu er ætlunin að sýna í sjónvarpi eða er ætlunin að sýna hana í kvikmyndahúsum.
Hver er þýðing tónlistarinnar fyrir myndina? Er t.d. um að ræða upphafs- eða lokasendur myndarinnar og í hvaða samhengi er tónlistin notuð. Þá er vert að skoða hvort að tónlistin sé í bakgrunni myndarinnar eða hvort er hún í forgrunni. Ef myndskeiðið undir tónlistinni sýnir hljómsveitarmeðlimi spila lagið eða söguhetjuna dilla sér í takt við tónlistina hefur tónlistin meira vægi og á það að endurspeglast í verðlagningunni.
Ef óskað er eftir heimild til að nota tónlistina í kynningarmyndböndum „trailers“er eðlilegt að samið sé um og greitt fyrir slíkt sérstaklega. Oft er sérstök fjárhagsáætlun til um markaðssetningu myndarinnar sem er ekki hluti af fjárhagsáætluninni til að framleiða hana. Telst það hluti af markaðskostnaði myndarinnar af fá leyfi fyrir að nota tónlist í kynningarmyndböndum.
Rétt er að höfundurinn fái að sjá kvikmyndaverkið áður en hann gefur endanlegt samþykki fyrir því að tengja tónlistina sína við verkið. Ef kvikmyndaverkið er ekki tilbúið við samningsgerðina, er mælt með því að höfundur geri fyrirvara um að hann geti með tilvísun til sæmdarréttar síns rift samningnum innan tiltekins tíma frá því að hann hefur séð verkið.
Hafa þarf í huga að þegar um er að ræða frumsamda tónlist þarf höfundurinn venjulega að skila af sér fullunnu verki og þarf að taka tillit til kostnaðar við framleiðslu, stúdíóvinnu o.s.frv. Þá er rétt að hann áskilji sér vinnulaun ef óskað er eftir vinnuframlagi hans við frekari úrvinnslu tónlistarinnar eftir að hann hefur skilað verkinu.
Taka þarf sérstaklega fram að höfundurinn haldi eftir rétti til greiðslna vegna eintakagerðar (t.d. vegna DVD útgáfu), réttur þessi er oft kallaður mekanískur réttur (e. mechanical right) og annast NCB innheimtu á slíkum greiðslum fyrir hönd höfundarins. (Um þetta atriði er rétt að kynna sér sérstaka bókun stjórnar STEFs sem finna má á heimasíðu STEFs).
Rétt er að taka einnig fram að höfundur áskilji sér hefðbundinn rétt til greiðslna vegna opinberrar sýningar myndarinnar sem að STEF eða önnur sambærileg samtök innheimta. Ekki er nauðsynlegt að taka þetta fram þar sem höfundaréttarsamtök hafa oftast ótvíræða heimild skv. lögum til að innheimta fyrir opinberan flutning, en STEF mælir þó með því að slíkt ákvæði sé sett inn í samninginn.
Annað
Eðlilegt er að höfundurinn ábyrgist að hann hafi sannarlega samið viðkomandi verk.
Áður en höfundar skrifa undir samninga við framleiðendur myndefnis er mjög mikilvægt að þeir skilji sjálfir þann samning sem þeir skrifi undir og að þeir leiti sér lögfræðilegrar ráðgjafar sérfræðings á sviði höfundaréttar. Skrifstofa STEFs getur veitt höfundum ákveðnar leiðbeiningar í þessu efni svo og vísað á lögmenn geta tekið að sér slík verkefni.
Með „samningskvöð“ er átt við að ákveðið er með lögum að notendum verka — sem varin eru af höfundarétti og gert hafa samning við sameiginlega umsýslustofnun (eins og STEF er) um notkun á verkum félagsmanna — skuli einnig vera heimilt að nýta og innheimta fyrir verk þeirra sem kjósa að vera ekki meðlimir í STEFi, enda séu verkin sömu tegundar og verk sem samningurinn tekur til og notkunin að öðru leyti háð ákvæðum samningsins.
Á ensku er þetta nefnt „Extentive Collective Licensing“. Um samningskvaðir hefur verið kveðið á um í íslenskum höfundalögum frá árinu 1992, en á árinu 2016 bættust við lögin fjögur ný samningskvaðaákvæði. Samningskvaðaleyfi sem notendur fá með samningi eru einnig stundum nefnd heildarleyfi eða heildarsamningar.
Til þess að umsýslustofnanir eins og STEF geti gert samninga með samningskvöð, verða þær að hafa öðlast viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins, sem ekki fæst nema með því að sýna m.a. fram á að viðkomandi samtök rétthafa séu í forsvari fyrir verulega stóran hluta höfunda tiltekinna tegunda verka sem notuð eru hér á landi.
Í tilviki STEFs teljast þeir utanfélagsmenn sem ekki eru meðlimir í STEFi.
Samningskvaðir eða samningskvaðaleyfi eru lögfest á sviðum sem nánast ómögulegt er fyrir einstaka notanda að semja um á einstaklingsgrundvelli, þ.e.a.s. ef afar erfitt er að semja við hvern og einn rétthafa um not höfundaréttarvarinna verka. Það á t.d. við þegar STEF semur við útvarpsstöðvar. Það er þó um leið hlutverk STEFs að gæta jafnt að réttindum utanfélagsmanna sem og meðlima.
STEF hefur gert samningskvaðasamninga m.a. við RÚV, SÝN, N4, Útvarp Sögu, Hringbraut og K100. Samningskvaðaákvæði eru einnig venjulega í samningum sem gerðir er vegna skammtímaútvarps.
Allir höfundar geta þó bannað notkun á eigin efni skv. heildarleyfissamningum. Flestir samningar STEFs gera ráð fyrir að samtökin tilkynni notendum um slíkt bann með mánaðar fyrirvara. Vilji höfundar (jafnt meðlimir STEFs sem utanfélagsmenn) banna notkun á verkum sínum, þá ber þeim að tilkynna um slíkt skriflega til STEFs. Það er hægt að gera með því að senda tölvupóst á info@stef.is.
Þá eiga utanfélagsmenn sama rétt og meðlimir STEFs til greiðslna á því sviði sem samningskvöðin tekur til, eigi þeir réttmæta kröfu fyrir notkun. Í tilviki STEFs er gerð krafa um að slíkir aðilar sendi inn skráningu um verk sín, til þess að hægt sé að úthluta til þeirra vegna notkunarinnar. Þá auglýsir STEF einnig á heimasíðu sinni eftir höfundum óþekktra verka. Hægt er að nálgast skráningareyðublöð á heimasíðunni og senda þau með tölvupósti á info@stef.is (fyrir þá sem ekki eru meðlimir og hafa þ.a.l. ekki aðgang að „Mínum síðum“).
STEF vekur athygli á því, að með því að gerast meðlimur í STEFi, þá fá viðkomandi höfundar alþjóðleg höfundanúmer, sem gerir STEFi kleift að innheimta einnig fyrir notkunar á verkum erlendis, þ.m.t. frá tónlistarveitum, sem og fyrir eintakagerð. Auk þessa geta meðlimir STEFs sótt ýmiss konar aðstoð frá STEFi, s.s. lögfræðilega þjónustu og fræðslu.
Smellið hérna fyrir gagnlegar upplýsingar um skattamál forleggjarasamninga, tvísköttunarmál o.fl.
Eitt af því erfiðara sem höfundar þurfa að gera er að ná samkomulagi við meðhöfunda um skiptingu höfundaréttar á verkum. Hefur stundum verið sagt að deilur um skiptingu höfundaréttar sé það sem oftast sprengir upp samstarf hljómsveita sem vegnar vel.
Mikilvægt er að gera greinarmun á skiptingu höfundaréttar annars vegar og útgáfuréttar hins vegar, en það er útgefandi hljóðritsins sem á þann rétt (oft nefnt masterréttur). Ef ekki er um eiginlegan útgefanda að ræða, þá eru það flytjendur hljóðritsins sem eiga sameiginlega útgáfuréttinn.
Þegar um útgefanda er að ræða, þá ber slíkum að gera útgáfusamning við flytjendur, sem kveður m.a. á um skiptingu tekna af sölu hljóðritsins. Einungis er gerður útgáfusamningur við aðalflytjanda (eða aðalflytjendur), en aðrir flytjendur, sem teljast þá aukaflytjendur, afsala sér venjulega öllum rétti yfir hljóðritinu (t.d. sk. „session“-fólk), enda fær það greitt á annan hátt fyrir sína vinnu. Þá tíðkast það að einhverju leyti (aðallega í Bandaríkjunum) að upptökustjórar fái tiltekinn hluta af tekjum vegna sölu hljóðritsins.
Útgefanda ber að skrá alla flytjendur á hljóðritinu (bæði aðalflytjendur og aukaflytjendur) á vefsíðuna www.hljodrit.is, sem SFH (Samband flytjenda og hljómplötuútgefenda) heldur úti. Hljóðritið fær í leiðinni sk. ISRC-kóða, sem fylgir því eftirleiðis, t.d. í spilunum í útvarpi og á tónlistarveitum. Þessi kóði verður n.k. alþjóðleg „kennitala“ hljóðritsins/upptökunnar.
Hvað varðar hluta höfunda verksins, þá eru þeir skrásettir þegar verkið sjálft er skráð hjá STEFi. Í leiðinni öðlast höfundaverkið sk. ISWC-kóða, sem er að sama skapi n.k. alþjóðlega kennitala sjálfs verksins. Meginreglan er sú, að höfundar verksins hafa frjálsar hendur um að semja sín á milli um skiptingu höfundaréttarins. Í úthlutunarreglum STEFs er hins vegar að finna ákveðnar leiðbeiningar um skiptingu.
Við skráningu verksins þarf að skrá hlutverk hvers og eins höfundar. Þannig er tónhöfundur merktur sem „C“ (Composer) og textahöfundur merktur sem „A“ (Author). Ef sami aðili er bæði tón- og textahöfundur er viðkomandi merktur sem „CA“. Útsetjari er merktur sem „AR“ (Arranger). Þá er þýðandi texta, eða sá sem hefur gert nýjan texta með leyfi frumhöfundar, merktur sem „SA“ (Sub-Author). Ef tónlistarforleggjari (e. music publishers) tengist verkinu, þá er hann merktur með „E“ (Editor).
Sé höfundur búinn að gera samning við tónlistarforleggjara, þá sér forleggjarinn venjulega um að skrá verkið fyrir höfundinn og í leiðinni hlutdeild forleggjarans í verkinu. STEF mælir þó með því að höfundar skoði slíkt ávallt sjálfir og séu meðvitaðir hvaða hlutdeild hafi verið skráð á forleggjarann.
Þegar fleiri en einn höfundur fara saman í lagasmíðabúðir eða í hljóðver til að semja, þá er góð vinnuregla að yfirgefa ekki búðirnar/hljóðverið fyrr en búið er að semja um skiptingu höfundaréttarins. Mjög oft er reglan sú að skipt er jafnt á milli aðila, enda hafi þeir sannarlega skapað það saman á staðnum. Það er á hinn bóginn einnig góð vinnuregla, að sá sem kemur í hljóðver undirbúinn með grunn að lagi eða hálftilbúið lag, geri grein fyrir því í upphafi að hann/hún geri ráð fyrir að fá tiltekinn hluta höfundaréttarins fyrir framlag sitt.
Algengt er að hljómsveitir komi sér upp þeirri reglu að allir meðlimir sveitarinnar skrái sig jafnt fyrir höfundarétti þeirra laga sem hljómsveitin gefur út saman. Slíkt getur auðvitað verið ágæt leið til að einfalda málin og halda frið. Það getur hins vegar verið ósanngjarnt að skipta öllu jafnt, ef sumir meðlimanna leggja meira til eða eyða sannarlega meiri tíma en aðrir í að semja lögin, t.d. annars staðar en á æfingum.
Þekkt eru mörg dæmi um hljómsveitir sem í upphafi hafa skipt öllu jafnt í n.k. „bræðralagi“, en síðar hafi meðlimir áttað sig á því að sumir lögðu mun meira til laganna en aðrir. Vert er að meðlimir hafi þetta í huga, ræði málin opinskátt strax, séu raunsæir og hafi skiptinguna samkvæmt því. Ekki er óalgengt að menn sammælist um breytta skiptingu seinna meir, en það getur þó verið býsna ósanngjarnt, einkum í ljósi þess að höfundaréttartekjur af lögum eru oft mestar fyrstu árin.
Í tengslum við skiptingu höfundaréttar er oft talað um „punkta“. Það er vegna þess að áður fyrr miðaðist úthlutunarkerfi STEFs við „punkta“ (hvert verk hafði 12 „punkta“ sem skiptust á milli höfundanna). Það kerfi hefur hins vegar verið aflagt og nú er eingöngu miðað við prósentuhlutfall.
Hér fyrir neðan má sjá töflu sem sýnir skiptingu höfundaréttar skv. úthlutunarregum STEFs. Athygli skal þó vakin á því, að taflan er að meginstefinu aðeins leiðbeinandi og höfundum er frjálst að semja um önnur hlutföll en fram eru sett í töflunni.
Í ákveðnum tilvikum er hlutdeild þó ekki umsemjanleg. Það á við um hlut útsetjara eða upptökustjóra, en taflan sýnir hæstu hlutdeild sem útsetjara/upptökustjóra er heimil. Það á einnig við í tilvikum þegar hluti verks (annaðhvort tónverk eða texti) er ekki lengur í vernd, en þá eru settar skorður við hámarkshlut (sem talfan sýnir) þess höfundar sem bætir við slíkt verk (annað hvort nýju tónverki eða nýjum texta).
Athugið að þegar rætt er um að verk sé ekki í vernd, þá á það einnig við um þau tilvik sem höfundur er óþekktur.
Tónskáld | Textahöf. | Útsetjari | |
---|---|---|---|
Tónverk án texta | 100% | – | – |
Tónverk og texti, samið samtímis* | 50% | 50% | – |
Tónverk samið við eldri texta | 66,67% | 33,33% | – |
Tónverk samið við eldri texta, ef texti er ekki í vernd | 66,67% | – | – |
Texti er saminn við eldra tónverk | 50% | 50% | – |
Texti saminn við eldra tónverk, ef tónverk er ekki í vernd | – | 50% | – |
Útsett verk: | |||
Útsett tónverk án texta | 83,34% | – | 16,67% |
Útsett tónverk og texti, samið samtímis* | 33,33% | 50% | 16,67% |
Útsett tónverk samið við eldri texta | 50% | 33,33% | 16,67% |
Útsett tónverk samið við eldri texta, ef texti er ekki í vernd | 50% | – | 16,67% |
Útsett tónverk án texta, ef tónverk er ekki í vernd** | – | – | 16,67% |
Texti með útsettu tónverki, ef tónverk er ekki í vernd, en útsetningin er í vernd | – | 50% | 16,67% |
Samsett verk (þjóðlag og nýtt verk)***
Tónskáld | Textahöf. | Þjóðlag | Útsetjari | |
---|---|---|---|---|
Tónverk og þjóðlag án texta | 50% | – | (50%) | – |
Tónverk og þjóðlag með þjóðvísu | 33,34% | (33,33%) | (33,33%) | – |
Tónverk og útsett þjóðlag án texta | 50% | – | (33,33%) | 16,67% |
Tónverk og útsett þjóðlag með þjóðvísu | 33,34% | (33,33%) | (16,67%) | 16,67% |
Þjóðlag með nýjum texta | – | 50% | (50%) | – |
Tónverk og þjóðlag með nýjum texta | 33,34% | 33,34% | (33,33%) | – |
Útsett þjóðlag með nýjum texta | – | 50% | (33,33%) | 16,67% |
Tónverk og útsett þjóðlag með nýjum texta | 33,34% | 33,34% | (16,67%) | 16,67% |
* Orðalagið „samið samtímis“ þýðir að út kemur saman eða flutt er saman nýtt og áður óútgefið tónverk og texti.
** Hér er verið að vísa í það sem í daglegu tali eru oft nefnd þjóðlög, en á einnig við um önnur verk sem ekki njóta verndar höfundaréttar s.s. vegna aldurs verks.
*** Hér er átt við þegar nýju verki er skeytt saman við þjóðlag, á þann hátt að úr verður nýtt verk, með eða án útsetningar á þjóðlaginu, þannig að nýsköpun sé umtalsverður hluti hins samsetta verks. Sama krafa er gerð til nýs texta. Með þessari töflu er sett inn sú lágmarkshlutdeild sem þjóðlag eða þjóðvísa nýtur.
Skráning verka í gagnagrunn STEFs er forsenda þess að STEF geti úthlutað tekjum sem innheimtast fyrir flutning verkanna.
Skráning verka/laga fer fram í gegnum Mínar síður. Hafi meðlimur STEFs ekki aðgang að Mínum síðum þá er hægt að smella á „Gleymt lykilorð“ til að stofna slíkan aðgang.
Við skráningu verks þarf höfundur að gefa upp heiti verks, lengd og flytjanda (ef það hefur verið gefið út með tilteknum flytjanda) og síðan auðvitað hverjir höfundarnir eru og hlutverk þeirra (hvort þeir eru tónskáld, textahöfundar eða útsetjarar). Samtala hlutfalls allra skráðra höfunda þarf ávallt að ná 100%.
Þá er einnig hægt að skrá svokallaðan ISRC-kóða (International Standard Recording Code) þeirra hljóðrita sem hafa verið gefin út með viðkomandi verki. Hafi verkið verið gefið út í mörgum mismunandi útgáfum, þá er hægt að skrá fleiri en einn ISRC-kóða.
Hafi lagið verið samið af fleiri höfundum en þeim sem annast skráninguna, þá er hægt að finna þá með aðstoð flettilista, þ.e.a.s. ef þeir eru meðlimir í STEFi. Séu meðhöfundar meðlimir í erlendum höfundaréttarsamtökum, þá þarf að gefa upp alþjóðlegt höfundanúmer þeirra (IPI-númer).
Séu meðhöfundar ekki meðlimir í STEFi né öðrum höfundaréttarsamtökum, þá er hægt að stofna þá í kerfinu. Ekki verður þó hægt að úthluta fyrir verkið nema að mjög takmörkuðu leyti, fyrr en þeir hafa gengið frá skráningu í STEF og þar með fengið sitt alþjóðlega IPI-númer.
Meðhöfundar sem skráðir eru fá tilkynningu um skráninguna á það netfang sem þeir hafa skráð hjá STEFi. Berist engin athugasemd um skráninguna innan 7 daga, þá færist verkið inn í gagnagrunn STEFs og telst fullskráð. Nánari leiðbeiningar um skráningarferlið má nálgast undir Mínum síðum.
Leiðbeiningar um skiptingu höfundaréttar milli höfunda má finna á öðrum stað hér á heimasíðunni.
Hvernig koma á tónlist á framfæri við Spotify
Ef tónlistarmenn gefa sjálfir út verkin sín þarf að senda þau (lögin) í gegnum miðlara (e: aggregator). Sé tónlistarmaður með útgáfusamning við plötuútgefanda, þá á útgefandinn að sjá um að senda verkin á tónlistarveitur.
Hér á landi er starfandi einn miðlari, Dreifir (sem er í eigu Alda Music). Þá eru starfandi fjölmargir erlendir miðlarar sem einnig annast slíka dreifingu. Misjafnt er hvort þeir taki árgjald, eingreiðslu eða tiltekið hlutfall tekna fyrir sína þjónustu. Mikilvægt er að velja EKKI þá möguleika miðlarana að vera einnig tónlistarforleggjari „music publisher“ verkanna nema eftir mikla umhugsun og mat á því hvort þörf sé á slíkri þjónustu.
Til að koma síðan lögum inn á ritstýrða lagalista Spotify þarf að hafa samband við Spotify ÁÐUR en lagið er gefið út. Þetta er gert í gegnum “Spotify for Artists” vefsíðuna. Mælt er með því að senda Spotify þau lög sem eru að koma út með a.m.k. 4-6 vikna fyrirvara sem „upcoming release“ (áður en þau eru sett inn á veituna). Það þarf að gefa Spotify þennan tíma til að skoða efnið og meta inn á hvaða lagalista efnið gæti hentað. Þetta er gert með því að skrá sig inn á sitt svæði sem tónlistarmaður hjá Spotify og senda í gegnum það svæði lag til skoðunar fyrir lagalista. Á vefsíðu Spotify má finna greinargóðar upplýsingar um þetta ferli: https://artists.spotify.com/faq/promotion#how-do-i-submit-music-to-your-editorial-team Eftir að búið er að gefa lagið út á tónlistarveitunni, er EKKI hægt að nýta sér þessa þjónustu til að koma því inn á lagalista.
Ef flytja á tónlist í sviðsverkum þarf sá sem setur verkið upp að athuga hvort tónlistin í verkinu sé frumsamin fyrir viðkomandi verk. Ef tónlistin hefur verið frumsamin í samstarfi við framleiðanda er oftast um svokölluð „stórréttindi“ eða „grand rights“ að ræða og verður sá er vill setja upp verk með tónlistinni síðar ð semja sérstaklega um réttinn til að flytja tónlistina í verkinu við viðkomandi tónskáld eða þann sem á réttinn að henni. Það sama á við ef um er að ræða aðlögun að kvikmyndaverki fyrir leiksvið. Sama gildir einnig ef t.d. leikhús eða balletthópur fær tónskáld til að semja sérstaklega tónlist við sviðsverk er þá bæði samið um gerð verksins svo og opinberan flutning þess. Höfundaréttarsamtök eins og STEF innheimta því ekki höfundaréttargjöld vegna flutnings á verkum sem höfundar semja sjálfir um sem „stórréttindi“ sín.
Þegar um er að ræða þekkta erlenda söngleiki er það mjög oft tónlistarforleggjari (e. „publisher“) sem fer með réttinn til að semja um uppsetningu verksins. Oft er leyfisgjaldið þá um 12-20% af miðaverði sýningarinnar. Oft eru í boði sérstök verð fyrir skóla og áhugaleikhópa. Getur STEF aðstoðað við að afla upplýsinga um hver rétthafinn er að viðkomandi verki, ef erfitt reynist að finna upplýsingar um slíkt eftir öðrum leiðum. Einnig má benda á að Bandalag íslenskra leikfélaga www.leiklist.is getur einnig veitt upplýsingar um rétthafa og aðstoðar leikfélög við að afla slíkra leyfa.
Ef sá sem setur upp sviðsverk notar hins vegar áður útgefna og óskylda tónlist í verkinu (t.d. þegar notuð eru þekkt lög frá ákveðnu tímabili poppsögunnar) semur viðkomandi við STEF um leyfi fyrir tónlistinni. Er það ávallt skilyrði fyrir leyfinu að STEF fái upplýsingar um hvaða tónlist er notuð í verkinu og byggir STEF úthlutun sína á þeim upplýsingum. Hafa atvinnuleikhúsin hér á landi samninga við STEF vegna notkunar slíkrar tónlistar í þeim verkum sem þau setja upp.
Ef ætlunin er að flytja í tónleikaformi, söngleikjalög án leikmyndar, búninga og leikgerðar s.k. konsertuppfærslur eða ef um er að ræða uppsetningu á sviði á lögum úr tilteknu kvikmyndaverki, þarf samt sem áður að fá leyfi fyrir því frá rétthafa söngleiksins eða kvikmyndaverksins, nema um sé að ræða tiltölulega fá lög úr viðkomandi verki en þá getur STEF veitt leyfi fyrir tónleikunum. Við mat á því í hvorn flokkinn viðkomandi viðburður fellur skiptir einnig máli hvort framleiðslan er að nýta sér vörumerki eða logo viðkomandi söngleikjar eða kvikmyndaverks eða jafnvel þekkts listamanns, en STEF getur aldrei veitt leyfi fyrir slíkri notkun.
Leyfi STEFs til slíks tónflutnings í sviðsverkum nær þó eingöngu til notkunar tónlistarinnar á sýningum en ekki sjálfkrafa um leið til útgáfu verkanna á t.d. geisladisk eða DVD. Fyrir hljóðsetningunni þarf leyfi höfundar nema um sé að ræða framleiðslu á verkum sem ekki þarf að greiða hljóðsetningargjald fyrir, þ.e.a.s. ef um er að ræða eigin framleiðslu sjónvarpsstöðva sem eru með samning við STEF. Fyrir útgáfu í föstu formi þarf síðan eins og endranær (hvort sem um er að ræða útgáfu á efni sem telst til stórréttinda eða ekki) leyfi frá NCB sem innheimtir fjölfjöldunargjald vegna útgáfunnar fyrir höfunda og einnig hljóðsetningargjald ef höfundur kýs svo. Vert er að vekja einnig athygli á að þýðing texta leikverks eða söngtexta á íslensku krefst ávallt samþykkis upprunalegs höfundar lags, enda telst slíkt vera breyting á upprunalegu verki höfundar.
Fræðslustarfsemi – uppsetning skóla á leikverkum með tónlist
Samkvæmt 21. gr. höfundalaga er heimilt að flytja tónlist opinberlega án greiðslu ef um er að ræða flutning sem er hluti af fræðslustarfsemi. Sú takmörkun er þó á þessari heimild að hún nær eingöngu til þess ef sýningin er hluti af starfsemi skólans og ekki sé greitt fyrir flutninginn til flytjenda. Sé tekinn aðgangseyrir að söngleikjasýningum skóla er ljóst að ofangreint skilyrði er ekki uppfyllt og að þá þarf að afla leyfis skv. framansögðu fyrir flutningnum, annaðhvort beint hjá rétthafa eða í gegnum STEF. Þegar metið er hvort sýning falli undir fræðslustarfsemi eða ekki skiptir einnig máli hvort sýningin er auglýst opinberlega og hún ætluð almenningi eða hvort hún er eingöngu auglýst innan skólans eða innan þröng hóps foreldra og annarra aðstandenda nemenda.
Úthlutun frá STEFi fyrir streymi
Greiðslur frá STEFi fyrir streymi koma annars vegar sem hluti af úthlutun erlendra tekna, en hins vegar sem úthlutun frá NMP. Fer það eftir því í hvaða landi streymið á sér stað í hvorn flokkinn greiðslan fer. Í tilviki Spotify, sem skilar mestum tekjum af streymisveitum, þá fær STEF greitt beint frá þeim í tilteknu löndum sem eiga aðild að þjónustusamningnum við NMP. Þau lönd hins vegar, sem ekki falla undir þann samning, greiða til STEFs fyrir streymi í gegnum systursamtök STEFs í viðkomandi löndum.
Til viðbtótar fær STEF streymsgreiðslur frá Bandaríkjunum (í gegnum NCB), sem koma frá MLC-stofnuninni (Mechanical Licensing Collective) fyrir s.k. „mekanísk“ réttindi, eða eintakagerð, sem á sér stað við streymi. Um er að ræða sérstakt bandarískt kerfi sem á sér ekki hliðstæðu annars staðar. Nánar má lesa um þetta hér á síðunni undir liðnum „Mekanísk“ réttindi > Eintakagerð.
Hvað hefur áhrif á streymisgreiðslur?
- Hvað STEF (eða systursamtök í öðrum löndum) fá samkvæmt samningi af áskriftartekjum (og auglýsingatekjum) viðkomandi streymisþjónustu. Áskriftamódel streymisþjónustunnar hafa því bein áhrif á tekjur höfunda.
- Hvort höfundurinn er með tónlistarforleggjara (e. publisher) eða ekki. Sé höfundur með slíkan samning, þá fær forleggjarinn oftast sína hlutdeild beint frá streymisveitunni í samræmi við fyrirliggjandi samningi.
- Hversu mörgum lögum var streymt á streymisveitunni á viðkomandi uppgjörstímabili.
Þessi úthlutunaraðferð er nefnd hlutfallsaðferð (e: „pro rata“) og felst í því að tekjur af viðkomandi tímabili eru settar í einn pott og þeim deilt á heildarfjölda spilanna í viðkomandi landi á sama tímabili. Þess ber að geta, að heildarfjöldi streyma miðað við áskriftartekjur á t.d. Spotify, hefur hingað til verið nokkuð meiri hérlendis en í mörgum öðrum löndum. Eitt streymi á Íslandi gefur því örlítið hærri tekjur í úthlutun en eitt streymi erlendis.
Vert er að benda á, að STEF fær sáralitlar tekjur af fríþjónustu Spotify, en slíkur aðgangur er þó talinn nauðsynlegur fyrir streymisþjónustur til að búa síðar til greiðandi áskrifendur.
Hins vegar greiðir STEF það sama fyrir hvert skráð streymi, hvort sem það átti sér stað í gegnum greiðandi áskrifanda eða áskrifanda með fríþjónustu (svo lengi sem STEF er með samning við viðkomandi streymisþjónustu).
Útgefendur (og þar með flytjendur) búa hins vegar við annað uppgjörsmódel. Í því sambandi má nefna að hlutfallslega fá höfundar mun lægri tekjur af streymi en útgefendur (og líkast til flytjendur, sem fá greitt frá útgefendum samkvæmt sínum samningum). Systursamtök STEFs, sem og alþjóðasamtök, hafa á síðustu árum í vaxandi mæli bent á hversu ósanngjörn sú tekjuskipting er. En það er önnur saga.
Þá má einnig benda á, að ekki er hægt að bera tekjur af t.d. útvarpsspilun saman við tekjur af streymi, en greiðsla fyrir eina útvarpsspilun er mörghundruð sinnum hærri en fyrir eitt streymi. Má enda líta á það þannig, að eitt streymi sé í raun eins og einn hlustandi að útvarpi.
Til að skilja betur greiðsluflæði frá streymisveitum má benda á flæðirit sem sjá má hér.
Skipta má höfundarétti í fjárhagsleg réttindi og ófjárhagsleg réttindi. Hin ófjárhagslegu réttindi eru hin svokallaði sæmdarréttur höfundar. Undir sæmdarréttinn fellur nafngreiningarréttur höfundar en geta skal nafns höfundar við verk hans eftir því sem því verður við komið. Þá fellur tilvitnunarréttur einnig undir sæmdarrétt svo og virðingarréttur höfundar og síðan réttur til breytinga á verki. Virðingarréttur höfundar þýðir að óheimilt er að birta verk með þeim hætti eða í því samhengi að skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni.
Við mat á því hvort að sæmdarréttur tónhöfundar hafi verið brotinn verður að hafa í huga að ekki er nægilegt að höfundurinn sé ósáttur við flutninginn og finnist hann t.d. lélegur eða að flytjandinn hafi ekki gert verkinu nægilega góð skil. Mun meira þarf til að koma.
Þá er einnig mikilvægt að hafa í huga að það telst vera undantekning frá sæmdarréttinum að heimilt sé að birta verk í svokallaðri „paródíu“ og þá t.d. að breyta verkinu s.s. með gríntextum. Eitt helsta dæmi um slíkt á Íslandi er notkun tónverka í Skaupinu. Er slíka undantekningu að finna í Evróputilskipun um upplýsingasamfélagið „Infosoc“ og hefur hún verið staðfest af Evrópudómstólnum. Til þess að breytt verk geti fallið undir þessa undantekningu hefur verið talið á Norðurlöndunum að verkinu hafi verið breytt til að gera grín að einhverju og að ná ólíkum áhrifum en upphaflega verkið.
Einna helst reynir á sæmdarréttinn hér á landi þegar kemur að breytingu á söngtextum t.d. með því að þýða þá úr einu tungumáli á annað án samþykkis höfundar eða þegar nýr söngtexti er settur við eldra tónverk án slíks samþykkis. Nánari upplýsingar um slíkt má finna undir upplýsingum um útsetningar hér á síðunni.
Sæmdarréttur er í gildi í 70 ár eins og höfundarétturinn almennt, en eftir að honum líkum tekur við svokölluð menningarvernd, en mál gegn broti á menningarvernd getur einungis menntamálaráðherra höfðað. Ætti það væntanlega einna helst við ef t.d. einhver þekktustu og elskuðustu höfuðverk íslenskra höfunda yrði breytt á þann hátt að skertur yrði höfundarheiður viðkomandi.
STEF vill vekja athygli rétthafa á því að verktilkynning/tilkynning um lag til STEFs felur ekki sjálfkrafa í sér sönnun um að sá sem sendir inn tilkynninguna sé höfundur verksins. Í verktilkynningu kemur fram heiti verks, tegund þess o.fl. en sjaldnast er lagt fram afrit af verkinu sjálfu í formi nótna eða hljóðrits. Vilji höfundur tryggja sér slíka sönnun getur viðkomandi höfundur t.d. snúið sér til sýslumannsembættis og óskað eftir lögbókandagerð. Fer slík gerð fram gegn hóflegu gjaldi. Við lögbókandagerð bókar fulltrúi sýslumanns að viðkomandi hafi komið til embættisins og lagt fram tiltekið verk, tiltekinn dag, þá er afrit verksins sett í innsiglað og áritað umslag sem höfundinum er afhent til varðveislu.
STEF vill vekja athygli textahöfunda á því að þegar nýr texti er gerður við eldra lag þarf ávallt að leita samþykkis lagahöfundar fyrir hinum nýja texta.
Varar STEF við því að íslenskir textar séu gerðir við erlend lög án slíks samþykkis því að slíkt getur haft í för með sér afleiðingar fyrir hinn íslenska textahöfund svo og útgefanda lagsins eins og nánar kemur fram hér að neðan. Ástæðan fyrir því að leita þarf eftir leyfi er sú að það að setja nýjan texta við lag telst breyting á upprunalegu verki og er slíkt óheimilt skv. 4. gr. höfundalaga 73/1972, nema með leyfi lagahöfundar. Ekki skiptir máli í því sambandi hvort um íslenskt eða erlent lag er að ræða.
Ef texti er gerður við eldra lag án slíks samþykkis getur textahöfundur því orðið skaðabótaskyldur gagnvart lagahöfundinum og/eða hans útgefanda. Að sama skapi getur íslenskur útgefandi orðið ábyrgur gagnvart lagahöfundinum og/eða útgefanda hans sé hið erlenda lag gefið út hérlendis með íslenskum texta án heimildar. Í ljósi vaxandi alþjóðavæðingar og dreifingar efnis á Internetinu er ekki ólíklegt að erlendir lagahöfundar verði varir við að verið sé að flytja ósamþykkta texta við lög þeirra og að þeir ákveði í framhaldinu að sækja rétt sinn gagnvart viðkomandi textahöfundi og hérlendum útgefenda.
Þegar óskað er eftir leyfi frá NCB til útgáfu hljómplötu fyrir hönd höfunda, fer ekki fram sjálfstæð könnun af hálfu NCB á því hvort að samþykki lagahöfundar liggi fyrir þeim textum sem á plötunni eru, heldur er gert ráð fyrir því að slíkt samþykki sé til staðar. Það að lagahöfundar hafi fengið úthlutað höfundaréttargreiðslum frá NCB fyrir útgáfu á lögum þeirra hefur því ekki áhrif á hugsanlegan rétt lagahöfundarins vegna texta sem hann hefur ekki veitt leyfi fyrir. Á árinu 1996 var verklagi hjá STEF breytt hvað varðar skráningu íslenskra texta við erlend lög og frá þeim tíma hefur STEF farið fram á að sjá skriflegt leyfi hins erlenda tónhöfundar fyrir íslenska textanum, að öðrum kosti úthlutar STEF ekki höfundaréttargreiðslum vegna opinbers flutnings verksins til hins íslenska textahöfundar.
Þann 31. desember 2012 hætti STEF síðan endanlega að úthluta fyrir flutning verka með erlendum textum þar sem ekki hefur verið hægt að sýna fram á skriflegt samþykki fyrir, jafnvel þótt verkin hefðu verið skráð hjá STEFi fyrir árið 1996. Sama regla gildir ef gert er nýtt lag við áður útgefinn texta sem enn er í höfundaréttarvernd. Var verklaginu breytt eftir ítarlega umfjöllun stjórnar STEFs og eftir umfangsmikla kynningu á þessum breytingum til meðlima STEFs sem um leið var boðin aðstoð við að reyna að afla nauðsynlegra leyfa. Fyrir flutning á íslenskum textum við erlend lög þar sem ekki er hægt að sýna fram á leyfi fyrir hinum íslenska texta fær því erlendi laga- og textahöfundurinn úthlutað eins og upprunalegi textinn væri fluttur. STEF getur aðstoðað þá sem vilja gera nýja texta við að finna upplýsingar um hver rétthafi lagsins er, en að öðru leyti verður viðkomandi sjálfur að leita eftir samþykki rétthafans.
Mjög misjafnt er hvort lagahöfundar séu tilbúnir til að veita samþykki sitt fyrir því að nýr texti sé gerður við lög þeirra. Samþykki fæst stundum gegn því að lagahöfundurinn fái greidd þau höfundaréttargjöld sem annars færu til textahöfundarins. Þá er ekki óalgengt að hinn erlendi lagahöfundur óski eftir þýðingu á hinum íslenska texta svo að lagahöfundurinn geti séð efnislegt innihald textans á tungumáli sem hann skilur. Ef ekki er um nýjan texta að ræða við eldra lag, heldur eingöngu um beina þýðingu úr öðru tungumáli þar sem ekki eru uppfyllt skilyrði um sjálfstæða, listræna sköpun, nýtur þýðandi ekki réttar sem textahöfundur hvað varðar greiðslur höfundaréttargjalda frá STEFi.
Ef vafi leikur á um hvort skilyrði þetta er uppfyllt, getur þýðandinn óskað eftir mati á framlagi sínu. Þarf þýðandinn leyfi fyrir þýðingunni á textanum frá upprunalega textahöfundinum eða öðrum rétthafa, ef textinn nýtur enn verndar höfundaréttar, auk þess sem hann þarf leyfi tónhöfundarins fyrir að gera þá breytingu á verkinu að setja við það nýjan texta.
STEF hvetur alla þá textahöfunda sem eiga skráða texta hjá STEFi en sem enn hafa ekki fengið leyfi fyrir textunum hjá hinum erlendu lagahöfundunum að sækja um slík leyfi sem fyrst. Félag tónskálda- og textahöfunda (FTT) getur veitt textahöfundum sem eru meðlimir í FTT, aðstoð við að sækja um leyfi fyrir textum sínum Hér má finna drög að bréfi sem textahöfundar geta nýtt sér þegar þeir óska eftir að fá að gera texta við erlent lag.
En nýtt lag við áður útgefinn texta?
Það sama gildir hvað það varðar. Grunnreglan er ávallt sú, að leita þarf leyfis höfundar (eða erfingja, ef svo ber undir), fyrir því að setja lag við áður útgefinn texta eða ljóð, jafnvel þótt viðkomandi texti hafi áður komið út (þá með öðru lagi). Ekki skiptir máli hvort um íslenskan eða erlendan texta er að ræða, né hvort hann hafi verið gerður af einstaklingi eða með gervigreind. Í því sambandi má benda á að STEF hefur sérstaklega undanskilið verk meðlima sinna fyrir texta- og gagnanámi, nema með sérstökum samningi STEFs við viðkomandi þjónustuveitendur gervigreindarlausna.
Þegar tónlist þín hefur verið flutt erlendis á STEF að fá um það upplýsingar og greiðslur frá erlendum systursamtökum sínum. Það getur hins vegar tekið allt að eitt og hálft ár fyrir greiðslur að berast fyrir viðkomandi tónleika. Það er þó ýmislegt sem höfundar geta gert til að flýta fyrir og auðvelda þetta ferli.
Láttu skipuleggjanda tónleikanna á staðnum fá lagalistann
Til að flýta ferlinu, getur þú beðið tónleikahaldara á staðnum um upplýsingar um það hvernig þetta er gert í viðkomandi landi. Í sumum löndum eru sérstök eyðublöð á tónleikastöðum sem þú getur fyllt út og látið tónleikahaldara fá. Þeir munu svo áframsenda listann til höfundaréttarsamtakanna í því landi.
Lönd hafa mismunandi reglur varðandi greiðslur höfundaréttargjalda
STEF getur því miður ekki tryggt að greiðslur berist vegna lifandi flutnings erlendis. Það fer eftir því hvernig reglur hvers lands er fyrir sig. Til þess að hjálpa STEFi við að sækja þessar tekjur getur þú skráð þig inn á Mínar síður og smellt á „Skrá lifandi flutning“ og svo „Tónleikar erlendis“. Þar er hægt að fylla inn í eyðublað sem sendist til okkar.
Lifandi flutningur í Bandaríkunum
Þú getur tilkynnt á sama hátt til okkar lifandi flutning í Bandaríkjunum eins og í öðrum löndum inni á Mínum síðum. Systursamtök STEFs í Bandaríkjunum, ASCAP, greiða venjulega ekki fyrir lifandi flutning nema um það sé sérstaklega sótt. Getur STEF, fyrir hönd sinna meðlima, sent ASCAP skýrslu yfir lifandi flutning, sem gefur möguleika á að greiðslur berist vegna flutningsins. Þetta er gert einu sinni á ári í lok mars fyrir árið á undan (janúar-desember). Sem dæmi fyrir tímabilið janúar til desember 2021, þá þarf að vera búið að senda inn tilkynningar til STEFs í síðasta lagi 15. mars 2022.
Lifandi flutningur í Bretlandi
Í Bretlandi er venjulega aðeins greitt fyrir stærri tónleika. Tónleikastaðir þar sem stærri tónleikar eru haldnir eru með samning við systursamtök STEFs í Bretlandi, PRS, og ber þeim að tilkynna til þeirra um tónleika. Þetta þýðir að þú átt venjulega ekki von á að fá greiðslur vegna minni tónleika á krám, börum, diskótekum eða minni tónleikastöðum. Ef þú hefur flutt tónlist á minni tónleikum í Bretlandi er þó möguleiki á fá greitt fyrir slíkt. Þú getur tilkynnt tónleikana á Mínum síðum allt að ári eftir að þeir fóru fram. Þetta þýðir að STEF þarf að fá tilkynninguna um lifandi flutninginn í síðasta lagi 11 mánuðum eftir að tónleikar áttu sér stað, til þess að hafa nægan tíma til að senda skýrsluna til PRS.
Reglur hvers lands er fyrir sig
Þegar verk eftir meðlimi STEFs eru flutt erlendis, á STEF að fá greiðslur og upplýsingar um verkin frá systursamtökum sínum, sem STEF úthlutar síðan áfram til sinna meðlima. Þegar erlend verk eru flutt á Íslandi sendir STEF greiðslur og upplýsingar um verkin til viðeigandi systursamtaka, en þær greiðslur fara í gegnum STIM í Svíþjóð, sem úthlutar svo til viðeigandi samtaka hér og þar.
Það er ómögulegt að segja fyrirfram hversu háar upphæðir þú munt fá erlendis frá vegna flutnings þinna verka. Hver höfundarréttarsamtök fyrir sig hafa eigin reglur og verðskrár sem kveða á um hversu mikið er innheimt og hversu miklu er úthlutað.
Hvernig kem ég tónlist í sjónvarp, kvikmyndir og auglýsingar
Hvað gera tónlistarráðgjafar?
Flestar stærri auglýsingastofur svo og framleiðendur sjónvarpsefnis og kvikmynda eru með sérstaka tónlistarráðgjafa (e. music supervisors) sem hafa það hlutverk að velja tónlist fyrir þá. Einnig eru starfandi sjálfstæðir tónlistarráðgjafar sem hafa það hlutverk að finna réttu tónlistina fyrir aðra tónlistarráðgjafa. Til þess að koma tónlist sinni að í þau verkefni sem tónlistarráðgjafar vinna að er nauðsynlegt að þeir hafi verkin aðgengileg hjá sér í gagnabönkum því oftast er tímarammi þeirra til að finna réttu tónlistina mjög skammur. Nauðsynlegt er því að vinna að því að afla sér tengsla við tónlistarráðgjafa og veita þeim heimild til að semja um leyfi fyrir tónlistina við viðkomandi framleiðendur efnis. Helst vilja þeir geta samið um slíkt án þess að bera það undir viðkomandi höfund í hvert og eitt skipti enda tefur það verkið og er erfiðara fyrir þá að stinga upp á viðkomandi verki sem möguleika.
Hvað kostar þessi vinna?
Oftast vinna tónlistarráðgjafar á þann hátt að þeir taka tiltekna prósentu (oft 20%) af hljóðsetningargjaldinu sem þeir semja um. Það er því þeim í hag að semja um gott verð fyrir hönd höfunda.
Hvað fær höfundurinn?
Höfundurinn fær venjulega greidda eingreiðslu fyrir hljóðsetningarleyfið sem er mjög mismunandi há eftir verkefnum. Því til viðbótar fær höfundurinn síðan viðbótargreiðslur síðar eftir því hvar og hversu oft viðkomandi efni er sýnt. Þetta er oft nefnt „back-end“ greiðslur á ensku. Þessar greiðslur koma í gegnum STEF. Til að tryggja þessar greiðslur er góð regla að láta STEF vita af því hvar og hvenær viðkomandi efni er sýnt og getur þá STEF haft samband við systursamtök sín í viðkomandi löndum og haft þannig eftirlit með því að greiðslurnar berist örugglega.
Hvernig hef ég samband við tónlistarráðgjafa?
Venjulega er ekki erfitt að finna á netinu hverjir eru tónlistarráðgjafar hvers einasta þáttar sem birtist í sjónvarpi. Ef þú telur að lagið þitt passi vel t.d. við tónlistarstefnu tiltekinnar þáttaraðar getur verið sniðugt að finna hver tónlistarráðgjafinn er og senda honum í framhaldi tölvupóst eða hafa samband við hann á annan hátt. Gott ráð er að senda ekki öll verk sín í einni bendu til viðkomandi aðila, heldur byrja á því að velja eitt eða tvö lög og senda fyrst og síðan eftir að tengslum hefur verið náð er hægt að senda meira. Gott er einnig að hafa í huga að tónlistarráðgjafar fá jafnvel hundruði pósta á dag með nýrri tónlist og því þarf að vanda sig og helst finna leið til að standa út úr, t.d. með því að segjast vera frá Íslandi.
Merkingar (tagging)
Aldrei verður það of oft sagt hversu miklu máli það skiptir að öll verkin sem send eru séu merkt með upplýsingum um hvernig sé hægt að hafa samband við viðkomandi. Ekki er nægilegt að slíkar upplýsingar komi fram í tölvupósti, heldur þarf að hafa þær einnig í merkingum á verkinu sjálfu, þ.e.a.s. í heiti viðkomandi lags eða viðhengis, eftir því sem hægt er. Þetta er vegna þess að oft eru verkin sjálf í framhaldinu aðskilin tölvupóstinum og þá getur vantar upplýsingar um hver höfundurinn sé og hvernig hægt sé að ná í hann.
Hægt að hlaða niður sendu verki – ekki einungis streyma
Þegar verk eru send á tónlistarráðgjafa, ekki senda tengil á síðu sem er einungis opin í takmarkaðan tíma, því hugsanlega kemur nafn þitt upp í hugann á þeim eftir ár eða meira og þá gengur ekki að ekki sé hægt að hlusta á verkin sem þú sendir. Flestir tónlistarráðgjafar vilja helst fá send verkin í því formi að þau geta hlaðið þeim niður hjá sér, en ekki eingöngu streymt þeim.
Lýsing á hvernig réttindamálum er háttað
Mikilvægt er að hafa í huga þegar verkum er komið á framfæri við tónlistarráðgjafa að fram komi í póstinum hvernig réttindamálum er háttað. Þannig þarf að koma fram hvort þú sem höfundur eigi allan höfundaréttinn eða hverjir séu þá meðhöfundar þínir. Ef þið eruð með samning við tónlistarforleggjara (e. publisher) þar sem forleggjarinn fer með ákveðinn hluta höfundaréttarins auk þess sem hann fer venjulega með samningsumboð fyrir höfunda vegna tónlistar í sjónvarp og kvikmyndir, þarf slíkt að koma fram í póstinum og þá hver forleggjarinn er og nauðsynlegar upplýsingar til að ná í hann. Stundum getur slíkt leitt til þess að tónlistarráðgjafarnir vilja síður nota tónlistina því slíkt þýðir meiri vinna fyrir þá og hér getur tíminn skipt höfuðmáli. (Það er þó ekki þar með sagt að fyrir þig sé verra að vera með forleggjara. Það er einfaldlega bara önnur leið til að koma tónlistinni þinni á framfæri en í gegnum tónlistarráðgjafa.) Þá þarf einnig að koma fram hvort þú hefur sjálfur gefið út hljóðritin sem þú sendir og þar með að þú farir einnig með rétt flytjendanna á hljóðritinu, eða hvort útgáfufyrirtæki eigi réttinn á hljóðritinu (master réttindi). Ef einhver annar en þú sjálfur á master réttindin þarf að koma fram hver það sé og nauðsynlegar upplýsingar til að ná í viðkomandi.
Lýsing á því hvað þú ert að senda
Þegar verk eru send til tónlistarráðgjafa skiptir máli að vera búin að gefa öllum nýjum lögum nafn. Tónlistarráðgjafar vilja ekki fá möppu senda með verki nr. 1, 2, 3, o.s.frv. Þá er rétt að lýsa stuttlega hvernig verk þetta eru sem þú ert að senda. Sem dæmi um upplýsingar sem þurfa að koma fram er t.d. hvort þetta séu lög með söngkonu / söngvara eða án söngs, á hvaða tungumáli syngur viðkomandi, hvaða hljóðfæri eru á upptökunni o.s.frv. Jafnvel þótt tónlistarráðgjafarnir hlusti á verkin og flokki þau sjálf, er ekki verra að reyna að lýsa einnig tegund tónlistarinnar.
Íslenskir eða enskir textar
Eitt af því sem tónlistarráðgjafar eru nær alltaf spurðir um, hvort einhver möguleiki sé á því að lög með íslenskum textum geti náð inn í erlendar kvikmyndir og sjónvarpsþætti. Ekkert er því til fyrirstöðu að lög með íslenskum textum geti ratað inn í slík verkefni, en það er þó mun ólíklegra en hitt. A.m.k. er nauðsynlegt að til sé enskur texti á blaði og að hann sé sendur með, því það fyrsta sem tónlistarráðgjafarnir vilja skoða er hvað textinn þýðir í raun. Ef til er góður enskur lýrískur texti, þ.e.a.s. sem hægt er að syngja, er góð regla að taka upp útgáfu á ensku um leið og íslensku útgáfuna, jafnvel þótt ekki sé ætlunin að gefa lagið út á ensku.
Einungis hljóðfæraleikur
Við upptökur er mikilvægt að eiga alltaf upptöku á verkinu með hljóðfæraleik eingöngu (án söngs), en slíkt verk getur nýst mjög vel fyrir sjónvarp og kvikmyndir þar sem leikstjórar og tónlistarráðgjafar telja sönginn og textann oft vera til óþurftar t.d. af því að talað mál er sett yfir verkið. Textinn sjálfur takmarkar oft einnig notkunarmöguleika verksins þar sem eingöngu er hægt að nota verkið með textanum í senum sem passa við textann.
Myndefni (Artwork)
Það hefur færst í aukana að fyrirtæki semji um lægri þóknun fyrir tónlist í auglýsingar gegn því að kynna um leið viðkomandi tónlistarmann á heimasíðu sinni eða eitthvað slíkt. Við nafn lagsins er þá gjarnan sett mynd af plötunni með laginu eða eitthvað álíka. Þegar slíkar myndir fylgja með verkunum til tónlistarráðgjafa þarf að koma fram hvort höfundurinn eigi réttinn á myndinni og ef ekki hver það sé og hvernig sé hægt að ná í viðkomandi.
Frumsamin eða áður útgefin verk
Um 75% af því efni sem tónlistarráðgjafar koma inn í sjónvarp og kvikmyndir eru áður útgefin verk. En í um 25% tilvika er unnið með tónskáldi sem semur sérstaklega fyrir viðkomandi verkefni. Ef þið eruð ein af þeim sem eigið auðvelt með að semja verk eftir pöntun og í þeim stíl sem kallað er eftir hverju sinni, endilega látið tónlistarráðgjafana vita af þeim hæfileika ykkar.
Ábreiður og bútar úr öðrum verkum
Ekkert er því til fyrirstöðu að koma ábreiðum (e. covers) inn í sjónvarp og kvikmyndir. Hins vegar skiptir það verulegu máli að tónlistarráðgjafarnir viti að innsent verk sé ábreiða og þá fylgi einnig upplýsingar um það hver höfundur lagsins er og hvernig hægt sé að hafa samband við hann. Það sama á við um verk sem innihalda búta úr öðrum verkum (e.samples).
Jafnan er talað er um “tónsetningu” í þessu sambandi (e.þ.s. hljóðsetning). Tónsetning er það, þegar tónlist og mynd er skeytt saman (e. synchronisation). Til að setja lag í t.d. kvikmynd, sjónvarpsþætti eða auglýsingar þarf tvennt til:
- Leyfi höfundar til að nota lagið – höfundaréttur (e. publishing).
- Lagahöfundur eða tónlistarforleggjari (e. publisher) hans fer með réttinn til að veita leyfi (eða STEF/NCB í ákv. tilfellum (sjá neðar).
- Leyfi útgefanda til að nota hljóðritið – þ.e. tiltekna upptöku af viðkomandi lagi – s.k. master-réttur.
- Útgefandi hljóðritsins, sem er eigandi sjálfrar upptökunnar, fer með réttinn til að veita það leyfi.
- Stundum vilja framleiðendur taka upp lagið að nýju, t.d. með nýjum flytjanda, en þá þarf ekki leyfi hjá útgefanda master-réttinn.
Meginreglan er sú að tónsetning er ekki heimil nema með samþykki höfundar. Spurningin er sú, hver veitir leyfið? Hvenær er það höfundurinn sjálfur og hvenær er það gert í gegnum höfundaréttarsamtök?
Þegar um er að ræða eigin framleiðslu sjónvarpsstöðva á Íslandi (og í sumum öðrum löndum eins og á Norðurlöndunum og í Bretlandi), þá nægir að sjónvarpsstöðin hafi samning við STEF, en slíkum samningi fylgir leyfi til tónsetningar eigin framleiðslu.
- Undir „eigin framleiðslu“ falla einnig kynningar á eigin dagskrárgerð í eigin miðlum.
- Undantekningar:
- Leikið efni (dramaseríur).
- Kynningarlög / einkennislög þátta.
Sé sýningarréttur keyptur af sjálfstæðum framleiðanda, þá telst viðkomandi framleiðsla ekki vera eigin framleiðsla sjónvarpsstöðvarinnar, nema í þeim tilvikum sem sjónvarpsstöðin hefur einkarétt á sýningu viðkomandi efnis, þegar samningurinn er gerður, eða sjónvarpsstöðin á 50% eða meira í framleiðslunni.
Sé um það að ræða að efni sem telst til eigin framleiðslu sjónvarpsstöðva, sem er síðar selt eða dreift annað, þá gildir ekki lengur leyfið samkvæmt samningnum við STEF, heldur verður viðkomandi framleiðandi þá að afla nýrra tónsetningarleyfa.
Sjálfstæðir framleiðendur efnis þurfa því alltaf að leita leyfis hjá rétthöfunum (höfundi og útgefanda, eigi að notast við upptöku sem til er).
Hvar fást tónsetningarleyfi?
- NCB (Nordisk Copyright Bureau) getur veitt leyfi í ákveðnum tilvikum:
- Til sjónvarpsframleiðslu.
- Einnig til leikinna sjónvarpsþáttaraða, EF sýningar eru eingöngu á Norðurlöndunum.
- STEF veitir tónsetningarleyfi til smærri verkefna með leyfi til opinbers flutnings.
- Í öðrum tilvikum þarf að hafa beint samband við höfundinn sjálfan (eða umboðsmann hans eða tónlistarforleggjara).
- Sjá http://www.ncb.dk/pdf/av-pricelist-gentv-is.pdf
- Ekki er til sambærilegt kerfi fyrir master-rétt. Framleiðandi þarf því alltaf að útvega leyfi hjá eiganda viðkomandi hljóðrits.
- NCB (Nordisk Copyright Bureau) getur veitt leyfi í ákveðnum tilvikum:
- Í tilviki YouTube og Facebook er tónsetningarleyfi innifalið í samningi STEFs þegar notendur setja efni á þessar veitur. Þetta nær þó ekki til auglýsinga.
- Oft er samið um svokallað „most favoured nation“, sem þýðir að báðir aðilar njóta þess ef annar aðilinn nær að semja um betri kjör. Algengast er að greitt sé sama verð fyrir master-réttinn og fyrir höfundaréttinn.
Fyrir hvern og einn sjónvarpsþátt eða kvikmynd með tónlist þarf framleiðandi að útbúa svokallað „cue sheet“ og skila því inn til STEFs. Þetta er nauðsynlegt til að hægt sé að úthluta til höfunda.
- Í „cue sheet“ þarf að skrá bæði áður útgefin lög svo og frumsamda tónlist viðkomandi framleiðslu.
- Skila þarf „cue sheet“ til STEFs, sem framsendir skjalið áfram inn í alþjóðlegt kerfi, sem tryggir greiðslur erlendis frá.
- Öll verkin verða síðan að vera skráð hjá STEFi (eða erlendum systursamtökum) svo hægt sé að úthluta fyrir flutning tónlistarinnar.
Hvað eru tónlistarforleggjarar?
Tónlistarforleggjarar er það sem nefnt er á ensku „music publisher“. Slíkir aðilar taka að sér að vinna að ferli tónhöfunda og koma tónlist þeirra á framfæri á öðrum mörkuðum en tónskáldið sjálft hefur aðgang að. Það gera þeir með mismunandi hætti, en oftast á þann hátt að þeir finna flytjendur fyrir lagahöfunda, samhöfunda til að vinna með og annað aðstoðarfólk svo og að koma tónlistinni í sjónvarpsþætti og kvikmyndir. Þá annast tónlistarforleggjarar oft umsýslu og samskipti við höfundaréttarsamtök fyrir lagahöfundinn. Hversu víðtækt hlutverk þeirra er, er þó mjög misjafnt og er það eitt af því sem tónhöfundur þarf að gæta sérstaklega að, áður en hann gerir samning við tónlistarforleggjara.
Mikilvægt er að rugla ekki saman tónlistarforleggjara við útgefenda þ.e.a.s. plötufyrirtæki, en tónlistarforleggjari gefur ekki út tónlistina sjálfur. Hann getur hins vegar aðstoðað við að finna rétta útgefandann. Upphaflega var aðalstarf tónlistarforleggjara að gefa út tónlist í nótnaformi og eru slíkir forleggjarar enn starfandi, þótt mikill minnihluti tónlistarforleggjara geri slíkt í dag.
Forleggjarinn tekur hlutfall af höfundaréttartekjum í þóknun
Eitt eiga tónlistarforleggjarar sameiginlegt, en það er að þeir taka ávallt tiltekið hlutfall af höfundaréttartekjum viðkomandi höfundar til sín. Er þetta hlutfall mjög mismunandi hátt. Forleggjarar sem eingöngu sinna umsýslu eins og skráningu verka og að fylgja eftir greiðslum frá höfundaréttarsamtökum taka um 12%, en hefðbundinn forleggjari tekur frá 30-50%.
Mjög mikilvægt er að hafa í huga að þessa þóknun tekur forleggjarinn alltaf burtséð frá því hvort hann nær einhverjum árangri í að þróa feril höfundarins, en skylda forleggjarans gagnvart höfundinum er iðulega orðuð á mjög opinn hátt eins og “að þróa feril höfundar eftir hefðum og venjum”. Ef lítið kemur út úr samstarfinu verður höfundurinn því að segja upp samningnum, en á ekki kröfu á að fá endurgreitt það sem forleggjarinn hefur þegar tekið til sín. Er því mikilvægt að huga að hversu langur gildistími samningsins er og hvernig uppsagnarákvæði hans eru.
Fyrirframgreiðsla?
Lengi vel hafa tónlistarforleggjarar verið þeir sem smyrja hjólin í bransanum en með fyrirframgreiðslu frá þeim (advance) hefur mörgum tekist að fjármagna næstu plötu eða næsta tónlistartengda verkefni. Í dag er orðið erfiðara að finna tónlistarforleggjara sem er tilbúinn að taka fjárhagslega áhættu á þennan hátt en þó ekki ómögulegt. Sumir segja að ef forleggjarinn er ekki tilbúinn til að greiða fyrirframgreiðslu og byrja í mínus, sé ekki þess virði að gera samning við viðkomandi, þá sé betra að eiga höfundaréttinn óskertan. Allavega ber að hafa í huga að slík fjárhagsleg áhætta forleggjarans ætti að endurspeglast í þóknun hans – þ.e.a.s því hlutfalli af höfundaréttartekjunum sem hann tekur til sín. Semja ætti því um mun lægra hlutfall við þann sem ekki greiðir fyrirframgreiðslu.
Ekki þörf á tónlistarforleggjara á Íslandi – takið Ísland út úr samningnum
Vegna smæðar íslenska markaðarins er lítið um starfandi tónlistarforleggjara hér á landi. Flestir íslenskir höfundar eiga ekki í vandræðum með að taka upp símann og koma sér sjálfir í samband við aðra tónlistarmenn og mynda tengslanet.
Hins vegar er allnokkuð um að íslenskir höfundar geri samninga við erlenda tónlistarforleggjara. Í slíkum samningum er því rétt að taka út Ísland sem samningssvæði, enda engin þörf á að gefa erlenda tónlistarforleggjaranum hlutfall af tekjum af íslenska markaðinum, enda getur hann lítið til málanna lagt um að koma ferlinum lengra hér á landi.
Hvaða verk eiga að falla undir samninginn?
Þegar samið er við tónlistarforleggjara þarf að skoða vel hvaða verk hann á að fá umboð til að semja um.
Á hann að fá allt safnið og jafnvel öll verk sem samin verða á næstu árum eða e.t.v. einungis verk á einni tiltekinni plötu? Þá eru einnig til samningsform sem nefnd eru “song by song” og er þá einungis samið um eitt tiltekið lag og síðan er þá hægt að bæta við fleiri lögum síðar. Hver fjöldi verkanna er í samningnum ætti að hafa áhrif á hversu háa þóknun forleggjarinn fær og jafnvel hversu háa fyrirframgreiðslu hann greiðir.
Við mælum með að byrja á því að láta forleggjarann eingöngu vinna með tiltekin verk og ef samstarfið gengur vel er alltaf hægt að bæta fleiri verkum við samninginn. Það getur verið erfitt að vera læstur inni með öll sín verk í samningi við forleggjara sem þú ert óánægður með. Samningar sem taka til allra verka sem samin verða á tilteknu tímabili þarf að skoða alveg sérstaklega og ættu ekki að vera gerðir nema samningssamband hafi varað um nokkurn tíma sem báðir aðilar eru ánægðir með. Þá getur líka verið skynsamlegt að miða samninginn við verk sem t.d. samin eru af tiltekinni hljómsveit en að önnur verk höfundarins falli fyrir utan samninginn. Hugsanlegt er að á tímabili samningsins vilji höfundurinn t.d. vinna með öðrum höfundum sem eru einnig með samninga við forleggjara og þá getur komið upp spurning hvaða forleggjari fari með umboð fyrir viðkomandi verk. Ef að fleiri en einn forleggjari fer með umboð fyrir sama verkið verða öll leyfismál flóknari.
Skyldur forleggjarans
Það mikilvægasta við gerð samnings við tónlistarforleggjara er að þú treystir viðkomandi fyrir tónlistinni þinni.
Venjulega eru skyldur forleggjarans mjög almennt orðaðar í samningum og er eftirfarandi orðalag velþekkt: “The Publisher will use its best endeavours to promote and publish the works …” sem greinilega er mjög loðið orðalag og því erfitt að halda því fram eftir á að forleggjarinn hafi ekki staðið við sinn hluta samningsins.
Vertu því viss um að forleggjarinn sé vel tengur á því svæði sem hann ætlar að vinna á og hafi þau tengsl sem nauðsynleg eru til að geta komið tónlist þinni lengra en þú getur sjálfur. Óskaðu eftir upplýsingum um hvaða aðra höfunda hann er að vinna fyrir og fáðu síðan umsagnir hjá þeim um forleggjarann. Ræddu við forleggjarann um það hvernig hann vinni með höfundum og hvaða markmið hann hafi varðandi verkin þín.
Ef þú átt verk sem liggja ofan í skúffu og eru ekki að skapa neinar tekjur fyrir þig erlendis, getur samningur við forleggjara vissulega verið rétt og nauðsynlegt skref fyrir þig, en vertu bara viss um að þú sért með rétta manninn fyrir þig.
Tímalengd samnings
Eitt af því sem skiptir máli við gerð samnings við tónlistarforleggjara er tímalengd samningsins. Í þessu eins og öðru þarf að hafa í huga hver reynsla þín er af því að vinna með forleggjaranum. Ef þú hefur ekki unnið með honum áður, hafðu samningstímann þá stuttan t.d. bara eitt ár. Þið getið alltaf framlengt samninginn ef samstarfið gengur vel. Algengt er t að samningar séu á bilinu 3-5 ár. Samningar sem eru til lengri tíma en 5 ára gerir maður einungis við forleggjara sem hefur skapað sér gott orð í greininni. Þá sjást einnig samningar sem eiga að halda gildi sínu út verndartíma höfundaréttar (sem er 70 ár frá andláti höfundar). Var slíkt algengara hér áður fyrr. Við mælum augljóslega ekki með slíkum samningum nema í mjög sérstökum aðstæðum eins og þegar um er að ræða samning við erfingja höfundaréttar.
Þá er algengt að í samningum sé einnig ákvæði sem kveður á um að forleggjarinn geti í ákveðinn tíma eftir að samningstímanum líkur innheimt tekjur af þeim verkum sem undir samninginn falla ef þær eru tilkomnar vegna leyfissamninga sem hann hefur náð á samningstímanum. Er slíkt ekki ósanngjarnt, en gæta þarf einnig af því að þessi viðbótartími sé ekki of langur.
Aðild að höfundaréttarsamtökum
Tekjur forleggjara koma aðallega frá opinberum flutningi og eintakagerð þeirra verka sem þeir fara með umboð fyrir og fá þeir greiðslur sínar beint frá höfundaréttarsamtökum. Einnig geta þeir fengið tekjur frá leyfissamningum sem þeir gera sjálfir eins og við kvikmynda- og sjónvarpsþáttaframleiðendur. (Við munum fjalla nánar um þann þátt síðar.)
Erlendis eru tónlistarforleggjarar mjög áhrifamiklir innan höfundaréttarsamtaka og fara oft með tiltekinn hluta stjórnarsæta í samtökunum samkvæmt samþykktum þeirra. Þar sem nánast engir tónlistarforleggjarar eru meðlimir í STEFi er staðan önnur hér að þessu leyti en í flestum öðrum samtökum. Þetta er líka ástæðan fyrir því að við getum sent út þessa fróðleiksmola, en ef hér væru tónlistarforleggjarar í stjórn væru þeir hugsanlega ekkert alltof ánægðir með að samtökin væru að skipta sér að samningamálum þeirra við höfunda.
Stundum er ákvæði í samningum við forleggjara þar sem segir að höfundur skuli vera meðlimur í tilteknum höfundaréttarsamtökum, sem eru þá venjulega sömu samtök og forleggjarinn er sjálfur í. Viljum við ráðleggja okkar meðlimum að skoða slíkt mjög vandlega og fara varlega í því sambandi, enda teljum við að STEF geti veitt þeim jafn góða ef ekki betri þjónustu en þeir geta fengið annars staðar. Í því sambandi er gott að muna að það skiptir forleggjarann í raun engu máli í hvaða samtökum höfundurinn er. Ástæðan er sú að þegar t.d. tónlist er flutt í Þýskalandi sjá systursamtök okkar þar, GEMA, ef höfundurinn og forleggjarinn eru ekki í sömu samtökum og skipta þá greiðslunni fyrir flutninginn skv. ákvæðum forleggjarasamningsins og senda þær til þeirra samtaka sem þessir aðilar eru meðlimir í. Ef höfundurinn er meðlimur í STEFi fer einungis hluti höfundarins til STEFs, en hlutur erlends forleggjara fer aldrei í gegnum STEF.
Undirforleggjarar
Í forleggjarasamningum er oft ákvæði um að forleggjarinn hafi frjálsar hendur um að semja við “sub-publisher”. Þessir undirverktakar innheimta þá tekjur á tilteknu svæði og taka hlutdeild í þóknun höfundsins, oft frá 15-25%. Því sem eftir er, er svo skipt á milli forleggjarans og höfundsins. Ef undirforleggjarinn tekur 25% og forleggjarinn tekur 50%, er höfundurinn ekki að fá nema 37,5% af heildinni.
Í stað þess að forleggjarinn sé með undirforleggjara á sínum snærum getur verið betra fyrir höfundinn að semja við annan forleggjara á viðkomandi svæði. A.m.k. er mikilvægt að forleggjarinn þurfi samþykki höfundarins fyrir því að semja við undirforleggjara. Þá er einnig hægt að semja um að hlutur undirforleggjarans skuli ekki skerða hlut höfundarins heldur eingöngu forleggjarans.
Framsal réttinda – s.s. við gjaldþrot
Það getur skipt miklu máli fyrir höfundinn að hafa ákvæði í samningi við forleggjara sem tekur á því hvað gerist ef forleggjarinn hættir starfsemi t.d. vegna gjaldþrots. Í slíku tilviki heldur samningurinn samt gildi sínu og hið gjaldþrota bú eignast allan rétt samkvæmt samningnum. Höfundurinn þyrfti í slíku tilviki að rifta samningnum með tilheyrandi veseni og byggja á forsendubresti. Mun betra er að hafa ákvæði í samningnum sem segir að hætti forleggjarinn rekstri falli niður allar skuldbindingar samkvæmt samningnum.
Þar sem samband við forleggjara byggist á trausti og persónulegum tengslum er gott að vera með ákvæði sem mælir fyrir um að ekki sé hægt að framselja rétt samkvæmt honum (þ.m.t. að við sölu á fyrirtæki forleggjarans) án samþykkis höfundarins. Án þess gæti höfundurinn átt á hættu að lenda í því að verða hluti af allt öðru fyrirtæki sem hugsanlega hefur ekki mikla trú á honum og gerir lítið fyrir feril hans. Við höfum nokkur slík dæmi hér á landi.
Hvar finn ég tónlistarforleggjara?
Stundum finna þeir þig – t.d. þegar þú ert að spila á erlendum tónlistarhátíðum eða ef þér tekst að vekja athygli á tónlistinni þinni á annan hátt utan landsteinana. Því miður eru ekki allir svo heppnir að fá forleggjara á silfurfati og þá mælum við með því að þú farir sjálfur á stúfana og leitir uppi einhvern sem þú vilt vinna með.
Því miður á STEF engan lista yfir forleggjara sem hægt er að dreifa til meðlima, en á heimasíðu alþjóðasamtaka forleggjara er hægt að finna lista yfir meðlimi þeirra í hverju landi fyrir sig. Það er góður staður til að byrja: http://www.icmp-ciem.org/members (Opnast í nýjum vafraglugga)
Skoðaðu heimasíður forleggjarana og athugaðu hvort þar er ekki að finna lista yfir þá sem þeir eru nú þegar að vinna með. Hafðu svo endilega samband og ræddu málin. Eins og áður hefur komið fram mælum við með því að ræða einnig við einhvern af þeim sem forleggjarinn hefur unnið fyrir.
Ekki hrapa síðan að neinu og leitaðu þér aðstoðar. Þú getur komið hingað til STEFs þegar þú ert kominn með samningsdrög og getum við aðstoðað þig við yfirlesturinn. Þegar málið er komið lengra er síðan gott að vera með sjálfstætt starfandi lögmann sér til aðstoðar. Talaðu líka við aðra íslenska höfunda sem hafa gert sambærilega samninga og fáðu ráð hjá þeim.
“Co-publishing”
Í raun má segja að nær allir samningar við forleggjara falli undir þennan flokk “Co-publishing” samninga, því að í þeim felst að höfundurinn heldur eftir hluta af höfundaréttinum sjálfur fyrir sig eða sitt eigið forlag. Höfundarétturinn er þannig í sameign hans og forleggjarans. Ef ekki er um að ræða „co-publishing“ samning, fær forleggjarinn allar tekjur af höfundaréttinum beint til sín, en greiðir síðan hluta þeirra áfram til höfundarins.
Tvöföld skipting höfundaréttarins
Í mörgum forleggjarasamningum og þá sérstaklega í bandarískum samningum á sér stað tvöföld skipting á tekjum. Þannig á sér fyrst skipting á höfundaréttinum hjá viðkomandi höfundarréttarsamtökum þannig að forleggjarinn fái sinn hluta „publisher´s share” og höfundurinn sinn hluta „writer´s share” en síðan skipti forleggjarinn aftur sínum hluta á milli sín og höfundarins. Oftast er þá skiptingin þannig að lagahöfundurinn fær fyrst 50% höfundahluta og svo er forleggjarahlutanum aftur skipt til helminga, þannig að lagahöfundurinn endar með 75% hluta en forleggjarinn 25%. Með þessu fer meiri velta í gegnum forleggjarann en ella, auk þess sem hann situr einhvern tíma á fjármununum og getur fengið af þeim fjármagnstekjur.
Beinir leyfissamningar stórra forleggjara – áhrif á höfundaréttarsamtök
Árið 2004 tilkynnti framkvæmdastjórn ESB að það áliti samning evrópskra höfundaréttarsamtaka um að veita tónlistarveitum leyfi sem næði yfir alla Evrópu á öllum verkum (bæði innlendra sem erlendra höfunda) takmarka samkeppni í Evrópu. Með þessari ákvörðun versnaði starfsumhverfi höfundaréttarsamtaka í Evrópu mikið og í stað þess að auðvelda leyfisveitingar til hagsbóta fyrir neytendur, urðu leyfisveitingar miklu flóknari.
Í kjölfarið gerðist það að stærstu forleggjarar heims, drógu til baka umboð sitt frá höfundaréttarsamtökum til að veita leyfi til tónlistarveita sem starfa yfir landamæri og hófu að veita slík leyfi sjálf. Þetta hefur gert það að verkum að þegar samtök eins og STEF innheimta leyfisgjöld frá t.a.m. Spotify þarf fyrst að draga frá innheimtu gjaldi – hlutfall streymis verka þessara stóru forleggjara. Í dag er þetta hlutfall um helmingur alls streymis. Má segja að með þessu hafi stóru forleggjararnir skilið höfundaréttarsamtökin eftir með þá innheimtu sem er erfiðust og skilar hlutfallslega minna.
Á sama tíma hafa höfundaréttarsamtök staðið fyrir ýmsum kostnaðarsömum aðgerðum til varnar ólöglegri dreifingu verka á netinu sem nýtist einna best þessum stóru forleggjurum, án þess þó að forleggjararnir taki á nokkurn hátt þátt í kostnaðinum. Kemur þetta einna verst niður á litlum höfundaréttarsamtökum eins og STEFi sem starfa á mörkuðum sem þessir forleggjarar hafa lítinn áhuga á. Gott er að höfundar hafi þetta í huga þegar þeir velja sér forleggjara – og stuðli þannig ekki að frekari uppbroti markaðarins sem hefur neikvæð áhrif á samtök þeirra. Ómögulegt er að segja til um hvernig þróunin mun verða í framtíðinni, en ljóst er að hjólinu verður ekki snúið til baka að þessu leyti.
Það er mikilvægt fyrir tónhöfunda að gera sér grein fyrir því hvernig tekjustraumarnir liggja frá streymisveitum. Í því sambandi þarf að gera greinarmun á greiðslu fyrir annars vegar útgáfuréttindi (sem er greiðsla fyrir notkun á tilteknu hljóðriti með tilteknum flytjanda oft nefnd masterréttur) og hins vegar á greiðslu fyrir höfundaréttinn (fyrir notkun á laginu sjálfu, burtséð frá því hver tók það upp og hver flytur það).
Hver annast hina stafrænu dreifingu?
Eigandi útgáfuréttarins er sá eini sem getur heimilað stafræna dreifingu verksins. Stundum kemur upp sú spurning hver sé eigandi útgáfuréttarins. Það getur verið sérstakt útgáfufélag, höfundurinn, flytjandinn eða hljómsveitin. Spurningin er í raun hver greiðir upptökukostnaðinn? Hér á Íslandi er um 80% allra útgáfa eigin útgáfa viðkomandi tónlistarmanna sem er óvenjuhátt hlutfall. Það þýðir að viðkomandi tónlistarmaður fær greitt fyrir sama streymið annars vegar sem höfundur og hins vegar sem útgefandi. Það er síðan útgáfusamningurinn á milli útgefandans og flytjenda sem sker úr um hvað útgefandinn fær stóran hluta teknanna af streyminu og hversu mikið flytjendur fá. Venjulega er gerður útgáfusamningur við aðalflytjanda eða aðalflytjendur ef um er að ræða hljómsveit, en aðrir flytjendur þ.e.a.s. svokallaðir aukaflytjendur fá greitt fyrir þátttöku í upptökum með eingreiðslu. Ef hljómsveit gefur út verkið saman eða sem ein heild þarf hún sem útgefandi að gera útgáfusamning við meðlimina sem flytjendur, þannig að það liggi fyrir skýrt hvað hver meðlimur fær greitt fyrir streymið t.d. í þeim tilvikum sem að hann hættir í hljómsveitinni.
Hlutverk miðlara (e. aggregators)
Flestar streymisveitur taka ekki við verkum beint frá útgefendum nema um sé að ræða þeim mun stærri útgefanda á heimsvísu. Gera streymisveiturnar það að skilyrði að útgefendur noti svokallaða miðlara (e. aggregators) eða milliliði til að koma verkum til þeirra. Þessir milliliðir taka síðan annaðhvort tiltekna fjárhæð (eingreiðslu) fyrir hvert upphlaðið verk og svo endurnýjunargjöld eða tiltekið hlutfall tekna af streyminu. Fyrir höfundaréttinn fá höfundar hins vegar greitt frá streymisveitum í gegnum höfundaréttarsamtök eins og STEF. Einn íslenskur miðlari er starfandi, en útgefandinn Alda Music tekur einnig að sér að dreifa rafrænt efni annarra. Aðrir miðlarar eru t.d. Tune Core, CD Baby, Phonofile, DistroKid, Reverbnation,Mondotunes, Ditto og The Orchard svo einhverjir séu nefndir. Á sama hátt bjóða þeir mjög mismunandi þjónustu hvað varðar markaðssetningu, gildistíma samnings og svo er hugsanlega misjafnt hvaða streymisveitur þeir setja efni inn á. Til dæmis má nefna að Tune Core býður mjög lítla þjónustu annað en að koma efninu inn á tónlistarveitur og tekur fyrir það fast árgjald. Phonofile býður meiri þjónustu og tekur 20% á tekjum. The Orchard velur sér hins vegar samstarfsaðila sem geta verið útgáfuaðilar eða tónlistarmenn og sinnir fyrir þá um leið markaðssetningu á því efni sem það dreifir. Mjög mikið af efni er að finna á netinu um hvernig er best að finna rétta miðlarann sem gott er að skoða því það getur verið erfitt og kostnaðarsamt að skipta um miðlara síðar. Tenglar á viðkomandi lög verða oftast óvirkir við slík skipti og teljarar byrja upp á nýtt að telja hversu oft viðkomandi lag hefur verið streymt. Þá er einnig mikilvægt að passa vel upp á að skrifa rétt titla viðkomandi laga og að velja þeim endanlegan titil strax, en mistök í stafsetningu geta verið dýrkeypt
Tekjur af tónlistarveitum
Heildarvelta hins stafræna tónlistarmarkaðar var á árinu 2016 um 630 til 640 milljónir kr. og voru árið 2017 greiðandi áskrifendur að Spotify á Íslandi um 60.000. 60% af tónlistarsölu á Íslandi í dag er nú stafræn. Tekjur af streymi skiptast oftast á eftirfarandi hátt: VSK er 11%. STEF fær síðan oftast greitt 12% af tekjum frá hefðbundnum tónlistarveitum. Dreifingaraðilinn eða miðlarinn tekur allt að 20% af hlut útgefanda, sem útgefandinn síðan deilir með flytjendum skv. ákvæðum útgáfusamnings. Á árinu 2017 voru útgefandinn og flytjendur sameiginlega að fá frá 363 – 545 kr. af hverri 1.200 kr. árskrift á Spotify. Hvað skilar þá ein spilun á Spotify? Samtals voru höfundar, flytjendur og útgefendur að fá um eina krónu fyrir hverja spilun á íslandi á árinu 2017. Þetta er nokkuð lægra hlutfall ef spilunin á sér stað hjá Spotify erlendis.
Rafræn markaðssetning
Hvernig get ég aukið tekjur af streymi t.d. á Spotify?
Þegar streymisveiturnar hófu innreið sína á tónlistarmarkaðinn héldum við að aðgengi að eldri útgáfum sem oft eru ófáanlegar í verslunum myndi stórbatna og um leið myndu tekjur af slíkum verkum aukast. Í ljós kom síðar að einungis fyrri hluti þessarar ályktunar átti við rök að styðjast. Aðgengið sem slíkt jókst en að sama skapi virðast notendur hafa mjög takmarkaðan áhuga á þessum eldri verkum. Auðvitað eru til undantekningar frá þessari reglu t.d. hvað varðar tiltekna geira eins og þungarokk, en að meginstefnu til virðast notendur hafa tiltölulega lítinn áhuga á að gefa sér tíma til að leita að verkum tiltekinna höfunda eða flytjenda. Við vitum að 55% af tónlistinni sem er streymt á Spotify er streymt af lagalistum og að 8-10% verkanna sem í boði eru, eru að fá 90% streymisins. Til viðbótar fara tekjur vegna þeirra verka sem ekki næst að samkeyra með gagnagrunnum höfundaréttarsamtaka og tekjur vegna streymis sem nær ekki lágmarksúthlutun aftur í pottinn sem gerir það að verkum að stærri aðilar fá enn stærri hlutdeild teknanna. Notkunarmunstur neytenda á tónlistarveitum gerir það því að verkum að þeir sem eiga verk sem ná inn á topplista eru að uppskera vel, en aðrir sitja eftir. Ekki má þó gleyma því að hið sama má að mörgu leyti segja um útvarp og sjónvarp þar sem glugginn er lítill og einungis lítill hluti verka sem í boði eru fá spilun hverju sinni. Þessi neysla útvarps, sjónvarps og tónlistarveita er hins vegar mjög ólík hefðbundinni plötusölu sem hefur farið minnkandi með auknu aðgengi í gegnum streymi. Því má ekki gleyma að alveg eins og það skiptir máli fyrir sölutölur hvar plötunni er komið fyrir í versluninni, þá þurfa höfundar, flytjendur og útgefendur að vinna markvisst með tónlistarveitunum. Ekki er hægt að hlaða upp tónlistinni og bíða síðan bara eftir tekjunum. Fyrir utan hefðbundna markaðssetningu er ýmislegt hægt að gera til að hafa áhrif á streymi tónlistarinnar. Helstu tækin eru samspil þessara veita við samfélagsmiðla og miðlun upplýsinga og tengla á tónlistarveitur til aðdáenda tónlistarmannsins. Þá getur tónlistarmaðurinn sjálfur búið til lagalista og deilt þeim með aðdáendum sínum. Tónlistarmenn geta einnig unnið saman að slíkum verkefnum. Á eftirfarandi síðu er hægt að nálgast ýmis góð ráð hvað þetta varðar: http://www.spotifyartists.com/best-practices/ Hér eru nokkur góð ráð frá Maríu Rut Reynisdóttur um hvernig sé best að markaðssetja tónlistina stafrænt, því það að koma laginu á streymisveitur er jú bara byrjunin. Síðan hefst alvöru vinnan við að fá það spilað.
- Notkun samfélagsmiðla er ekki nægileg ein og sér til að dreifa tónlistinni.
- Tónlistarmaðurinn verður einnig að hafa sína eigin heimasíðu til að geta stjórnað betur upplýsingaflæði.
- Póstlistar eru eitt mikilvægasta verkfærið í kistunni. Póstlistann áttu sjálfur og þarft ekki að treysta á þriðja aðila eins og Facebook sem rukkar fyrir auglýsingar.
- Hægt er að safna netföngum t.d. með því að gefa efni í staðinn.
- Smától eða “widgets” geta verið hentug – þau hvetja til virkni aðdáenda.
YouTube
Í byrjun er rétt að gera sér grein fyrir því að myndefni með tónlist á YouTube felur í sér þrjá mismunandi flokka réttinda: Myndefnið / Lagið / Upptakan. Ef tónlistarmenn setja sjálfir inn myndefni með tónlist sinni fá þeir eingöngu greitt fyrir myndefnið (ef notuð er þjónusta AdSense). Til þess að fá einnig greitt fyrir upptökuna og lagið verður tónlistin að hafa farið á YouTube í gegnum einhvern sem er hluti af “partnerprógrammi” YouTube. Það eru einungis stærstu útgáfufyrirtækin sem hafa slíkan aðgang sjálf, en aðrir nota þá miðlara (e. aggregators), t.d. Alda Music, CD Baby, o.fl. Þegar tónlistin hefur farið á réttan hátt inn á YouTube með öllum upplýsingum um verkið, myndast samanburðarskrá sem er keyrð saman með öllu öðru myndefni og ef í ljós kemur að aðrir hafa notað upptökuna og lagið með sínu myndefni fær eigandi upptökunnar einnig greitt fyrir slíka notkun. Eigandi upptökunnar á að greiða hluta af þeim tekjum sem hann fær á þennan hátt frá YouTube með flytjendum skv. útgáfusamningi, á sama hátt og af öðrum streymistekjum. STEF greiðir síðan lagahöfundum sérstaklega samkvæmt samningi STEFs við YouTube. Ekki er greitt fyrir áhorf sem á sér stað áður en samanburðarskráin verður til og verkið skráð í gegnum miðlara hjá YouTube. Það er því mikilvægt að huga að þessum atriðum ÁÐUR en myndefnið er sett á veituna, því mesta áhorfið er jú oftast skömmu eftir að því er hlaðið upp.
Tónsetning myndefnis
Það telst tónsetning (e. synchronisation) þegar hljóði er skeytt saman við mynd.
Fyrir slíku þarf leyfi þeirra sem skapað hafa tónlistina (tón- og textahöfunda), svo og frá þeim sem eiga réttinn að viðkomandi upptöku, þ.e.a.s. masterréttinn. Það á þó eingöngu við ef vilji er til nota upprunalegan flutning á laginu, en ekki taka það aftur upp. Oftast eru það útgáfufyrirtæki sem eiga réttinn til upptökunnar. Saman er stundum talað um „soundtrack right“. Hafi tónhöfundurinn samið við tónlistarforleggjara (e. publisher), þá annast hann venjulega samningsgerð um tónsetningu fyrir hönd höfundarins.
Í ákveðnum tilvikum annast STEF (eða NCB) samningsgerð fyrir hönd höfunda um tónsetningu. Slíkt á fyrst og fremst við um tónsetningu við eigin framleiðslu sjónvarpsstöðva. Þær sjónvarpsstöðvar, sem eru með samning við STEF um opinberan flutning, eru þarmeð einnig með heimild til tónsetningar fyrir eigin framleiðslu. Undir þessa heimild fellur einnig heimild til að kynna eigin dagskrárgerð á eigin miðlum. Samskonar kerfi er í ýmsum öðrum löndum (t.a.m. á Norðurlöndunum og í Bretlandi) og í þeim tilvikum eru systursamtök STEFs með heimild til að gera samninga fyrir hönd meðlima STEFs, á sama hátt og fyrir sína eigin meðlimi.
Ef vafi leikur á um hvort tiltekið efni teljist til framleiðslu viðkomandi sjónvarpsstöðvar eða teljist vera á ábyrgð sjálfstætt starfandi framleiðanda, þá er miðað við að ef sjónvarpsstöð kaupir sýningarrétt af sjálfstæðum framleiðanda, þá telst viðkomandi framleiðsla ekki vera eigin framleiðsla sjónvarpsstöðvarinnar, nema í þeim tilvikum sem sjónvarpsstöðin hefur einkarétt á sýningu viðkomandi efnis, þegar samningurinn er gerður, eða sjónvarpsstöðin á 50% eða meira í framleiðslunni.
Sé um það að ræða að efni, sem telst til eigin framleiðslu sjónvarpsstöðva, en er síðar selt eða dreift annað, þá gildir ekki lengur leyfið samkvæmt samningnum við STEF, heldur verður viðkomandi framleiðandi þá að afla nýrra tónsetningarleyfa hjá rétthöfum.
Sjónvarpsstöðvar eru síðan ábyrgar fyrir því að skila til STEFs skýrslu um alla tónsetningu í sinni eigin framleiðslu (e. cue sheet).
Á þessu leyfi sjónvarpsstöðva er þó sú takmörkun, að fyrir einkennislög einstakra þátta þarf ávallt leyfi höfundarins sjálfs og það sama á við um framleiðslu á dramatísku leiknu efni (s.s. þar sem unnið er eftir handriti). Sama á við um kvikmyndir og auglýsingar þriðju aðila. Þá ber sjónvarpsstöð ávallt að gæta sæmdarréttar höfundar.
Vert er að benda á í þessu sambandi, að samningar höfundaréttarsamtaka við bæði YouTube og Facebook taka ekki bara til flutnings verka, heldur einnig tónsetningar á þessum miðlum.
Tónsetningarleyfi NCB
Fyrir framleiðslu sjónvarpsþátta svo og stuttmynda og heimildamynda til sýninga í sjónvarpi bjóðast framleiðendum hin svokölluðu tónsetningarleyfi NCBk, skv. staðlaðri verðskrá NCB.
Tónsetningarleyfi NCB geta einnig náð til leikinna dramaþáttaráða, svo lengi sem dreifingin er eingöngu á Norðurlöndunum. Að öðru leyti getur leyfi NCB náð til alls heimsins. Athygli er vakin á því að NCB-leyfin ná eingöngu til höfundarhluta lagsins, en ekki til hljóðupptökunnar (masterréttarins). Slík leyfi þarf að sækja til viðkomandi útgefanda hljóðritsins.
Sótt er um leyfi til NCB í gegnum heimasíðuna http://www.ncb.dk.
Þar sem ofangreindum tilvikum sleppir verða höfundar að sjá alfarið sjálfir um að semja um tónsetningu. STEF getur í slíkum tilvikum veitt höfundum ráðgjöf við samningsgerðina. Hafa verður í huga að samningsgerð um tónlist í kvikmynd er nokkuð ólík, eftir því hvort um er að ræða frumsamda tónlist fyrir kvikmynd (e. original score) eða hvort verið er að kaupa rétt til að nota tiltekið áður útgefið lag í kvikmynd eða sjónvarpsefni. Um slíka samningsgerð er hægt að lesa meira hér á síðunnu, undir liðnum „Samningar um kvikmyndatónlist“.
Þá er einnig gott að minna á skyldur framleiðenda að útbúa svokallað „Cue Sheet“ yfir alla tónlistarnotkun í hverjum þætti eða kvikmynd. Skila þarf slíku skjali til STEFs til að tryggja greiðslur til tónhöfunda. Nánar má lesa um Cue Sheet annars staðar á heimasíðu STEFs.
Endurgreiðsla kostnaðar
Hægt er að fá 25% endurgreiðslu af endurgreiðsluhæfum kostnaði við upptökur tónlistar hafi meira en 80% af framleiðslukostnaðinum fallið til hér á landi.
Passa þarf að gefa upp til skatts laun til hljóðmanna og hljóðfæraleikara svo hægt sé að sýna reikningana sem þeir hafa sent til þín þegar kemur að því að sækja um endurgreiðsluna en nánari upplýsingar eru hér: https://www.stjornarradid.is/verkefni/atvinnuvegir/skapandi-greinar/endurgreidslur-vegna-hljodritunar-a-tonlist/
Fjármögnun
Ýmsir sjóðir styrkja hljóðritun á tónlist. Hér er listi með upplýsingum um styrki sem eru í boði, en mikilvægt er að muna að ekki er hægt að fá styrk fyrir eitthvað sem þegar búið er að gefa út: https://mic.is/is/thjonusta/styrkir/. Einn af þessum sjóðum er Hljóðritunarsjóður STEFs.
Hægt er einnig að fjármagna upptökur t.d. með aðstoð hópfjármögnunarsíða eins og www.karolinafund.com.
ISRC kóði og skráning flytjenda
Til að fá ISRC kóða á lögin (sem m.a. er nauðsynlegt fyrir útvarpsstöðvar að fá og tryggir flytjendum greiðslur fyrir opinberan flutning) þarf að skrá upptökuna og flytjendur á www.hljodrit.is, sem SFH (Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda) stendur að. Kóðanum er síðan komið til upptökustjóra sem setur hann á masterinn á lögunum.
Rafrænar útgáfur
Svokallaðir miðlarar (e. aggregators) annast rafræna dreifingu laga inn á tónlistarveitur eins og t.d. Spotify og Google Play. Stærstu útgefendurnir hafa þó beinan aðgang að þessum veitum og þurfa ekki að nota slíka miðlara. Alda Music (www.aldamusic.is) er bæði útgáfufyrirtæki og eini íslenski rafræni dreifingaraðilinn á Íslandi. Dæmi um erlenda dreifingaraðila eru CD Baby, Tunecore og Phonofile. Misjafnt er hvernig viðskiptamódel þeirra er og hvort þeir taka árgjöld eða hlutfall af tekjum framleiðanda fyrir þjónustu sína. Nánari upplýsingar um rafræna dreifingu er hægt að nálgast annars staðar á heimasíðu STEFs (sjá Tónlistarveitur – stafræn dreifing). Tónlistarveiturnar greiða síðan höfundaréttargjöld af útgáfunni í gegnum höfundaréttarsamtök.
Útgáfa í föstu formi
Greiða þarf höfundum höfundaréttargjöld af útgáfunni og er það gert í gegnum NCB sem STEF á aðild að: www.ncb.dk. Sýna þarf fram á leyfi frá NCB til að geta fengið diska úr framleiðslu. Eftir skráningu útgáfunnar hjá NCB er heimilt að merkja diskinn eða plötuna með logo STEFs og NCB.
Dæmi um íslensk fyrirtæki sem sjá um milligöngu og framleiðslu á eru Record Records: http://recordrecords.is, (Upplag ehf), Myndbandavinnslan (http://mbv.is) og á www.vinyl.is. Þá annast þetta auðvitað einnig hefðbundin útgáfufyrirtæki.
Áður en platan eða diskurinn er framleiddur þarf að fá strikamerki. Bæði er hægt að prenta strikamerkið aftan á geisladiskinn og setja sem límmiða á plastið þegar geisladiskurinn er kominn út. Fyrirtækið GS1 á Íslandi sér um strikamerkjalausnir: https://www.gs1.org/locations/iceland
Úthlutunarreglur STEFs (smellið hér til að hlaða niður PDF-skjali)
1. grein
Höfundaréttargreiðslum þeim, sem STEFi ber að greiða tónskáldum, textahöfundum og öðrum rétthöfum fyrir flutning tónverka, skal úthlutað samkvæmt höfundalögum og þeim reglum sem hér fara á eftir.
2. grein – Almennar meginreglur um úthlutun
STEF innheimtir höfundaréttargjöld fyrir flutning tónverka. Af þeim er dreginn kostnaður við starfsemi samtakanna og samþykkt framlag í Menningarsjóð STEFs. Upphæðinni sem þá er eftir er úthlutað til rétthafa eftir á, miðað við flutning verka þeirra á því ári sem gjöldin falla til.
Tillit skal tekið til eftirtalinna sjónarmiða við úthlutun á höfundaréttargreiðslum eftir því sem við á:
1. Kostnaðar við innheimtu höfundaréttargjalda samkvæmt síðasta staðfesta ársreikningi. Á þeirri meginreglu eru eftirfarandi undantekningar:
1.1 Vegna innheimtra tekna af tónleikum reiknar STEF 10% umsýslukostnað.
1.2 Vegna innheimtra tekna frá erlendum systursamtökum reiknar STEF 3% umsýslukostnað.
1.3 Vegna innheimtra tekna frá alþjóðlegum tónlistarveitum reiknar STEF 3% umsýslukostnað.
2. Hlutfalls verndaðrar tónlistar af því efni sem flutt er, til dæmis í dagskrá útvarpsstöðva eða á tónleikum, þannig að hærri greiðslum sé úthlutað eftir því sem hlutfallið eykst.
3. grein – Framlag í Menningarsjóð STEFs
Menningarsjóður STEFs styður við framgang íslenskrar tónlistar í samræmi við ákvæði samþykkta STEFs. Framlag í Menningarsjóð STEFs má nema allt að 10% af innheimtum höfundaréttargjöldum, að frádregnum kostnaði, eftir ákvörðun aðalfundar samtakanna hverju sinni.
4. grein – Sviðsverk – stórréttindi
Að því marki sem áður útgefin tónlist er notuð í sviðsverkum skal úthlutað hlutfallslega miðað við þau höfundaréttargjöld sem innheimt eru af hverju leikhúsi fyrir sig, eða þeim sem setur upp sviðsverk og þeim tónlistarskýrslum sem berast.
Samkvæmt aðildarsamningum STEFs við meðlimi hefur STEF ekki umboð til að semja um stórréttindi þeirra (e: Grand Rights) og þar af leiðandi úthlutar STEF ekki til höfunda vegna slíkra nota. Það er eingöngu á forræði tónhöfunda sjálfra að semja um flutningsrétt verka sem falla undir stórréttindi.
Hugtakið stórréttindi á við um tónverk sem hafa verið sérstaklega samin til að vera hluti af leikverki, s.s. ef um er að ræða leikhúsverk, óperu, söngleik, ballett eða dansverk. Leikhúsverk telst að þessu leyti vera verk með einhverskonar söguþræði og/eða persónum. Í flestum slíkum tilvikum fer rétthafi sviðsverksins með réttinn til að semja um uppsetningu þess eða aðra notkun og þar með tónlistarinnar í verkinu og ber hann þá ábyrgð gagnvart tónhöfundum að gæta réttinda þeirra.
Mörkin á því hvort uppsetning teljist falla undir stórréttindi eða ekki fer eftir því hvort tónverkið sé flutt með búningum, leikmynd og leikgerð sem vísar til upphaflegs sviðsverks. Leyfi STEFs vegna tónlistar í sviðsverki fylgir þó ekki leyfi til notkunar vörumerkis upphaflegs sviðsverks, bíómyndar eða t.d. nafna þekktra listamanna.
Ef tónverk sem er hluti af sviðsverki og stórréttindum er flutt sem hluti af öðru sviðsverki en því sem það var sérstaklega samið fyrir, eða ef það er flutt á tónleikum, þá telst ekki vera um stórréttindi að ræða og veitir þá STEF leyfi fyrir flutningnum og úthlutar fyrir á hefðbundinn hátt sem verk flutt á tónleikum eða verk flutt í leikhúsi, enda sé verkið eða hlutar þess skráðir hjá STEFi.
Hafi tónlist sviðsverksins verið gefin út sem hljóðrit eða sem hljóð- og myndverk, þurfa þeir aðilar sem á annað borð hafa heimild STEFs til opinbers flutnings ekki sérstakt leyfi fyrir flutningi verksins í miðlum sínum og er þá úthlutað fyrir slíkan flutning eins og annan sjónvarps- eða útvarpsflutnings eða þá t.d. flutning í kvikmyndahúsum, í endurvarpi eða VOD þjónustu. Á slíkt einnig við um óútgefin verk, hafi viðkomandi aðili sem flytur verkið opinberlega á annað borð heimild til flutnings verksins. Í öllum þessum tilvikum úthlutar STEF fyrir flutninginn eins og fyrir annan flutning í viðkomandi miðli. Það sama á við ef hluti sviðsverks sem telst til stórréttinda er hluti af þáttum eða heimildamyndum sem sjónvarpað er.
Ef viðkomandi verk er flutt erlendis fer það eftir reglum höfundaréttarsamtaka í viðkomandi landi hvort flutningur þess þar telst falla undir stórréttindi eða ekki.
5. grein – Úthlutunarflokkar
Höfundaréttargreiðslum skv. 2. grein skal úthlutað í sem mestu samræmi við þau gjöld sem innheimt eru fyrir flutning hvers tónverks um sig. Úthlutun höfundaréttargreiðslna tekur mið af eftirtöldum flokkum, eins og nánar er kveðið á um í 6. grein:
1. Tónlist í hljóðvarpi.
2. Tónlist í sjónvarpi.
3. Tónleikar.
4. Dansleikir og aðrar samkomur þar sem lifandi tónlist er flutt.
5. Bakgrunnstónlist, svo sem á veitingastöðum og í verslunum.
6. Tónlist við kirkjulegar athafnir, þ.m.t. útfarir.
7. Tónlist á kvikmyndasýningum.
8. Tónlist á leiksýningum.
9. Tónlist á netinu, þ.m.t. streymi og niðurhal frá tónlistarveitum.
10. Sönghefti.
11. Eintakagerð.
12. Hljóðsetning.
13. Eintakagerð til einkanota frá IHM.
14. Streymisþjónustu á myndmiðlun eftir pöntun (VOD – e: Video On Demand, þ.m.t. s.k. TVOD og SVOD).
15. Frumflutningur.
STEF getur útvistað bakvinnslu og samkeyrslu tiltekinna úthlutunarflokka til þriðja aðila eftir því sem þörf þykir á hverjum tíma.
Stærstu úthlutunarflokkum eru gerð frekari skil hér að neðan.
6. grein – Úthlutun byggist á tiltækum upplýsingum
Úthlutun höfundaréttargreiðslna miðast við þær upplýsingar um flutning tónverka sem STEFi berast eða samtökin afla með öðrum hætti og samkeyrslu þeirra við gagnagrunn STEFs. Ber helstu viðskiptavinum STEFs að láta í té ítarlegar tónlistarskýrslur yfir tónlistarflutning sinn, skv. samningum við STEF. Af hagkvæmni- og kostnaðarástæðum er ekki gerð krafa um upplýsingar fluttra tónverka í öllum tilvikum.
6.1 Hljóðvarp og sjónvarp
Úthlutun höfundaréttargreiðslna fyrir flutning í hljóðvarpi og sjónvarpi byggist á þeim höfundaréttargjöldum sem innheimt eru af sérhverri hljóðvarps- og sjónvarpsstöð og skýrslum yfir opinberan flutning tónlistar samkvæmt samningum milli STEFs og viðkomandi fyrirtækis. Úthluta skal sérstaklega fyrir flutning á hverri og einni útvarps- eða sjónvarpsstöð og – eftir því sem við á – hverri og einni útvarps- og sjónvarpsrás. Í þeim tilvikum þar sem sami viðskiptavinurinn rekur bæði útvarps- og sjónvarpsstöð, skal úthlutunum skipt þannig að 80% fjármuna er úthlutað vegna útvarps og 20% vegna sjónvarps.
Í þeim tilvikum, þar sem sami viðskiptavinurinn rekur fleiri útvarpsstöðvar eða fleiri sjónvarpsstöðvar, skal úthlutunum skipt þannig milli stöðvanna að 30% fjárhæðarinnar miðast við magn tónlistar sem flutt er á stöðinni og 70% samkvæmt hlustenda- eða áhorfskönnunum.
Fyrir einkennislög þátta er úthlutað eins og fyrir annan tónlistarflutning í viðkomandi þætti, hvort sem um er að ræða frumsamda eða áður útgefna tónlist. Sé þáttur daglega eða oftar á dagskrá, þá telst einkennislag hans falla undir úthlutun fyrir dagskrárstef. Þetta á t.d. við um stef sem flutt eru fyrir og eftir auglýsingar, fréttastef og stef viðkomandi sjónvarps eða hljóðvarpsstöðvar. Úthlutað skal fyrir slík stef 2,5% af heildarúthlutunarfjárhæð frá viðkomandi viðskiptavini, skipt milli einstakra miðla eða stöðva, ef um fleiri en einn miðil er að ræða, skv. ofangreindum reglum um skiptingu úthlutunarfjárhæðar milli miðla.
STEF úthlutar ekki fyrir birtingu auglýsinga í hljóðvarpi eða sjónvarpi.
Ef útvarps- eða sjónvarpsútsendingar eru innan takmarkaðs landfræðilegs svæðis og innheimt höfundarréttargjöld óveruleg, skal úthlutunin byggjast á tónlistarskýrslum sem aðrar stöðvar af svipuðum toga láta STEFi í té.
Ekki er hægt að úthluta vegna kvikmynda- og sjónvarpsefnis sem framleitt er hér á landi, nema að svonefnd tónlistarskýrsla (e. Cue Sheet) hafi borist STEFi um þá tónlist sem finna má í viðkomandi þætti eða kvikmynd.
6.2 Bakgrunnstónlist
Þegar STEF fær litlar eða engar upplýsingar um hvaða tónverk hafa verið flutt, til dæmis sem bakgrunnstónlist, er meginreglan um höfundaréttargreiðslur að úthlutað er í samræmi við flutning tónlistar á öðrum vettvangi, svo sem í útvarpi eða frá streymisþjónustum. Þetta gildir ef sýnt þykir að tónlistarflutningurinn sem um ræðir sé ekki ósvipaður tónflutningi í viðkomandi miðlum.
Teljist slíkur samanburður ótækur, þá skal úthluta viðkomandi tekjum hlutfallslega miðað við heildarúthlutun síðastliðins árs. Ef unnt er að afla frekari upplýsinga um flutning tónlistar sem fellur innan þessara flokka, án óeðlilegs kostnaðar, með því að nota úrtak af fluttum tónverkum, má einnig byggja úthlutun í þessum flokkum á slíkum upplýsingum. Úthlutun í þessum tilvikum skal vera í eins nákvæmu samræmi við raunverulega tónlistarnotkun og unnt er.
Stjórn STEFs tekur ákvörðun um viðmið varðandi úthlutun bakgrunnstónlistar innan ofangreinds ramma.
6.3 Lifandi flutningur tónlistar
Úthlutun höfundaréttargreiðslna fyrir lifandi flutning tónlistar byggist á innheimtu höfundaréttargjalda af hverjum tónleikum fyrir sig og þeim tónlistarskýrslum sem tónleikahaldarar og/eða viðkomandi listamenn eða rétthafar skila til STEFs. Í þeim tilvikum sem STEF hefur undirritað samning við tónleikastað, sem greiðir fasta fjárhæð höfundaréttargjalds á ári og höfundaréttargjöld af hverjum viðburði fyrir sig eru óveruleg, byggist úthlutunin á tónlistarskýrslum sem STEFi berast um flutning tónlistar á viðkomandi stað, sem hlutfall af meðalfjölda tónleika. Sama regla er notuð um tónlistarhátíðir, en þá er úthlutun hlutfölluð miðað við meðalfjölda tónleika eða atriða á viðkomandi hátíð.
Sé um að ræða tónleika sem kenndir eru við eina hljómsveit eða flytjanda og áheyrendur eru fleiri en 1.000, skulu 90% höfundaréttargreiðslna af tónleikunum koma í hlut rétthafa tónlistar sem flutt er af viðkomandi hljómsveit eða flytjanda. Rétthafar tónlistar sem flutt er af öðrum hljómsveitum eða flytjendum, svo sem „upphitunarhljómsveitum“, fá í sinn hlut 10% af höfundaréttargreiðslum vegna tónleikanna.
Fyrir aðra viðburði eins og árshátíðir og skólaskemmtanir, þar sem lifandi flutningur tónlistar fer fram miðast úthlutun við meðaltal gesta (stærri og minni skemmtanir skv. verðskrá STEFs) og að í heild séu flutt um 35 lög á slíkri skemmtun.
7. grein – Frumflutningur
Úthlutað er sérstaklega fyrir frumflutning verks. Frumflutningur tekur til hvers nýs verks sem meðlimir samtakanna hafa skráð og sem sannarlega hefur verið frumflutt hérlendis. Í því sambandi skiptir ekki máli í hvaða miðlum verkið hefur verið frumflutt eða það frumflutt á tónleikum. Frumflutningur tekur einnig til meðlima erlendra höfundaréttarsamtaka sem eiga ný verk sem hafa verið heimsfrumflutt hér á landi. Höfundur ber ábyrgð á að tilkynna frumflutning til skrifstofu STEFs.
8. grein – Skráning tónverka
Rétthafar tilkynna verk sín til STEFs og skulu þau skráð í gagnagrunn samtakanna eftir þeim upplýsingum sem tilkynningunni fylgja. Tónverk er aðeins hæft til úthlutunar höfundaréttargreiðslna ef viðeigandi upplýsingar um tónverkið hafa verið skráðar.
Skráningu tónverks má aðeins breyta með nýrri tilkynningu sé hún undirrituð eða sannarlega samþykkt af öllum þeim sem undirrituðu upphaflegu tilkynninguna eða voru tilkynntir sem höfundar á henni eða rétthöfum þeirra.
Höfundaréttur á verki er óháður skráningu STEFs á tónverki.
STEF axlar enga ábyrgð og veitir enga tryggingu gegn skaða sem aðili getur orðið fyrir í tengslum við úthlutun höfundaréttargreiðslna eða við verndun á höfundarétti sem rekja má til rangra eða ófullnægjandi tilkynninga um verk.
9. grein – Skipting á höfundaréttargreiðslum milli rétthafa
Höfundarétti hvers verks skal skipt upp í hundraðshluta. Höfundar geta samið um skiptingu höfundaréttar á milli sín og því sýnir taflan hér að neðan eingöngu viðmið um skiptingu sem höfundar geta stuðst við. Í ákveðnum tilvikum er hlutdeildin þó ekki umsemjanleg, en í töflunni birtist hæsta hlutdeild sem útsetjara er heimil. Það á einnig við í þeim tilvikum þegar hluti verksins (annaðhvort tónverk eða texti) er ekki í vernd, en þá eru settar skorður við hámarkshlut þess höfundar sem bætir við slíkt verk (annað hvort nýju tónverki eða nýjum texta).
Þegar rætt er um að verk sé ekki í vernd á það einnig við um þau tilvik sem höfundur er óþekktur.
Tónskáld | Textahöf. | Útsetjari | |
---|---|---|---|
Tónverk án texta | 100% | – | – |
Tónverk og texti, samið samtímis* | 50% | 50% | – |
Tónverk samið við eldri texta | 66,67% | 33,33% | – |
Tónverk samið við eldri texta, ef texti er ekki í vernd | 66,67% | – | – |
Texti er saminn við eldra tónverk | 50% | 50% | – |
Texti saminn við eldra tónverk, ef tónverk er ekki í vernd | – | 50% | – |
Útsett verk: | |||
Útsett tónverk án texta | 83,34% | – | 16,67% |
Útsett tónverk og texti, samið samtímis* | 33,33% | 50% | 16,67% |
Útsett tónverk samið við eldri texta | 50% | 33,33% | 16,67% |
Útsett tónverk samið við eldri texta, ef texti er ekki í vernd | 50% | – | 16,67% |
Útsett tónverk án texta, ef tónverk er ekki í vernd** | – | – | 16,67% |
Texti með útsettu tónverki, ef tónverk er ekki í vernd, en útsetningin er í vernd | – | 50% | 16,67% |
Samsett verk (þjóðlag og nýtt verk)***
Tónskáld | Textahöf. | Þjóðlag | Útsetjari | |
---|---|---|---|---|
Tónverk og þjóðlag án texta | 50% | – | (50%) | – |
Tónverk og þjóðlag með þjóðvísu | 33,34% | (33,33%) | (33,33%) | – |
Tónverk og útsett þjóðlag án texta | 50% | – | (33,33%) | 16,67% |
Tónverk og útsett þjóðlag með þjóðvísu | 33,34% | (33,33%) | (16,67%) | 16,67% |
Þjóðlag með nýjum texta | – | 50% | (50%) | – |
Tónverk og þjóðlag með nýjum texta | 33,34% | 33,34% | (33,33%) | – |
Útsett þjóðlag með nýjum texta | – | 50% | (33,33%) | 16,67% |
Tónverk og útsett þjóðlag með nýjum texta | 33,34% | 33,34% | (16,67%) | 16,67% |
* Orðalagið „samið samtímis“ þýðir að út kemur saman eða flutt er saman nýtt og áður óútgefið tónverk og texti.
** Hér er verið að vísa í það sem í daglegu tali eru oft nefnd þjóðlög, en á einnig við um önnur verk sem ekki njóta verndar höfundaréttar s.s. vegna aldurs verks.
*** Hér er átt við þegar nýju verki er skeytt saman við þjóðlag, á þann hátt að úr verður nýtt verk, með eða án útsetningar á þjóðlaginu, þannig að nýsköpun sé umtalsverður hluti hins samsetta verks. Sama krafa er gerð til nýs texta. Með þessari töflu er sett inn sú lágmarkshlutdeild sem þjóðlag eða þjóðvísa nýtur.
Svigi utan um hlutfall þýðir að um sé að ræða reiknaða stærð verks, en sem ekki er greidd út þar sem viðkomandi hluti verks er ekki í vernd.
Athygli er vakin á því að þegar nýtt tónverk eða nýr texti er settur við eldri texta eða eldra tónverk sem er í höfundaréttarvernd, þarf ávallt leyfi höfundar, hvort sem um er að ræða textahöfundinn eða tónhöfundinn.
10. grein – Útsetningar
Við skráningu hlutdeildar til útsetjara er gert ráð fyrir að útsetningin fullnægi lágmarkskröfum um útsetningu. Slíkt felur í sér að útsetjarinn hafi skilað sjálfstæðu frumlegu framlagi við upprunalega verkið. STEF áskilur sér rétt til að meta framlag útsetjara að þessu leyti og breyta eða afnema skráningu á útsetjarahlut í kjölfarið. Í viðauka 1 við reglur þessar er að finna frekari leiðbeiningar um útsetningar.
11. grein – Úthlutun til meðlima annarra höfundaréttarsamtaka
Höfundaréttargreiðslum til rétthafa, sem aðild eiga að systursamtökum STEFs erlendis, skal úthlutað í samræmi við gagnkvæma samninga sem STEF hefur gert við viðkomandi samtök. Skal STEF leitast við að gera slíkt á sem hagkvæmastan hátt og getur stjórn ákveðið að útvista þessum hluta úthlutunar til þriðja aðila s.s. eins og annarra erlendra systursamtaka. Við þá úthlutun skal fylgt sömu reglum og við úthlutun til rétthafa sem aðild eiga að STEFi. Úthlutun til erlendra rétthafa skal í það minnsta eiga sér stað einu sinni á ári.
12. grein – Úthlutun höfundaréttargreiðslna frá erlendum höfundaréttarsamtökum
Erlend höfundaréttarsamtök sem annast hagsmunagæslu fyrir rétthafa innan STEFs, samkvæmt gagnkvæmum samningum, annast úthlutun höfundaréttargreiðslna til STEFs fyrir íslenska tónlist sem flutt er í þeirra umdæmi. Tímasetning þessara úthlutana er mismunandi eftir höfundaréttarsamtökum, en STEF úthlutar þeim tekjum sem samtökunum berast að jafnaði fjórum sinnum á ári.
13. grein – Óþekkt og óskráð verk
STEF gerir sitt ýtrasta til að bera kennsl á tónverk sem tilkynnt er um flutning á. Þetta er gert með því að bera saman skýrslur við gagnagrunn STEFs, bæði sjálfvirkt og handvirkt. Ef tónverkið er enn óþekkt tekur eftirfarandi ferli við:
a. Ef vitað er hver höfundurinn er, þá er haft samband við hann og verkið skráð.
b. Í því tilviki að engin samsvörun finnst, þá er óþekkta tónverkinu bætt við lista af óþekktum tónverkum. Öllum tónverkum er bætt við listann þegar þau hafa náð lágmarksfjárhæð úthlutunar. Listinn er birtur á heimasíðu STEFs og uppfærður þar reglulega.
Höfundaréttargreiðslum fyrir notkun á óþekktum tónverkum og höfundaréttargreiðslum sem haldið er eftir vegna lágmarksreglunnar sem tilgreind er í 14. grein er úthlutað hlutfallslega til rétthafa þekktra tónverka.
14. grein – Útborgun höfundaréttargreiðslna
STEF úthlutar höfundaréttargreiðslum svo fljótt sem auðið er, hafi allar nauðsynlegar upplýsingar vegna úthlutunarinnar borist. Höfundaréttargreiðslur skulu lagðar inn á bankareikning samkvæmt fyrirmælum viðkomandi rétthafa.
Ekki er lágmark á úthlutunarfjárhæð, en stjórn er heimilt að setja á slíkt lágmark ef þörf krefur.
Athugasemdir við úthlutun þurfa að berast innan þriggja mánaða frá dagsetningu úthlutunar, að öðrum kosti telst rétthafi hafa samþykkt úthlutunina.
Sé af einhverjum ástæðum ekki hægt að úthluta til rétthafa fyrir flutning tónlistar, s.s. ef skráning hefur ekki borist, skráning er röng eða ófullkomin eða ágreiningur er um höfundarétt viðkomandi verks, fyrnist réttur til úthlutunar á tveimur árum frá þeim tíma sem úthlutun hefði getað átt sér stað, sé ekki bætt úr þeim ágöllum sem hindra úthlutunina innan þess tíma.
Sé um að ræða fleiri en einn rétthafa, s.s. þegar um er að ræða erfingja tónskálds eða textahöfundar, skal greiðslum úthlutað til sameiginlegs fyrirsvarsmanns. Bera viðkomandi rétthafar ábyrgð á því að skila inn upplýsingum til STEFs hver sé fyrirsvarsmaður þeirra. Berist ekki slíkar upplýsingar fyrnast greiðslur á sama hátt og aðrar greiðslur sem ekki er unnt að koma til skila
15. grein – Skattlagning
STEFi ber að halda eftir skatti af höfundaréttargreiðslum í samræmi við lög á hverjum tíma. Af höfundaréttartekjum til einstaklinga ber STEFi að halda eftir staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts og skila til ríkissjóðs. Lögaðilar greiða skatt af höfundaréttartekjum með öðrum tekjum sínum á þann hátt sem gildir um rekstrarform þeirra.
16. grein – Ágreiningur
Verði ágreiningur um túlkun þessara úthlutunarreglna milli STEFs og meðlima samtakanna, getur viðkomandi meðlimur vísað ágreiningnum til þriggja manna úrskurðarnefndar sem skipuð skal af stjórn STEFs.
17. grein – Gildistími
Reglur þessar leysa af hólmi eldri úthlutunarreglur frá 2011 með síðari breytingum. Þær öðluðust gildi frá og með samþykkt þeirra á fulltrúaráðsfundi STEFs þann 25. maí 2022.
VIÐAUKI 1 – Leiðbeiningar um útsetningar
Það er grundvallarregla um verndun hugverka að verndin nái einungis til sjálfstæðrar, listrænnar sköpunar. Því geta réttindi aldrei náðst fyrir eftirlíkingar eða útvíkkun á því sem aðrir hafa skapað. Útsetningar eru því metnar eftir því hverju þær bæta við upprunalega verkið. Flest allar útfærslur, sem verið er að gera á einstökum verkum, falla EKKI undir sjálfstæða, listræna sköpun, en má fremur líkja við misflókið og viðamikið handverk.
Útsetningar fyrir einstök hljóðfæri eða smáar hljómsveitir fá því að öðru jöfnu aðeins útsetjarahlut að um sjálfstæða listsköpun með hliðsjón af frumverkinu sé að ræða og að það sem gert hefur verið nái út fyrir það sem krefjast þarf til að hægt sé að flytja verkið með þeirri hljóðfæraskipan og þeim röddum sem gengið er út frá. Ýmislegt fleira skiptir máli í mati á útsetningu, t.d. hvort hljómsetning fylgir ríkjandi hefðum innan þess stíls sem útsett er í eða hvort hún telst frumleg og gegnsamin og í grundvallaratriðum ólík því sem hefðin segir til um varðandi hljómsetningu og laglínu upprunalagsins.
Uppfylli útsetning skilyrðið um sjálfstæða og listræna sköpun getur hún orðið grundvöllur til úthlutunar höfundaréttartekna frá STEFi, skv. þeim reglum sem um slíkt gilda.
Gerður er greinamunur á útsetningu þjóðlaga (og öðrum óvernduðum verkum) og útsetningu á verkum sem njóta höfundaréttarverndar.
Það er grundvallaratriði við útsetningu verndaðra verka að leyfi tónhöfundar (rétthafa) þarf fyrir útsetningunni, enda telst útsetning vera breyting á upphaflegu verki. Í slíku leyfi þarf þó ekki að felast afsal tónhöfundar á hlutdeild í höfundaréttargreiðslum vegna verksins, en um slíkt geta tónhöfundur og útsetjari samið. Sama gildir ef tónhöfundur biður um að verk sitt sé útsett.
Fallist tónhöfundur á að útsetjari fái hlutdeild í eldra tónverki, verður í raun til nýtt verk í gagnagrunni STEFs, með annarri skiptingu höfundaréttar en upphaflega verkið. Gott er að hafa í huga að hafi upphaflega verkið verið metið af matsmönnum STEFs í hærri flokk en almennan flokk (sjá nánar umfjöllun á heimasíðu STEFs um flokkun tónverka), þá færist matið ekki sjálfkrafa yfir á hið nýja útsetta verk, heldur þarf þá að óska eftir nýju mati á því í nýrri útsetningu. Ný flokkun á verki í nýrri útsetningu tekur þá til bæði framlags upphaflegs höfundar og útsetjara.
Hvað varðar útsetningar á þjóðlögum (eða verkum sem ekki eru lengur í vernd) fer útsetningin sjálfkrafa í almennan flokk. Í reglum um útsetningu þjóðlaga (sbr. tilheyrandi töflu) kemur fram, að við skráningu slíkra útsetninga hjá STEFi sé gert ráð fyrir að útsetningin fullnægi lágmarkskröfum um útsetningu. Útsetjarar geta óskað eftir mati matsmanna og nýrri flokkun á útsetningu þjóðlags. Vert er að hafa í huga í því sambandi, að matsmenn geta hugsanlega komist að þeirri niðurstöðu að útsetningin uppfylli ekki skilyrði um verkhæð (sbr. umfjöllun í reglunum). Slík niðurstaða leiðir til þess að hafnað er skráningu útsetningarinnar hjá STEFi.
Tónlist í útvarpi og sjónvarpi
Útvarps- og sjónvarpsstöðvar, hvort sem þær eru reknar til lengri eða skemmri tíma, afla sér því leyfis til að flytja opinberlega tónverk með því að semja við STEF um greiðslur fyrir slíka notkun tónverka.
Í samningum STEFs við útvarps- og sjónvarpsstöðvar er þeim veitt svokallað „blanket licence“ sem veitir þeim rétt til að flytja hvaða tónverk, hvaða höfundar sem er, eins oft og þeir vilja gegn greiðslu til STEFs án þess að fá sérstaklega heimild viðkomandi tónhöfundar í hvert sinn. Eru samningar þessir í samræmi við samninga erlendra systursamtaka STEFs við erlendar útvarps- og sjónvarpsstöðvar.
Innifalið er í leyfi útvarps- og sjónvarpsstöðva að senda út dagskrá sína einnig á Internetinu.
STEF getur ekki haft nein áhrif á það hvaða tónlist er flutt eða hversu mikil tónlist er spiluð á hverri útvarps- eða sjónvarpsstöð. Ákveðnar takmarkanir gilda þó um magn tónlistarflutnings á útvarpsstöðvum sem skilgreina sig sérstaklega sem talmálsstöðvar, enda greiða þær lægra leyfisgjald til STEFs.
Ef einstakir tónhöfundar eru ósáttir við notkun á tilteknu verki sínu í útvarpi eða sjónvarpi, geta þeir leitað til STEFs sem hefur þá farið fram á það við viðkomandi aðila að hætta notkun verksins. Hafa slík mál nánast undantekningalaust verið leyst á farsælan hátt.
Í samningi STEFs við útvarps- og sjónvarpsstöðvar er einnig gert ráð fyrir því að einstakir höfundar geti lagt almennt bann við flutningi verka sinna í útvarpi og sjónvarpi. Þurfa viðkomandi höfundar þá að tilkynna slíkt til STEFs og sendir STEF þá tilkynningu til útvarps- og sjónvarpsstöðva með eins mánaðar fyrirvara áður en bannið tekur gildi.
Útvarps- og sjónvarpsstöðvar þurfa einnig leyfi frá SFH (Sambandi flytjenda og hljómplötuframleiðenda) til að flytja tónlist sem áður hefur verið gefin út á hljóðritum.
Samkvæmt samningum STEFs við sjónvarpsstöðvar hafa þær bæði heimild til þess að flytja tónlist opinberlega sem er hluti af aðkeyptu efni sem getur t.d. verið tónlist í kvikmyndum eða tónlist í sjónvarpsþáttum svo og að flytja tónlist sem er hluti af þeirra eigin dagskrárgerð. Sjónvarps- og útvarpsstöðvar hafa því heimild STEFs fyrir hönd höfunda til til að framleiða efni sjálfar sem inniheldur tónlist, þ.e. að skeyta saman mynd og tónlist.
Sjá nánar upplýsingar undir flipanum Hljóðsetning.
Úthlutun greiðslna vegna útvarps- og sjónvarpsflutnings
Í samningum STEFs og útvarps- og sjónvarpsstöðva er kveðið á um að þeim beri að veita STEFi upplýsingar um þá tónlist sem flutt er, hvort sem hún er innlend eða erlend. Á það jafnt við um upplýsingar um tónlist í sýndum kvikmyndum, stef sem spiluð eru s.s. fréttastef, tónlist sem leikin er undir skjáauglýsingum og tónlist í bæði aðkeyptum þáttum og eigin dagskrárgerð. Eru tónlistarskýrslur stöðvanna sendar með rafrænum hætti til STEFs og byggist úthlutun STEFs vegna tónflutnings stöðvanna á þeim.
Tónverk sem birtist á tónlistarskýrslu þarf sömuleiðis að hafa verið skráð hjá STEFi til að hægt sé að úthluta fjármunum til höfundar vegna opinbers flutnings verksins. Bera höfundar sjálfir ábyrgð á því að skrá verk sín hjá STEFi.
Úthlutun fyrir afnot af tónlist í útvarpi og sjónvarpi tekur mið af þeim tekjum sem innheimtast frá hverri útvarps- eða sjónvarpsstöð, sbr. 3. grein Úthlutunarreglna STEFs og því getur úthlutun til höfunda verið mismunandi eftir því á hvaða útvarps- eða sjónvarpsstöð verkin eru flutt. Þá er einnig höfð hliðsjón af því hversu mikið áhorf eða hlustun viðkomandi stöð er með.
Til þess að hægt sé að úthluta fyrir tónlist í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, sem sýndir eru í sjónvarpi, þurfa að liggja fyrir s.k. “cue-sheet” , en það er sundurliðuð greinargerð um þá tónlist sem er að finna í myndinni, titla, höfunda o.s.frv. Eru það framleiðendur efnisins sem útbúa þessi skjöl og bera ábyrgð á því að koma þeim til STEFs. Þeir höfundar sem eiga efni í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum ættu að ganga á eftir því að framleiðandi efnisins hafi gengið frá gerð „cue-sheet“ og sent til STEFs eða erlendra höfundaréttarsamtaka ef framleiðslan á sér stað erlendis.
STEF og ÚTÓN stóðu fyrir fræðslufundinum „Allt í lagi!“ þann 26. janúar 2023. Þar var fjallað um það, hverju huga beri að þegar lögum er komið á framfæri við útvarp. Forráðamenn frá RÚV og Sýn héldu greinargóð og gagnleg erindi, kynntu verkferla, skýrðu frá því hvernig lög eru tekin til spilunar, til hvaða eiginleika er horft, hversu oft eru lög spiluð, o.s.frv. Svöruðu þau að lokum fjölmörgum fyrirspurnum viðstaddra.
Gestir fundarins voru þeir Magnús Már Matthíasson og Sigurður Gunnarsson frá Rás 2 (RÚV) og Ívar Guðmundsson, Brynjar Már Valdimarsson og Ómar Úlfur Eyþórsson frá Sýn.
Hér fer á eftir samantekt af því sem helst bar á góma í erindum fundarmanna.
Rás 2
Lög í spilun eru valin af sérstöku tónlistarráði, sem fundar vikulega. Í ráðinu er jafnt kynjahlutfall. Í viku hverri eru að jafnaði valinu 6-8 ný lög sem fara á A-, B- eða C-spilunarlista. Spilun laganna er mismikil, eftir því á hvaða lista þau lenda. Tekið var fram að dagskrárgerðarmönnum Rásar 2 væri þó frjálst að leika lög sem ekki eru beinlínis á spilunarlistum.
Mest spilaða lag Rásar 2 í hverri viku er að jafnaði leikið þrisvar daglega. Mest spilaða lagið árið 2022 var „Með hækkandi sól“ (Systur), sem alls var leikið 271 sinni á árinu. Vinsældalisti Rásar 2 er eingöngu gerður á grundvelli spilunar á Rás 2.
Á árinu 2022 nam spilun á íslenskum lögum 55% af heildarspilun, en hlutfallið hefur verið á þeim nótum sl. 10 ár. Markmiðið er að íslenskt sé yfir 50%, en það er þó enginn sérstakur kvóti á dagskrárgerðarmönnum að þessu leyti. Á árinu 2022 voru 50% af mest spiluðu lögunum flutt af konum (hefur verið um 35-45% síðustu ár). Í hverri viku er valin íslensk „plata vikunnar“. Árið 2022 voru 51% þeirra platna með konum.
Á Rás 2 voru frumflutt 800 íslensk lög á árinu 2022 (aðallega í þáttunum Undiröldunni og Popplandi), en 2.637 ný íslensk lög voru skráð í gagnagrunn Rásar 2 á árinu og 162 nýjar plötur. Skráning í safn RÚV er forsenda þess að lag geti farið í spilun. Þess má og geta að rúmlega 90 íslensk jólalög tóku þátt í jólalagakeppninni árið 2022 (þau voru 40 á árinu 2019). Spilunarlistar Rásar 2 eru birtir opinberlega á netinu.
Ný lög þarf að skrá í gegnum síðuna www.mitt.ruv.is. Fer skráning fram með rafrænum skilríkjum. Netfangið safn@ruv.is svarar fyrirspurnum um þetta ferli og aðstoðar ef á þarf að halda.
Tónlistarstjóri hlustar á öll lög sem skráð eru inn. Tölvupóstur fer á alla dagskrárgerðarmenn um að nýtt lag hafi verið skráð. Hægt er að skrá allskonar upplýsingar með laginu, því meiri upplýsingar sem fylgja, því betra. Ekki skemmir fyrir að segja söguna á bak við lagið, ef einhver er. Áhugaverð saga á bak við lagið getur leitt til viðtals á stöðinni og skapað meiri spilun og athygli. Gott er einnig að textinn fylgi skráningunni, þótt ekki sé það nauðsynlegt.
Auðvitað þurfa að fylgja upplýsingar um flytjendur og höfunda. Einnig þarf að skrá ISRC-kóða hljóðritsins (sem fæst útgefin af www.hljodrit.is). Gott að hafa þessar sömu upplýsingar á samfélagsmiðlum eða viðeigandi heimasíðum, sem auðvelt er fyrir dagskrárgerðarmann að nálgast. Gott er að gera markaðsplan og ákveða í hvaða röð stuttskífur eru skráðar og kynntar fyrir dagskrárgerðarfólki. Ekki er gott að senda heilu plöturnar í einu. Þá er líka hægt að velja t.d. fjögur lög og ákveða í samstarfi við útvarpsfólkið í hvaða röð þau verði kynnt.
Tónlistin skiptir útvarpsstöðina máli og val á henni. Skv. skýrslu frá EBU Trends frá 2022, þá velja 73% hlustenda sér útvarpsstöð vegna tónlistarinnar. M.ö.o. eru útvarpsstöðvar valdar út frá tónlistarstefnu þeirra.
Útvarpsstöðvar Sýnar
Sýn rekur ekki lengur sérstaka safndeild, en inni á öllum heimasíðum útvarpsstöðva Sýnar er hnappurinn „Senda lag“. Það sama á við hér og um upplýsingar sem fylgja skráningu á Rás 2; því ýtarlegri upplýsingar sem fylgja með laginu, því betra. Mælst er til þess að velja lögin sem send eru með tilliti til viðkomandi útvarpsstöðvar og tónlistarstefnu hennar, ekki senda heilu plöturnar í einu.
Einnig er hægt að senda tölvupóst á bylgjan@bylgjan.is, t.d. til að láta vita um tónleika eða ef viðkomandi vill komast í viðtal. Það getur verið skynsamlegt að fylgja eftir skráningu með því að senda tölvupóst og láta þar t.d. vita að búið sé að skrá lagið og bæta við frekari upplýsingum. Dæmi um slíkt væri að segja frá því að von sé á fleiri lögum eða LP-plötu á næstun, o.s.frv. Netföng einstakra starfsmanna má einnig finna á heimasíðum stöðvanna. Ekki er skynsamlegt að senda skilaboð á Facebook, því ekki er hægt að flokka þar eða halda utan um innsendingar.
Ákvörðun um þau lög sem fara í spilun er tekin á tónlistarfundi, þar sem sitja fulltrúar allra stöðva. Bylgjan heldur sérstaka tónlistarfundi sem og aðrar stöðvar. Stundum er ákveðið að taka lag í spilun á annarri útvarpsstöð en það hafði upphaflega verið sent á, ef það er talið henta laginu/stöðinni betur. Það er ekki spurning um hvort viðkomandi starfsmönnum finnist lagið gott eða slæmt, heldur er þetta fyrst og fremst spurning um hvort henti betur.
Á Bylgjunni eru að meðaltali leikin 12-13 lög á hverri klukkustund í tónlistarþáttum, en í talmálsþáttum hljóma um 2-4 lög á klukkustund. Íslensk tónlist er um 50% af því sem spilað er á Bylgjunni, en þar af um 1-3 nýleg íslensk lög á klukkustund, því auðvitað hljóma þar einnig fyrri tíðar lög. 15 af 20 vinsælustu lögum Bylgjunnar árið 2022 voru íslensk lög. Tvö mest spiluðu lögin voru Dýrð í Dauðaþögn í flutningi Bríetar og Tárin falla hægt með Bubba Morthens og Auði.
Fulltrúi X-ins á fundinum vakti athygli á lagakeppninni Sykurmolanum, sem stöðin stendur fyrir.
Ýmsir fróðleikspunktar
Í umræðum eftir framsögur kom ýmislegt fróðlegt fram. Hér á eftir fara nokkrir punktar og ábendingar:
- Lengd laga getur skipt máli ef þú vilt koma því á spilunarlista. Flest lög eru um 3-4 mínútur. Lag sem er mun lengra en það á minni möguleika á að komast í spilun.
- Athygli var jafnframt vakin á því að hægt er að útbúa mismunandi langar útgáfur af lögum, t.d. eina sem hentar streymisveitum og aðra sem hentar útvarpsstöðvum.
- Það skiptir einnig máli hvernig lag er byggt upp. Helst þarf að vera stígandi í laginu, viðlag og einhver skilaboð í texta. Ekki má vera um of mikið af endurtekningum.
- Lag þarf að heilla hlustendur fljótlega og því er ólíklegt að lag með mjög löngum inngangi hljóti mikla spilun. Lög með löngum sóló-um eru heldur ekki líkleg til að hljóta spilun.
- Stöðvarnar vilja ekki spila lögin beint af netinu/streymisveitum, heldur þurfa að fá þau send í fullum gæðum. Hins vegar getur verið áhugavert að fá upplýsingar um að laginu gangi vel á streymisveitum og tengill á streymisveitur má vel vera hluti af þeim upplýsingum sem fylgja laginu.
- RÚV vill einnig gjarnan fá sent til sín eldra efni, sem ekki er nú þegar á skrá. Það er hluti af menningarhlutverki RÚV að safna einnig slíku efni, jafnvel þótt ekki sé mjög líklegt að það fari í spilun. Hægt er að senda fyrirspurn á safn@ruv.is til að athuga hvort viðkomandi verk sé skráð hjá safninu.
- Það, að lag fari ekki inn á spilunarlista, er stundum líka spurning um tímasetningu – lagið gæti hentað t.d. síðar á árinu.
- Hvernig eru tónlistarráð skipuð? Á Rás tvö er tónlistarráð skipað dagskrárgerðarmönnum. Skipanin breytist alltaf eitthvað milli ára, en ákveðinn kjarni er þó fastur. Þetta er svipað hjá Sýn.
- Fram kom að Bylgjan heldur úti n.k. tónlistarráði almennings, sem kallast „Besti vinur Bylgjunnar“. Þeir sem það skipa fá sendan 30 laga lista á þriggja vikna fresti, en á honum eru bæði vinsælustu lögin og ný lög. Ráðsmenn gefa lögum einkunn og niðurstaða úr þeim könnunum geta leitt til þess að lag fer upp eða niður á spilunarlistum. Stefnt er að því að þetta „ráð“ verði opið öllum á Vísi í framtíðinni.
- Ný tónlist er mjög teygjanlegt hugtak – lag þarf ekki að vera glænýtt til að vera áhugavert og komast í spilun. Það getur tekið hlustendur allt að 6 mánuði að þekkja nýtt lag. Að lágmarki þarf mánuð fyrir nýtt lag til að síast inn.
- Rás 2 leikur ekki eingöngu það sem kalla mætti „vinsæl“ lög, heldur er þar meira rými en á öðrum stöðvum fyrir músík sem ekki er s.k. „vinsældapopp“. Að því leyti má segja að Rás 2 sé ekki beinlínis að keppa við Bylgjuna.
- Hversu lengi er lag í spilun? Á Bylgjunni getur lag farið yfir í „sígrænan“ flokk eftir nokkra mánuði, þótt enn megi telja það nýlegt. Stundum er lagið hvílt og svo tekið upp aftur.
- Almennt fær tónlistarfólkið ekki tilkynningu um hvort lag sé tekið í spilun. Rás 2 sendir vikulega út tölvupósta með lagalista vikunnar og er þá reynt að senda einnig á viðkomandi tónlistarfólk. Best er þó að fylgjast með heimasíðu Rásar 2 til að sjá spilunarlistana.
- Hvernig er „plata vikunnar“ valin á Rás 2? Tónlistarráð tekur ákvörðun um plötu vikunnar og er þá horft til tónlistartegundar, kynjasjónarmiða, o.fl. Best er að tónlistarfólk láti vita af nýrri plötu, sem gæti komið til greina sem plata vikunnar, með löngum fyrirvara – t.d. tilkynna að eftir nokkra mánuði verði tónleikar og að þá henti að platan verði valin.
- Skiptir tungumál á texta máli? Eða það, hvort flytjandi/höfundur er íslenskur? Almennt skiptir tungumál ekki máli fyrir Rás 2. En það getur skipt máli fyrir þann sem er að hefja feril að hafa fyrstu lögin á íslensku. Íslenskir hlustendur tengja miklu frekar við tónlistarfólk sem syngur á íslensku. Viðkomandi gæti svo síðar samið á öðru tungumáli og þá náð spilun á lögum á ensku.
- Á Bylgjunni fær lagið mun meira og annað vægi frá hlustendum ef það er sungið á íslensku. Mikilvægt er að hugsa um að markaðshópur Bylgjunnar eru íslenskir hlustendur sem eru mun móttækilegri fyrir lögum á íslensku. Tilsvarandi tók sem dæmi lagið Í síðasta skipti með Friðriki Dór, en í dag sagði hann engan muna hvað það heitir á ensku.
- Blótsyrði; hefur það áhrif á að fá spilun? Á Íslandi eru engin lög sem banna gróft málfar – ólíkt t.d. í Bandaríkjum, þar sem útvarpsstöðvar geta fengið sektir, spili þau lög sem talin eru brjóta gegn velsæmi. En þótt ekkert banni slíkt hérlendis, þá geta útvarpshlustendur auðvitað stuðast, sé mikið blótað og ragnað í lögum. Best er að gæta velsæmis, geri menn sér vonir um að hljóta góða spilun.
Hvað er útgáfusamningur?
Útgáfusamningur er samningur milli framleiðanda hljóðrits og flytjanda þar sem í grundvallaratriðum framleiðandinn fær rétt til að gefa út, þ.á.m. framleiða og dreifa plötu með tilteknum flytjanda eða flytjendum. (Athugið að útgefandi er ekki það sama sem á ensku nefnist „publisher“ og nefnt er tónlistarforleggjari á Íslensku, heldur er vísað á ensku til útgefanda sem „record label“ eða „record producer“. Frekari upplýsingar um forleggjara má finna í greininni hér að ofan
Algengast er að eignarétturinn á hljóðritinu sé hjá útgefandanum og eru þau réttindi hans nefnd „masterréttindi“, en slíkt er þó umsemjanlegt. Í seinni tíð er orðið algengara að flytjendur mæti með tilbúnar upptökur til útgefanda og hann komi lítið sem ekkert að upptökuferlinu. Um leið halda flytjendurnir þá masterréttindunum hjá sér og útgefandinn sér í raun eingöngu um framleiðsluna og síðan dreifinguna.
Útgáfusamningur er ekki samningur við höfund lags og/eða texta
Mjög mikilvægt er að gera sér grein fyrir að útgáfusamningur er samningur við flytjanda en ekki höfund lags og/eða texta. Með samningnum fær útgefandi í raun rétt til að búa til upptöku með rödd og/ eða hljóðfæraleik flytjanda. Í þessu sambandi skiptir ekki máli hvort flytjandinn er einnig höfundur lagsins eins og oft er, en þó alls ekki alltaf. Samningurinn er alltaf við viðkomandi sem flytjanda en ekki sem höfund.
Leyfi höfundar fyrir útgáfu – NCB (Nordisk Copyright Bureau)
Útgefandinn þarf alltaf að tryggja sér sérstaklega réttinn til að nota tiltekið lag á plötunni og gerir hann það ekki með útgáfusamningnum, jafnvel þótt flytjandinn sé einnig höfundur. Til að fá réttinn til að gefa út lagið þarf útgefandinn að fá leyfi hjá höfundaréttarsamtökum í því landi sem að platan kemur út í. Um það gilda reglur viðkomandi samtaka og eru samtökin með sérstaka gjaldskrá fyrir útgáfu. Hér á landi annast NCB þessa leyfisveitingar fyrir hönd STEFs. Ef ekki er sótt um slíkt leyfi telst útgáfan ekki vera lögleg.
Ábyrgð á mekanískum gjöldum
Mikilvægt er fyrir flytjanda að skoða hvað útgáfusamningur sem þeim er boðinn segir um ábyrgð á greiðslum útgefanda til höfunda, en slíkar greiðslur eru oft nefnd mekanísk gjöld „mechanical rights“ sem í raun þýðir réttur til eintakagerðar. Flytjandinn ætti að sjá til þess að það sé skýrt útgáfusamningnum, að það sé útgefandinn en ekki flytjandinn annist þennan nauðsynlega hluta útgáfunnar. Gjöld fyrir hinn mekaníska rétt eru ávallt greidd til höfundaréttarsamtaka í því landi þar sem platan er gefin út og hér á landi er það NCB (Nordisk Copyright Bureau) sem annast slíkt fyrir hönd STEFs.
Hvað er greitt til höfundar í útgáfu?
Það sem útgefandinn þarf að greiða í mekanísk gjöld fer eftir gjaldskrá höfundaréttarsamtaka í því landi þar sem útgáfan á sér stað. Á Norðurlöndunum er ein gjaldskrá og samkvæmt henni greiðir framleiðandi hljóðrits 8,712% af heildsöluverði í höfundaréttargjöld. Af þessari upphæð tekur NCB lága umsýsluþóknun áður en úthlutun á sér stað til höfunda. Almenna reglan er sú að greitt er fyrir öll framleidd eintök nema um sé að ræða útgefanda með góða viðskiptasögu og stöðuga útgáfu. Getur hann sótt um að vera með svokallaðan „standard“ samning við NCB sem veitir honum þá rétt til að greiða einungis af seldum eintökum, en á móti tekur hann á sig ýmsar skuldbindingar s.s. um endurskoðun NCB á bókhaldi, greiðslu tryggingar o.fl.
Eigin útgáfa
Ef höfundur er jafnframt útgefandi, getur hann sjálfur gefið út allt að 5000 eintök án þess að greiða höfundaréttargjöld af útgáfunni í gegnum NCB, að uppfylltum neðangreindum skilyrðum. Er þetta nefnt „eigin útgáfa“ (e.related party recording), en greiða þarf umsýslugjald.
- Útgefandi (sá sem ber ábyrgð á útgáfu hljóðritsins) verður einnig að vera laga- og textahöfundur allra laganna á hljóðritinu. Ef útgefandi á eitt eða fleiri lög og jafnframt texta sjálfur, en gefur einnig út efni eftir aðra, þarf hann að greiða af útgáfunni í heild.
- Ef tveir eða fleiri höfundar eiga saman lögin á hljóðritinu geta þeir gefið sameiginlega út hljóðritið og er þá einnig hægt að veita undanþágu frá höfundaréttargjöldum.
- Ef hljóðritið er framleitt undir sérstöku vörumerki eða af lögaðila (fyrirtæki) verður það að vera að fullu í eigu höfundarins.
Samningar útgefanda um hljóðsetningu
Í útgáfusamningum er venjulega ákvæði sem veitir útgefanda rétt til að semja um notkun þriðja aðila á á útgefnu hljóðriti, eða svokallað „third party licensing“. Algengustu leyfi til þriðja aðila eru vegna auglýsingagerðar eða vegna hljóðsetningar kvikmynda og annars sjónvarpsefnis. Framleiðandi slíks efnis þarf ávallt tvenns konar leyfi áður en framleiðsla getur hafist, í fyrsta lagi þarf hann leyfi höfundar til að nota lagið sjálft oft nefnt „publishing share“ og síðan þarf hann leyfi masterrétthafa til að fá að nota tiltekna útgáfu eða flutning lagsins. Í útgáfusamningnum semur útgefandinn við flytjandann um að geta samið um slík leyfi fyrir hönd flytjanda og síðan að greiða flytjanda tiltekinn hlut af því. Hversu hátt hlutfall flytjandinn fær af slíkum tekjum er samningsatriði en algengt er að þetta skiptist til helminga. Í þessu leyfisferli byrjar framleiðandinn venjulega á að semja fyrst við höfundinn um tiltekna greiðslu og síðan fari útgefandinn fram á sambærilegan samning vegna masterréttinda.
Gæti uppgjörið þá verið eitthvað á þessa leið: (Athugið að fjárhæðir eru eingöngu settar fram í dæmaskyni.)
- Heildargreiðsla vegna hljóðsetningar tiltekins lags kr. 200.000 sem skiptist á eftirfarandi hátt:
- Greiðsla til höfunda (publisher share) kr. 100.000
- sem afturgetur skipst á milli forleggjara og höfunda skv. ákvæðum forleggjarasamnings (e. publishing agreement).
- Greiðsla fyrir masterréttindi kr. 100.000 sem skiptist síðan aftur í tvennt:
- Greiðsla til útgefanda kr. 50.000 (50% af masterréttindum).
- Greiðsla til flytjanda kr. 50.000 (50% af masterréttindum).
Skipting sölutekna á milli útgefanda og flytjanda
Útgáfusamningar eru mjög misjafnir þegar kemur að skiptingu sölutekna á milli útgefanda og flytjanda. Í því sambandi skiptir meginmáli hvort útgefandinn hefur kostað upptökur eða greitt eitthvað fyrirfram til flytjanda (e. advance). Í slíkum tilvikum, tekur útgefandinn oft hærra hlutfall sölutekna til sín, eða að hann byrjar á því að ná til baka fjárhæð sem nemur fyrirframgreiðslunni áður en hann byrjar að skipta tekjum með flytjanda. Í þessu sambandi skiptir einnig máli hvort útgefandinn skuldbindi sig að setja tiltekna fjármuni í markaðssetningu og / eða hvort hann taki þátt í t.d. gerð myndbanda við lögin eða taki þátt í kostnaði við aðra kynningu eins og tónleikaferðir flytjanda.
Hér á Íslandi má segja að tvo módel séu algengust. Annars vegar að sölutekjum sé skipt til helminga eftir að útgefandi hefur náð inn fyrir tilteknum kostnaði. Þá tíðkast einnig að útgefandi greiði flytjanda 30% sölutekna að frádregnu umbúðagjaldi fyrir fyrstu eintökin en sú tala hækki síðan með aukinni sölu og er þá ekki dreginn frá neinn annar kostnaður útgefanda áður en skiptingin á sér stað. Má segja að seinni leiðin sé mun gegnsærri og þarf flytjandi þá ekki að hafa áhyggjur af þeim kostnaði sem útgefandi leggur í markaðssetningu o.fl., en fyrri leiðin getur hugsanlega gefið meira af sér ef kostnaði er haldið í lágmarki. Eftirlit með kostnaði getur þó verið erfitt fyrir flytjendur og ef slík leið er farin skiptir máli að útgefandi geti ekki lagt út fyrir kostnaði án samþykkis flytjanda nema að mjög takmörkuðu leyti. Báðar þessar leiðir eiga helst við ef útgefandinn annast eingöngu dreifingu og flytjandinn á masterréttindin en ekki útgefandinn. Ef svo er ekki, getur hlutdeild flytjanda verið enn lægri eða allt frá 16-25% og er algengt að sjá slíkar tölur í erlendum útgáfusamningum.
Aðalflytjendur – aukaflytjendur
Útgáfusamningar eru venjulega gerðir við tiltekna söngvara eða einleikara. Eru þeir svokallaðir aðalflytjendur á viðkomandi hljóðriti. Til að hljóðritið verði að veruleika þarf þó langoftast að kalla til bakraddarsöngvara og meðleikara. Hins vegar eru venjulega ekki gerðir sérstakir útgáfusamningar við þessa aðila, heldur fá þeir greidda eingreiðslu fyrir þann tíma sem þeir setja í verkefnið, burtséð frá sölu eða tekjum af viðkomandi hljóðriti. Ef um er að ræða upptökur á verkum heillar hljómsveitar teljast meðlimir hennar venjulega allir aðalflytjendur og er þá gerður einn útgáfusamningur við þá sameiginlega.
Einkaréttur útgefanda
Eitt af því sem samið er um í útgáfusamningi, er einkaréttur á að gefa út hljóðritið í tiltekinn tíma, sem oft er nokkur ár. Ef útgefandinn stendur ekki við sinn hluta samningsins og platan kemur aldrei út, getur flytjandinn orðið fyrir allnokkru tjóni, enda er hann bundinn við að gefa ekki út þessi sömu verk sjálfur eða með aðstoð annars útgefanda á gildistíma samningsins. Er því gott að í samningnum komi fram skýrt að útgefandinn skuldbindi sig til að gefa út plötuna innan tiltekins tíma frá því að masterinn er tilbúinn, að öðrum kosti falli samningurinn niður. Er þetta nefnt „release commitment“ á ensku.
Ef útgefandinn er eigandi mastersins og útgefið upplag sem gefið var út í byrjun er uppselt, getur sú staða komið upp að hljóðrit verði ófáanleg, enda ólíklegt að útgefandi sjái nægan fjárhagslegan ávinning til að fara út í endurútgáfu og dreifingu. Hins vegar er það e.t.v. vilji flytjanda að efnið sé áfram fáanlegt auk þess sem hann sjálfur getur hugsanlega sjálfur haft af því ávinning að selja það beint til neytenda s.s. á tónleikum sem hann heldur. Til að koma í veg fyrir þessa stöðu er gott að flytjandi og útgefandi ræði um þetta við gerð útgáfusamningsins og semji þá annaðhvort um skyldu útgefanda að efnið sé fáanlegt eða veiti flytjanda heimild til að endurútgefa það að ákveðnum tíma liðnum og þá á sinn kostnað.
Er upptökustjóri útsetjari nútímans?
Að öllum hljóðritum koma upptökustjórar en hins vegar er hlutverk þeirra eins misjafnt og þeir eru margir. Stundum útvegar útgefandinn upptökustjóra, stundum eru flytjendurnir sínir eigin upptökustjórar og stundum finnur flytjandinn upptökustjóra til að vinna með sér. Sumir upptökustjórar taka þátt í hinu skapandi ferli við hljóðritunina en aðrir fá fullmótað efni til að vinna með. Allt að einu er samið við upptökustjórann um hans verkþátt og greiðslu fyrir það og fer það eftir útgáfusamningnum hvort sá kostnaður fellur á flytjanda eða útgefanda.
Ef upptökustjórinn tekur þátt i hinu skapandi ferli, getur myndast ástæða til að skoða hvort hann fái hlutdeild í höfundarétti verksins. Slíkt gerist þó aldrei sjálfkrafa heldur verða upprunalegir höfundar verksins ávallt að samþykkja hlutdeild annarra eins og upptökustjóra eða útsetjara í verkinu. Algengast er þá að upptökustjórinn fái 1-2 punkta af punktum lagahöfunda, en allur gangur er þó á slíku.(Lagið í heild telur 12 punkta). Í þessu sambandi getur skipt máli hver upptökustjórinn er og orðspor hans. Til að geta átt hlutdeild í verkinu telst almennt ekki nægilegt að upptökustjórinn breyti tóntegund, eða umskrifi verkið fyrir nýtt hljóðfæri eða vinni það sem almennt telst „handavinna“ í þessum geira. Hlutdeild upptökustjórans nær þó ávallt eingöngu til hinnar hljóðrituðu útgáfu en ekki upphaflegrar lagasmíðar ef hún er frábrugðin hinni hljóðrituðu útgáfu. Ef um slíkt er að ræða er mikilvægt að aðgreina þessar tvær mismunandi útgáfur verksins við skráningu hjá STEFi.
Dreifingarsvæði
Í útgáfusamningi er ávallt samið um hversu stórt það svæði er sem einkaréttur útgefandans nær til. Ef samið er við einhvern af „stóru“ útgáfufyrirtækjunum í Bandaríkjunum má gera ráð fyrir að samningurinn nái til alls heimsins, enda eru þessi fyrirtæki með mjög víðtækt dreifingarnet. Minni útgáfufyrirtæki gera hins vegar oft samninga um tiltekið dreifingarsvæði t.d. Ísland eingöngu eða nokkur lönd eða jafnvel stærri svæði eins og alla Evrópu og Bandaríkin. Slíkt getur verið skynsamlegt fyrir flytjendur ef þeir eiga sjálfir masterinn þar sem þeir geta þá fundið aðra dreifingaraðila fyrir hljóðritið á þeim svæðum sem upphaflegur útgefandi gefur hljóðritið út. Ekki er gott að lenda í því að vera búinn að semja um einkarétt á útgáfu á stóru svæði ef viðkomandi útgefandi / dreifingaraðili hefur ekki þau dreifingarnet og tengsl sem til þarf á öllu svæðinu.
Úthlutun til flytjenda á flutningsréttartekjum – Hljóðrit.is
Við spilun á hljóðriti opinberlega myndast réttur til innheimtu leyfisgjalds hjá flytjanda og útgefanda. Hér á landi fer Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda – SFH með þennan rétt. (http://sfh.is/ (Opnast í nýjum vafraglugga)) Ekki er nauðsynlegt fyrir flytjendur að vera meðlimir í samtökunum til að eiga rétt á greiðslu fyrir flutning frá þeim en útgefendur verða að sækja um aðild að samtökunum. Samkvæmt alþjóðasáttmálum skiptist greiðsla vegna flutnings síðan til helminga milli framleiðanda annars vegar og flytjenda hins vegar.
Til þess að hægt sé að tengja saman flytjendur við einstök hljóðrit verður útgefandi þeirra þó að skrá hljóðritin á www.hljodrit.is og er skráning hljóðritsins forsenda þess að flytjendur geti fengið úthlutað frá samtökunum. Erlendis þekkist að samið sé um að upptökustjóri fái hlutdeild í þessum tekjum flytjenda.
Milli STEFs og SFH er í gildi samstarfssamningur þar sem STEF tekur að sér að innheimta tiltekin gjöld fyrir SFH, er þar aðallega um að ræða innheimtu hjá smærri viðskiptavinum sem leika hljóðrit opinberlega, eins og veitingastaðir og verslanir. STEF úthlutar hins vegar ekki þessum tekjum sem það innheimtir fyrir SFH, heldur gerir SFH það sjálft og til flytjanda í gegnum FÍH og önnur félög þeirra.
Rafræn dreifing
Rafræn dreifing hljóðrita verður æ mikilvægari. Í útgáfusamningum er ávallt kveðið á um til hvers konar miðla útgáfan eða dreifingin nái og hvort um sé að ræða útgáfu á CD, LP með eða án rafrænnar dreifingar verkanna á plötunni. Oft er samið um að sama skipting tekna gildi milli útgefanda og flytjanda af tekjum af rafrænni sölu eins og annarri sölu, en slíkt er þó alls ekki algilt. Stærri útgefendur eru venjulega með beina samninga við helstu rafrænu tónlistarveiturnar eins og t.d. Spotify og spara sér þar með að fara í gegnum milliliði rafrænnar dreifingar hljóðrita, svokallaða „aggregators“. Þeir sem gefa út efni sitt sjálfir þurfa hins vegar að reiða sig á þessa milliliði sem ýmist taka tiltekna prósentu af tekjum sem í gegnum þá fara eða eingreiðslu fyrir hvert verk sem þeir dreifa rafrænt.
Útgefandinn tekur við tekjum af streymi og rafrænni sölu frá tónlistarveitum og skiptir þeim síðan á milli sjálfs síns og viðkomandi flytjanda. (Samkvæmt upplýsingum frá Spotify segjast þeir greiða 57% tekna sinna til útgefanda og flytjenda). Höfundar verka á tónlistarveitum fá hins vegar greitt fyrir streymi og rafræna sölu í gegnum STEF.
Heimild til framsals
Í útgáfusamningum er oft samið um framsalsheimild útgáfunnar á réttindum skv. samningnum. Getur slíkt verið nauðsynlegt fyrir útgáfuna t.d. vegna samruna eða sölu útgáfunnar. Slíkir atburðir geta þó haft veruleg áhrif einnig á flytjandann og er rétt að hann hugi að því að tryggja sína stöðu einnig við slíkt framsal, þannig að hann hafi þá heimild til að segja upp samningnum. Slíkt getur t.d. verið mjög mikilvægt ef gjaldþrot verður hjá útgáfufyrirtækinu eða það hættir starfsemi án þess að um forlegt gjaldþrot er að ræða.
Þegar útgáfusamningur er undirritaður er það venjulega vegna þess að einhver hjá útgáfunni hefur trú á þér og þinni tónlist og vill vinna með þér að framgangi ferils þíns. Ef viðkomandi aðili hættir störfum hjá útgáfunni, hvort sem að slíkt gerist við sölu útgáfunnar til annars fyrirtækis eða hann ákveður að hætta að eigin frumkvæði getur skipt máli að flytjandinn tryggi sér í útgáfusamningnum að hann geti ef þessi lykiltengiliður hans við fyrirtækið hættir störfum, þá um leið lokið samstarfinu við útgáfufyrirtækið. Mörg dæmi eru til um að þegar sá aðili sem trúði á tónlistarmanninn hætti störfum hafi forsendur samstarfs breyst mjög til hins verra fyrir flytjandann og hann getur átt það á hættu að vinna við hans feril sé ekki lengur forgangsatriði og hann þannig læsist inni í samstarfi sem er ekki að gefa það af sér sem á var stefnt í upphafi.
Ábyrgð flytjanda
Í útgáfusamningum ábyrgist flytjandi venjulega að hann hafi fullt umboð til að undirrita samninginn, þ.e.a.s. að þeir séu ekki þá þegar samningsbundnir annarri útgáfu. Þá skuldbindur flytjandi sig venjulega til að taka þátt í kynningarstarfsemi á plötunni s.s. að fara í viðtöl, heimila myndbirtingar og annað kynningarefni og jafnvel fara í tónleikaferðir. Um kostnað vegna slíkra ferða þarf þá að semja sérstaklega og ef hann er greiddur af útgáfunni getur útgáfufyrirtækið dregið kostnaðinn af sölutekjum flytjanda, þannig að mjög mikilvægt er að útgáfufyrirtækið hafi samráð við flytjendur áður en ákvarðanir eru teknar um útgjöld.
Hvað gerist ef einhver í hljómsveitinni hættir í miðju útgáfuferli?
Ef hljómsveit gerir útgáfusamning sem ein heild er ekki óalgengt að útgefandinn áskilji sér rétt til að rifta samningi hætti einhver í hljómsveitinni á gildistíma samningsins. Ef slíkt gerist má gera ráð fyrir að flytjendur þurfi að endurgreiða fyrirframgreiðslur frá útgefanda. Mikilvægt er að huga að því að í slíkum tilvikum sé ekki hægt að krefja hvern flytjanda fyrir sig um endurgreiðslu á hærri fjárhæð en hann fékk sjálfur, þannig að einstakir hljómsveitarmeðlimir sitji ekki uppi með skuldir vegna fyrirframgreiðslu til annarra hljómsveitarmeðlima. Sama á við um samninga sem hljómsveitir gera í einu lagi við forleggjara (e. publishera). Vitum við um tilvik hér á landi þar sem einstakir hljómsveitarmeðlimir sem hafa farið út í árangursríkan sólóferil eftir eða samhliða því að spila í hljómsveit, hafi séð lítið af peningum frá forleggjurum vegna endurgreiðslu á fyrirframgreiðslum til annarra hljómsveitarmeðlima.
Kynningareintök – eintök til rétthafa – gefins og til sölu t.d. á tónleikaferðum
Í útgáfusamningi þarf að semja um hversu mörg eintök flytjendur fái til sín og sem þeir geta nýtt í eigin þágu eða til kynningar. Geta það t.d. verið 50 eintök endurgjaldslaust eða 100 eintök á kostnaðarverði. Þá er einnig samið um hversu mörg eintök útgefandinn sjálfur getur gefið eða nýtt í kynningarstarfsemi en af þeim eintökum greiðir hann flytjendum ekki sölutekjur. Hvað varðar greiðslu höfundaréttargjalda af kynningareintökum, eru það reglur NCB að hægt er að merkja allt að 15% upplags sem kynningareintök, en af þeim eru þá greidd lágmarkshöfundaréttargjöld.
Mikilvægt er einnig að flytjendur semji einnig við útgefanda um á hvaða verði þeir fá afhenda diska til áframhaldandi sölu, en fyrir marga flytjendur er sala geisladiska á tónleikum mikilvægur tekjupóstur. Af þeim diskum fá þeir þá bæði flytjendalaun svo og smásöluálagningu eins og aðrir endursöluaðilar og því skiptir það máli að flytjendur fá diskana á eins hagstæðu verði og hægt er frá útgefandanum.
Listrænt frelsi
Óalgengt er hér á landi að útgefendur skipti sér að listrænu innihaldi plata sem þeir gefa út. Slíkt er þó þekkt erlendis, þar sem t.d. samið er um að útgefandinn hafi lokaákvörðun um hvaða lög fara á tiltekna plötu, hvort og hvernig myndbönd eru gerð og hvernig mastering og remix eru höndluð og jafnvel hvernig útlit flytjanda á að vera og hans ímynd. Ef flytjendur eru einnig höfundar þeirra verka sem þeir flytja eru þeir venjulega í mun betri samningsaðstöðu hvað þetta varðar og ólíklegra að útgefandinn setji höft á þeirra listræna frelsi.
Það er grundvallarregla um verndun hugverka að verndin nái einungis til sjálfstæðrar, listrænnar sköpunar. Því geta réttindi aldrei náðst fyrir eftirlíkingar eða útvíkkun á því sem aðrir hafa skapað. Útsetningar eru því metnar eftir því hverju þær bæta við upprunalega verkið. Flest allar útfærslur, sem verið er að gera á einstökum verkum, falla EKKI undir sjálfstæða, listræna sköpun, en má fremur líkja við misflókið og viðamikið handverk.
Útsetningar fyrir einstök hljóðfæri eða smáar hljómsveitir fá því að öðru jöfnu aðeins útsetjarahlut að um sjálfstæða listsköpun með hliðsjón af frumverkinu sé að ræða og að það sem gert hefur verið nái út fyrir það sem krefjast þarf til að hægt sé að flytja verkið með þeirri hljóðfæraskipan og þeim röddum sem gengið er út frá. Ýmislegt fleira skiptir máli í mati á útsetningu, t.d. hvort hljómsetning fylgir ríkjandi hefðum innan þess stíls sem útsett er í eða hvort hún telst frumleg og gegnsamin og í grundvallaratriðum ólík því sem hefðin segir til um varðandi hljómsetningu og laglínu upprunalagsins.
Uppfylli útsetning skilyrðið um sjálfstæða og listræna sköpun getur hún orðið grundvöllur til úthlutunar höfundaréttartekna frá STEFi, skv. þeim reglum sem um slíkt gilda.
Gerður er greinamunur á útsetningu þjóðlaga (og öðrum óvernduðum verkum) og útsetningu á verkum sem njóta höfundaréttarverndar.
Það er grundvallaratriði við útsetningu verndaðra verka að leyfi tónhöfundar (rétthafa) þarf fyrir útsetningunni, enda telst útsetning vera breyting á upphaflegu verki. Í slíku leyfi þarf þó ekki að felast afsal tónhöfundar á hlutdeild í höfundaréttargreiðslum vegna verksins, en um slíkt geta tónhöfundur og útsetjari samið. Sama gildir ef tónhöfundur biður um að verk sitt sé útsett.
Fallist tónhöfundur á að útsetjari fái hlutdeild í eldra tónverki, verður í raun til nýtt verk í gagnagrunni STEFs, með annarri skiptingu höfundaréttar en upphaflega verkið.
Við skráningu hlutdeildar til útsetjara er gert ráð fyrir að útsetningin fullnægi lágmarkskröfum um útsetningu. Slíkt felur í sér að útsetjarinn hafi skilað sjálfstæðu frumlegu framlagi við upprunalega verkið. STEF áskilur sér rétt til að meta framlag útsetjara að þessu leyti og breyta eða afnema skráningu á útsetjarahlut í kjölfarið.
Í reglum um útsetningu þjóðlaga (sbr. tilheyrandi töflu hér að neðan) kemur fram, að við skráningu slíkra útsetninga hjá STEFi sé gert ráð fyrir að útsetningin fullnægi lágmarkskröfum um útsetningu.
Í úthlutunarreglum STEFs kemur skýrt fram að hlutur útsetjara í verki getur aldrei orðið hærri en 16,67% (sbr. töflu hér að neðan), á það jafnt við um útsetningu á þjóðlagi sem og verkum í vernd. Geri höfundur og útsetjari með sér samkomulag um hærra hlutfall í höfundarétti, verður að skrá útsetjarann sem meðhöfund verks.
_______________________________
Leiðbeiningar til tónhöfunda og útsetjara við gerð samkomulags um hlutdeild í höfundaréttargreiðslum vegna útsetningar verndaðra verka
Sá sem kýs að útsetja verndað tónverk, þarf að fá leyfi höfundar á útsetningunni, enda felst í útsetningunni breyting á upphaflegu verki höfundar. Höfundi/rétthafa er í sjálfsvald sett hvort hann afsalar sér hlut af höfundaréttargreiðslum til útsetjarans.
Sá sem tekur að sér að útsetja verk fyrir höfundinn að beiðni hans, eignast EKKI sjálfkrafa rétt á hlut í verkinu og fer þar í öllu eftir sömu reglum og að ofan.
Tilkynna þarf um útsetningu verks til STEFs um leið og verkið er skráð og þá hvort og hversu stóran hlut á að færa af tónskáldi til útsetjara ef um slíkt er að ræða. Ævinlega þarf undirskrift höfundar að fylgja tilkynningu. Algengt er að útsetjari fái greidda eingreiðslu fyrir verk sitt í stað hlutdeildar í höfundaréttargreiðslum, en þetta er samkomulagsatriði milli höfundar lags og útsetjara.
Hlutur útsetjara, sem samþykktur hefur verið, nýtur í alla staði sömu verndar og verkið sjálft og verður ekki afturkallaður.
Þegar um er að ræða útsetningu á vernduðu verki, er hlutur útsetjara 2/12 og dregst hann af hlut tónskáldsins, sem hér segir:
- Útsett tónverk án texta: Tónhöfundur fær 10/12 (83,33%) og útsetjari 2/12 (16,67%)
- Útsett tónverk með texta, ef textahöfundur er óþekktur eða nýtur ekki höfundaréttarverndar: Tónhöfundur fær 6/12 (50%) og útsetjari 2/12 (16,67%).
- Útsett tónverk samið við eldri texta. Tónhöfundur fær 6/12 (50%), útsetjari 2/12 (16,67%) og textahöfundur 4/12 (33,33%).
- Útsett tónverk og texti, samið samtímis: Tónhöfundur fær 4/12 (33,33%), útsetjari 2/12 (16,67%) og textahöfundur 6/12 (50%).
Í sérstökum undantekningartilvikum getur verið réttlætanlegt að hlutur útsetjara sé stærri eða sem nemur 3/12, eða 25% og á það við þegar um er að ræða verulega úrvinnslu tónverks með ótvíræðu listrænu tilleggi útsetjarans, s.s. með frumlegri hljómrænni úrvinnslu, viðbótum og eða rytmískum tilfærslum.
_______________________________
Reglur um útsetningu þjóðlaga
- Þjóðlög eru eign þjóðarinnar og standa öllum til frjálsra afnota. Höfundar geta aldrei eignast höfundarétt í þjóðlögum.
- Öll verk sem ekki njóta lengur höfundaréttarverndar eða þar sem höfundur er ókunnur teljast vera þjóðlög.
- Útsetjari þjóðlags fær 3 punkta fyrir útsetningu þess. Útsetjari á höfundarétt að útsetningu sinni.
- Við skráningu útsetningar er gert ráð fyrir að útsetningin fullnægi lágmarkskröfum um útsetningu. Slíkt felur í sér að útsetjarinn hafi skilað sjálfstæðu frumlegu framlagi við upprunalega verkið. STEF áskilur sér rétt til að meta framlag útsetjara að þessu leyti og breyta eða afnema skráningu á útsetjarahlut í kjölfarið. Matsnefnd STEFs sem skipuð er tveimur sérfræðingum annast mat fyrir STEF.
- Reglur þessar tóku gildi með samþykkt fulltrúaráðs STEFs þann 11. desember 2012 og gilda fyrir þær útsetningar, sem óskað er eftir skráningu á, frá og með því tímamarki.
_______________________________
Leyfi fyrir textum
Á árinu 1996 var verklagi hjá STEF breytt hvað varðar skráningu íslenskra texta við erlend lög. Frá þeim tíma hefur verið farið fram á skriflegt leyfi hins erlenda tónhöfundar fyrir íslenska textanum, að öðrum kosti úthlutar STEF ekki höfundaréttargreiðslum vegna opinbers flutnings verksins til hins íslenska textahöfundar. Þann 31. desember 2012 hætti STEF síðan endanlega að úthluta fyrir flutning verka með erlendum textum þar sem ekki hefur verið hægt að sýna fram á skriflegt samþykki fyrir, jafnvel þótt verkin hefðu verið skráð hjá STEFi fyrir árið 1996. Var verklaginu breytt eftir ítarlega umfjöllun stjórnar STEFs og eftir umfangsmikla kynningu á þessum breytingum til meðlima STEFs sem um leið var boðin aðstoð við að reyna að afla nauðsynlegra leyfa.
Fyrir flutning á íslenskum textum við erlend lög þar sem ekki er hægt að sýna fram á leyfi fyrir hinum íslenska texta fær því erlendi laga- og textahöfundurinn úthlutað eins og upprunalegi textinn væri fluttur.
STEF hvetur alla þá textahöfunda sem eiga skráða texta hjá STEFi, en hafa ekki fengið leyfi fyrir textunum hjá hinum erlendu lagahöfundunum, að sækja um slík leyfi. Félag tónskálda- og textahöfunda (FTT) getur veitt textahöfundum sem eru meðlimir í FTT aðstoð við að sækja um leyfi fyrir textum sínum.
Sækja um leyfi fyrir íslenskum texta við erlent lag.